mánudagur, 30. apríl 2012

Er líf eftir Kristnes?

OK, hér er ég að fá lánaðan titil fyrirlesturs sem Heiða hjúkrunarfræðingur hélt fyrir okkur í síðustu viku  endurhæfingarinnar. Það er dálítið sérstakt að hafa verið í vernduðu umhverfi þetta lengi og eiga svo að fara út í lífið aftur.

Mér fannst stór kostur við að vera þarna, að hinir í hópnum voru á sama plani og maður sjálfur, og engin upplifun af því að vera með tvöfaldan persónuleika. Þetta með tvöfalda persónuleikann plagar mig einhverra hluta vegna meira en margt annað. Að líta út fyrir að vera frísk og full af orku, t.d. í vinnu og innan um annað fólk, og koma svo heim og hrynja saman. En já sem sagt, mér fannst það ótrúlega góð tilfinning að vera þarna þar sem allir vissu hvernig ástandið á mér var, og ég gat fengið að vera þreytt úti í horni ef svo bar undir.

Í dag var svo fyrsti vinnudagurinn eftir Kristnesdvölina. Það telst ekki með þó ég hafi unnið einhverjar 2-3 vaktir á meðan á endurhæfingunni stóð. Ég ætlaði að reyna að taka því rólega og það tókst svona nokkurn veginn. Samt var ég orðin ógurlega lúin þegar ég fór heim eftir 5 tíma vinnu. En ég hef reyndar sofið hálf illa undanfarið svo það gæti spilað inn í.

sunnudagur, 29. apríl 2012

Hjóltúr

Mér fannst svolítið skemmtilegt í endurhæfingunni að fylgjast með því hvað ég gekk langt í þessum daglegu gönguferðum. Vegastikurnar voru merktar og við áttum að skrá samviskusamlega vegalengdina sem við fórum. Ég nefndi þetta við Val og þá minnti hann mig á að ég ætti Garmin hlaupaúr, sem ég NB fékk í jólagjöf frá honum fyrir einhverju síðan. Þannig að núna ætla ég að mæla alla markvissa hreyfingu hjá mér, sama hversu lítilfjörleg hún er. Svo hleður maður þessum upplýsingum inn í tölvuna og viti menn, út kemur allt þetta sem sjá má ef smellt er á tengilinn hér að neðan. Já, við Valur fórum sem sagt í örstuttan hjóltúr áðan.

Hjóltúr by gudnypalina at Garmin Connect - Details

Hér er svo mynd sem sýnir hvernig vegastikurnar við Kristnes eru merktar.


laugardagur, 28. apríl 2012

Vangaveltur á laugardegi

Það er eitt sem gerist þegar maður fer út úr því umhverfi sem maður lifir venjulega í, og fær fjarlægð á þetta daglega líf sitt. Maður fer að setja spurningamerki við ýmislegt sem maður hefur ekki tíma eða orku til að velta fyrir sér svona dags daglega. Sem er náttúrulega bara af hinu góða, allir ættu að leggjast í smá naflaskoðun af og til.

Í mínu tilviki þarf ég líka að fara að horfa á hlutina út frá því sjónarhorni að þó ég vilji ekki að láta vefjagigtina stjórna mínu lífi, þá hefur hún verið að gera það hin síðari ár, og næst á dagskrá er að finna leið til að lifa með henni án þess að hún gleypi stærstan part af lífi mínu. Það þýðir líka að ég þarf að sættast við hana, eða við tvær þurfum að ná einhvers konar samkomulagi eða málamiðlun. Það þýðir ekkert að láta eins og hún sé ekki þarna, heldur þarf ég að ná betri færni í að skipuleggja mig og framkvæma hluti, með það bak við eyrað að "less is more". Það er að segja, gera frekar minna til þess að eiga svo meiri orku og betri líðan. Sjúkraþjálfarinn var t.d. ekkert voðalega ánægð með mig að hafa farið í þessa löngu göngu upp í skóg og upp töluverðan bratta, því næsta dag var ég svo þreytt í fótunum að hún sá langar leiðir að göngulagið var stórundarlegt hjá mér. Þá er það "lati fótur" sem fer að haga sér illa og lætur ekki alveg að stjórn. Mér finnst reyndar ágætt að vera búin að fá að vita nákvæmlega hvaða vöðvi það er sem er svona latur, en það er stóri vöðvinn aftan á lærinu.

Á vafri mínu á netinu rakst ég á nokkuð skemmtilega mynd. Þetta er einskonar yfirlýsing sem þrír viðskiptafélagar skrifuðu í stað þess að gera viðskiptaáætlun. Í henni kemur fram hvað þeir vilja fá út úr lífinu og má segja að þetta sé þeirra lífsspeki í hnotskurn. Þessi yfirlýsing kallast "The Holstee Manifesto" og ef einhver vill lesa meira um þá félaga er það hægt hér. (Athugið að það þarf að skrolla aðeins niður á síðuna).


fimmtudagur, 26. apríl 2012

Að ganga meðfram sjónum er sálubót

A sunny day by the sea by Guðný Pálína

Það er ekki langt síðan ég skrifaði um það hér á bloggið hvað mér þætti gott að vera nálægt sjónum. Nú hefur verið sýnt fram á það að ég er ekki ein um þessa skoðun, og að ganga meðfram sjó skapar meiri vellíðan en önnur útivera. Samanber frétt á RÚV.is um þetta mál. 
Í dag fór ég í langa göngu hér upp í skóginn fyrir ofan Kristnes og leið vel með það. Gekk samt helst til langt, og mjaðmir og fleiri líkamspartar voru farnir að kvarta þegar ég kom í hús aftur. Einhverra hluta vegna þá heyrði ég ekki jafn hátt og venjulega í röddinni hans Vals " þú manst að þú þarft líka að komast til baka". Það verður spennandi að sjá hvernig ég verð á morgun, hvort ég þarf að borga mikið fyrir þetta útstáelsi mitt. Skógurinn er aðeins að vakna til lífsins, en það gengur nú hægt, enda frekar kalt þessa dagana. Í dag var samt sól og afskaplega fallegt veður. Ég ætlaði bara rétt að fá mér frískt loft en endaði svo á því að ganga þennan stóra hring, og hluti af honum er frekar brött brekka, en ég hlýt nú bara að vera að styrkjast eitthvað úr því ég "flaug" svona upp hana ;-) Svo tók ég nokkrar myndir en af því við höfum verið að læra svo mikið um líkamsstöðu, vinnustellingar ofl. þá áttaði ég mig á því að ég er stundum öll í einum keng þegar ég er að taka myndir. Lyfti öxlunum upp að eyrum og pressa hnakkann einhvern veginn asnalega, þannig að mér verður illt í hálsinum aftanverðum. Við vorum líka að æfa okkur að lyfta þungu í dag og ég sem hélt að ég væri að gera þetta allt rétt, er að hreyfa hálsinn eitthvað asnalega þegar ég er að lyfta. Verð að passa mig því ég er greinilega að verða eitthvað tæp í hálsinum. Vil helst ekki fá brjósklos þar líka... 
Annars er víst síðasti dagurinn hér á morgun. Sem er frekar skrítið. Bæði hefur tíminn hérna liðið alveg hreint ótrúlega hratt, og eins þá vildi maður hálf partinn vera lengur til að sjá enn meiri árangur. En þau mæla með því að ég haldi áfram í sjúkraþjálfun og sjúkraþjálfarinn minn talaði reyndar um að hún teldi að ég hefði gott af því að vera í sjúkraþjálfun í hálft ár í viðbót. Ég veit nú ekki hvort það verður raunin, en það er alla vega um að gera að hamra járnið meðan það er heitt, og drífa sem fyrst í því að byggja ofan á það sem búið er að gera hér. Það var nú ekki bara ég sem varð fyrir smá vonbrigðum þegar ég áttaði mig á því að maður sigrar ekki heiminn á 4 vikum í endurhæfingu, þetta var nokkuð sem þau hin í hópnum höfðu líka haft smá ranghugmyndir um. Engu að síður er ég komin nokkuð á veg og vonandi heldur ástandið bara áfram að batna. Vefjagigtin mun náttúrulega ekki fara neitt, en ég óska þess heitast að þetta þreytuvandamál mitt minnki eitthvað og helst hverfi alveg... Það má láta sig dreyma ;-)

mánudagur, 23. apríl 2012

Síðasta vikan á Kristnesi



Og ætli sé ekki bara málið að reyna að njóta hennar í botn. Ég er nokkuð spræk í dag, og þá dett ég í bjartsýniskast og finnst að nú sé allt á uppleið. Sem það vonandi er. Ég finn að það hefur gert mér gott að vera hér og nú finnst mér loks eins og ég sé að nálgast núllið, svona orkulega séð, eftir að hafa verið svo alltof lengi í mínus. En þá skiptir líka máli að ana ekki fram úr sjálfri sér, þ.e. að klára ekki jafnóðum þá litlu orku sem ég hef. Það verður gríðarleg áskorun, og spurning hvernig mér tekst það. Ég geri mér grein fyrir því að það mun ekki verða þrautalaust, sérstaklega af því þegar ég byrja að vinna þá næ ég ekki að stjórna því sjálf hvenær ég slaka á og hvenær ég er á fullu.

Svo er þetta eiginlega tvískipt hjá mér. Það er annars vegar þreytan og hins vegar lélegur skrokkur. Það er svo erfitt að þjálfa minn lélega skrokk af því ég bregst svo vitlaust við allri áreynslu. Við erum kannski að þjálfa bakið og þá á ég að gera eitthvað með höndunum. Sem hefur þau áhrif að ég þreytist í bakinu þann daginn, en vakna næsta dag og er alveg að drepast í höndunum. Vefjagigtin gerir það að verkum að það tekur mun lengri tíma fyrir mig að ná bakinu góðu, heldur en "venjulega" manneskju sem er bara með bakvandamál (segir sjúkraþjálfarinn).

Sjúkraþjálfarinn var að segja við mig í morgun að hún teldi að ég hefði gott af því að halda áfram í sjúkraþjálfun í 6 mánuði í viðbót. Þá væri hægt að byggja ofan á það sem við höfum verið að gera, og svo í framhaldinu að yfirfæra þjálfunina á daglegt líf, t.d. að nota litlu bakvöðvana þegar ég er að synda o.s.frv. Það er bara verst að ég get ekki haldið áfram hjá þessum sjúkraþjálfara, hún er svo fín.

En það mikilvægasta í þessu öllu er að ég sjálf læri inná mig og hlusti á líkamann. Sé ekki að þvinga mig áfram þegar ég er þreytt - en það er nokkuð sem ég hef gert í mörg ár og hefur ekki reynst mér vel. Þannig að nú þarf ég að prófa aðra aðferðafræði.


sunnudagur, 22. apríl 2012

Hálf misheppnuð ljósmyndaferð

Subtle landscape by Guðný Pálína
Subtle landscape, a photo by Guðný Pálína on Flickr.
Eftir að hafa hangið heima í allan gærdag langaði mig að komast aðeins burt úr bænum. Þannig að í morgun drifum við Valur okkur af stað í Mývatnssveit. Ekki lofaði veðrið neitt sérlega góðu, svona ljósmyndalega séð, en við héldum að það myndi kannski birta til þegar liði á daginn. Við vorum nú samt ekki nema hálfnuð á leiðinni austur og þá var ég orðin eitthvað svo ógurlega þreytt og syfjuð, og smitaði Val þannig að við geispuðum í kór síðasta spölinn.

Við Mývatn var lágskýjað og fátt um spennandi ljósmyndamöguleika. Við fórum samt aðeins úr bílnum við Dimmuborgir og svo aftur við tjaldstæðið, en þangað hef ég aldrei komið. Það var kalt og napurt þarna niðri við vatnið og ég var orðin slöpp og skrítin eitthvað. Þannig að við settumst bara upp í bílinn aftur og ókum heim á leið. Ákváðum að fara aðra leið að hluta, og ókum yfir Hólasand og niður að Laxárvirkjun. Þessi mynd hér er tekin á Hólasandi. Við stoppuðum aðeins við Laxárvirkjun og ég smellti líka af mynd þar, hún kemur kannski seinna. Þegar við vorum komin heim tók svo við heljarinnar afslöppun. Við spjölluðum við Hrefnu á Skype og svo fór ég að lesa spennandi bók sem Valur gaf mér í gær. Hún heitir "The end of illness" og er eftir David B. Agus en hann er læknir. Mér líst vel á það sem ég hef lesið en hún fær greinilega misjafna dóma á Amazon.

Annars er aðalfrétt helgarinnar sú að Andri fór í flugpróf í gær og er þar með kominn með réttindi sem einkaflugmaður. Á bara eftir að fá prófskírteinið í hendurnar. Frábært hjá honum, því aðstæður voru frekar erfiðar í fluginu, en allt gekk vel, sem betur fer. Þá er það bara atvinnuflugnámið næst :-)

laugardagur, 21. apríl 2012

Sykur - Minn forni fjandi

Já það er alveg ótrúlegt hvað mér gengur illa að hætta að borða sykur. Og þegar ég segi sykur þá meina ég ekki bara hvítan unninn sykur, heldur allt sætt, plús matvara sem hefur sömu áhrif og sykur þegar hún kemur út í blóðrásina. Þegar ég fór á Kristnes bað ég um að fá sérfæði, þ.e. mat án glúteins, mjólkur og eggja. Ég hélt að það myndi ekki þýða að biðja um sykurlaust fæði því þá fengi ég bara mat með gervisykri s.s. aspartam eða öðru, þannig að ég sleppti því. Fyrst í stað fékk ég einhverjar sætar kökur með kaffinu en lét þá fréttast að ég væri ekki fyrir sætabrauð, og fékk ávexti í staðinn.

Málið er bara að ég tók nánast alla ávexti út úr mataræðinu í haust þegar ég fór á kolvetnasnauða-fituríka fæðið, en um leið og ég fór að borða þá aftur núna, þá kveiktu þeir á sykurlönguninni hjá mér. Þá skiptir engu máli þó þeir séu vissulega þúsund sinnum hollari en hvítur sykur, því um leið og búið er að kveikja á "umm hvað er gott að fá eitthvað sætt á tunguna" takkanum í heilanum á mér, þá hefst gamla rússíbanareiðin enn og aftur. Mig langar í eitthvað sætt, læt undan lönguninni og líður dásamlega í smá stund. En mjög fljótlega fer ég að verða sljó yfir höfðinu og þegar blóðsykurinn fellur enn frekar þá verð ég ógurlega þreytt og framtakslaus. Langar mest að leggja mig. Og hvað geri ég þá? Nú sæki mér meiri sykur til að hressa mig og þar með er kominn vítahringur.

Ég hef vitað það lengi að þessi endalausa löngun mín í sykur gæti varla talist eðlileg, og bar mig gjarnan saman við vinkonu mína sem reykir. Mér sýndist á öllu að mín fíkn væri alveg jafn sterk og hennar, og jafn erfitt að hætta að borða sykur eins og að hætta að reykja. Nú er búið að sýna fram á það með tilraunum á rottum að sykur hefur áhrif á sömu stöðvar í heilanum eins og fíkniefni. Raunar var það svo, að þegar rottur gátu valið á milli þess að fá kókaín eða sykur, þá völdu þær sykurinn. Það er franskur læknir, Dr. Serge Ahmed, sem hefur rannsakað þetta. Um daginn horfði ég á 60 minutes fréttaskýringaþáttinn "Is sugar toxic?" sem er afskaplega fræðandi þáttur um áhrif sykurs á líkamann.

Þar var meðal annars sýnt þegar þáttastjórnandinn drakk sykrað vatn og síðan var tekin MRI mynd af heilanum í honum. Þá uppljómuðust þau svæði í heilanum sem tengjast ánægju (reward center of the brain), en það sem þá gerist er heilinn frameiðir dopamín og okkur líður tímabundið afskaplega vel. Með tímanum þarf heilinn síðan alltaf meira og meira af efninu til að framkalla sambærileg áhrif og þar með myndast vítahringur. Ég kannast nú heldur betur við þetta, á tímabili dugði ekkert minna en heill poki af kúlusúkki til að seðja sykurhungrið. Núna er ég ekki svona slæm, sem betur fer, en á meðan það dugði mér t.d. um daginn að borða eina döðlu til að svala fíkninni þá er ég komin upp í tvær núna, svo þetta vindur fljótt uppá sig.

Eina lausnin er að sjálfsögðu að hætta alfarið að borða það sem kyndir undir sykurlönguninni - og mér tekst það alltaf inn á milli í dágóðan tíma - en svo á einhverjum tímapunkti tekst mér að sannfæra sjálfa mig um að bara smávegis smakk geti nú ekki verið svo slæmt. Döðlur eru nú hollar, er það ekki? Ávextir eru hollir... Dökkt súkkulaði á víst að vera svo hollt... Arg!! En ef maður dettur af hestbaki þá klifrar maður aftur á bak - svo það er markmið mitt núna, að komast aftur á "hestbak".

En svo ég vísi aftur í þennan sjónvarpsþátt um sykurinn þá er þar viðtal við bandarískan innkirtlasérfræðing, dr. Robert Lustig, sem hefur sérhæft sig í offitu barna, og hann er þeirrar skoðunar að sykur (og þá sérstaklega high fructose corn syrup) sé meginorsök þess offitu faralds sem tröllríður heimsbyggðinni um þessar mundir. Í sama sjónvarpsþætti er viðtal við lækni sem segir frá rannsókn sem hún framkvæmdi og sýnir að sykurneysla eykur líkurnar á hjartasjúkdómum og heilablóðfalli. Annar læknir er þeirrar skoðunar að sykurneysla (sem eykur insúlín útskilnað) geti aukið vöxt vissra krabbameinsfruma. Þannig að það er allt að vinna og engu að tapa að minnka sykurneyslu sína.


Góð gönguferð á Svalbarðseyri

Síðasta sunnudag fórum við Valur út á Svalbarðseyri í blíðskaparveðri og þá tók ég þessa mynd. Ég veit ekki hvað þetta er með mig og sjóinn, en ég kann afskaplega vel við mig nálægt sjónum. Hann hefur róandi áhrif á mig - og eitthvað annað gerist sem ég kann ekki að útskýra. Ég held að það væri alveg dásamlegt að geta farið í gönguferð meðfram sjónum á hverjum degi.

föstudagur, 20. apríl 2012

Helgarfrí og svo bara ein vika eftir á Kristnesi

Var ég nokkuð að tala um það hvað tíminn flýgur áfram...? Það eru nú eiginlega blendnar tilfinningar að eiga bara eftir eina viku í endurhæfingunni. Þarna er maður í þessu fína verndaða umhverfi, þar sem passað er uppá að maður geri helst ekki of mikið, og það verður erfitt að eiga að fara að hugsa sjálfur aftur... eða þannig. En eins og svíarnir segja "Den tid, den sorg", ég verð bara að reyna að fá sem allra mest út úr þessum síðustu dögum.

Annars er ég eiginlega á leið í konuklúbb, sem er gott og blessað, nema hvað það er smá föstudagsþreyta í mér og ég nenni varla að fara. Má náttúrulega ekki láta þetta sjást svona á prenti, en svona er staðan í augnablikinu. Svo hressist ég ábyggilega við að hitta skvísurnar, þannig að ég ætla nú að dratta mínum þreytta rassi út úr húsi, enda ekki langt að fara. Sú sem heldur klúbbinn í dag á heima í ca. 3ja mínútna göngufjarlægð ;-)

fimmtudagur, 19. apríl 2012

Hvaða hrukkótta kona er þetta?


Hehe, segi bara svona. Ég er einhvern veginn ekki alveg að fatta að ég breytist í útliti með árunum - finnst ég alltaf líta eins út en það er víst ekki svo. En hér er ég í nýju sumarpeysunni minni, sem Hrefna segir að sé alveg rosalega blá... Við höfum ekki alveg sama fatasmekk mæðgurnar, svo það er dæmigert að það sem mér þykir flott finnst henni ekkert sérstakt, og svo öfugt. Maður þarf víst bara að læra að lifa með því ;-)

Gleðilegt sumar :)

Gleðilegt sumar :) by Guðný Pálína
Gleðilegt sumar :), a photo by Guðný Pálína on Flickr.

miðvikudagur, 18. apríl 2012

Síðasti vetrardagur

Waiting for summer by Guðný Pálína
Waiting for summer, a photo by Guðný Pálína on Flickr.
Mér finnst alveg ótrúlegt að þessi vetur sé brátt á enda. Af hverju skyldi tíminn fljúga enn hraðar áfram eftir því sem maður eldist?

mánudagur, 16. apríl 2012

Ágætis helgarfrí að baki

Ég var reyndar hálf sloj á laugardeginum, ekki alveg búin að ná mér af "stóra" gigtarkastinu sem ég fékk í vikunni, en sem betur fer var Silja svo almennileg að vinna klukkutíma lengur og því var ég bara ca. 2,5 tíma í vinnunni í stað 4 tíma, og hafði það heilmikið að segja. Við Valur fórum svo á árshátíð um kvöldið og það gekk nú bara vonum framar. Fyrst hittist hópurinn í heimahúsi og eftir smá stund var ég mjög þreytt á hávaðanum, en svo fórum við á veitingastað þar sem enginn var nema við, og mér tókst að halda haus fram að miðnætti. Þá reyndar varð ég mjög lúin en við fórum samt ekki strax heim.

Í gær, sunnudag, var alveg dásamlegt veður. Við Valur fengum okkur kaffi um þrjúleytið en fórum svo yfir á Svalbarðseyri. Þar lögðum við bílnum við vitann og gengum út að tjörninni. Það var alveg yndislegt, veðrið var svo gott og farfuglarnir byrjaðir að hreiðra um sig við tjörnina og við sjóinn. Þegar við komum heim aftur leið mér svo vel eftir alla útiveruna og var líka ánægð með að vera ekki ennþá þreyttari en ég var. Ég var reyndar líka mjög ánægð með það að mér fannst eins og ég hefði örlítið meira þrek til að ganga, og svo var ég betri í bakinu. Sjúkraþjálfunin er greinilega að byrja að skila sér, sem er mjög jákvætt.

Í morgun ók Valur mér svo aftur á Kristnes og hér verð ég fram á miðvikudag. Ég hafði farið í sturtu í morgun en svo vildi sjúkraþjálfarinn nota laugina til þjálfunar, þannig að ég var búin að baða mig tvisvar fyrir klukkan hálf tíu ;) Hún hélt áfram að reyna að láta mig virkja litlu vöðvana í bakinu sem hafa víst verið sofandi ansi lengi, og þeir eru farnir að taka við sér, sem betur fer.

Síðan var tími með iðjuþjálfara. Hún lét okkur fyrst teikna sjálfsmynd af því hvernig við höldum að aðrir sjái okkur, og síðan að teikna mynd af því hvernig við sjáum okkur sjálf. Sumir búa sér til ákveðna grímu þannig að ekki sjáist að þeim líður illa, en verða kannski fyrir vikið lokaðir og hleypa fólki ekki að sér. Myndin átti reyndar að miðast við daginn í dag, og í dag leið mér svo vel, þannig að ég brosti bara út að eyrum á þessari fínu sjálfsmynd minni. Svo fórum við í leik sem var dulbúið hláturjóga og ég hló svo mikið að ég varð eiginlega dauðþreytt á eftir. En það er svo hollt og gott að hlægja, maður gerir eiginlega of lítið af því.

Eftir tímann í iðjuþjálfun var hin daglega gönguferð, sem var extra ánægjuleg vegna góða veðursins. Eyjafjarðaráin var svo falleg og sólin skein á snjóhvít fjöllin. Eftir gönguna var hádegismatur og síðan vatnsleikfimi kl. eitt, en ég átti að sleppa henni í dag samkvæmt fyrirskipun sjúkraþjálfarans. Í staðinn settumst við tvær út á svalir og létum sólina skína á okkur í dágóða stund. Konan sem vinnur í býtibúrinu kom út og spjallaði við okkur.  Hún er frá Filippseyjum og ég veit ekki hvað hún hefur búið lengi hér á landi, en hún hefur greinilega ferðast heilmikið um Ísland. Nú er bensínið orðið svo dýrt að hún talaði um að það lengsta sem hægt væri að fara í sumar væri í Kjarnaskóg eða Vaglaskóg..

Svo var slökun og ég steinsofnaði og var alveg rotuð á eftir. Eftir slökun var kaffitími og svo settist ég með peysuna sem ég er að prjóna á Val, og prjónaði nokkrar umferðir. Ég er að klára munstrið, en því miður er ég líka að klára aðallitinn, svo ég á ekki nóg garn í hálslíninguna/kragann. Veit ekki alveg hvernig ég á að leysa það. Annað hvort bíða með restina þar til ég er búin að kaupa meira garn, eða nota hreinlega annan lit í hálsinn. Mér datt það alla vega í hug, en veit ekki hvort ég þori að gerast svo djörf því það mun óhjákvæmilega breyta heildar"lúkkinu" töluvert.

Svo dreif ég mig út í göngutúr í góða veðrinu. Manni finnst eiginlega að maður "verði" að reyna að nota þetta fína veður, en svona eftir á að hyggja hefði ég kannski frekar bara átt að setjast aftur út á svalir.

Tíminn er pínu lengi að líða eftir kvöldmat. Sérstaklega þar sem ég hef takmarkaðan áhuga á sjónvarpsglápi. En ég hangi eitthvað í tölvunni og les bækur og fer svo í háttinn um tíuleytið.

Jæja, þetta var mjög löng og ítarleg skýrsla um gjörðir mínar í dag. Sannkallað "kellingablogg" a la Valur ;)

fimmtudagur, 12. apríl 2012

Styttist í sumarið

Sunny day by Guðný Pálína
Sunny day, a photo by Guðný Pálína on Flickr.
Því miður fær Máni ekki lengur að njóta sólarinnar með okkur hinum, en Birta gamla er nokkuð brött ennþá "miðað við aldur og fyrri störf".

Ég fór aðeins út með myndavélina núna áðan. Gekk upp í skóg hér fyrir ofan og gleymdi mér í dágóða stund í hinum ýmsu tilraunum. Sem ég sé reyndar ekki fyrr en á morgun hvernig koma út, því ég get ekki sett myndirnar inn í þessa tölvu sem ég er með hér. En það er munur á skóginum frá því í síðustu viku. Grænn gróður að stinga upp kollinum í skógarbotninum, og brum að koma á trén. Ég sá engar rjúpur núna, heldur bara skógarþresti.

Annars var ég voða glöð með að fara út því ég er búin að vera óttalega tuskuleg í dag og í gær. Vonandi er ég að hressast.

Sjúkraþjálfarinn sagði við mig í dag að ég þyrfti að vera þolinmóð í 1 ár í viðbót, batinn kæmi hægt. Úff, ég sagði henni að ég væri ekki þolinmóð að eðlisfari - en núna þegar ég hugsa um það, þá er 1 ár kannski ekki svo langur tími, þegar hugsað er til þess að ég er búin að vera eins og drusla í 3 ár.

Vandamálið er bara að þetta er orðinn það langur tími í Vonleysislandi, að mér finnst erfitt að trúa því að ég geti orðið betri.

Sálfræðingurinn sagði líka við mig að ég hefði eiginlega verið of dugleg - of lengi. Ég var alltaf að brasa uppá eigin spýtur við að finna leiðir til að vinna á þessu ástandi mínu, og þess vegna varð skellurinn frekar mikill þegar ég þurfti að játa mig sigraða í þessu eins manns stríði.

Ég hafði líka gert mér óraunhæfar vonir um árangurinn af endurhæfingunni, en er núna búin að sjá að þetta er bara fyrsta skrefið á langri ferð. Og viðurkenni fúslega að það olli mér smá vonbrigðum. Þolinmæði, þolinmæði, þolinmæði...

miðvikudagur, 11. apríl 2012

Hvatning

Þegar eitthvað fer úrskeiðis eins og stundum gerist.
Þegar vegurinn sem þú ferð eftir virðist allur upp í móti.
Þear afraksturinn er lítill en væntingarnar miklar.
Þegar þig langar til að brosa en neyðist til að andvarpa.
Þegar áhyggjurnar verða þrúgandi, þá hvíldu þig
en gefstu ekki upp.

Ég veit ekki hver er höfundurinn, en þetta er flottur texti.

mánudagur, 9. apríl 2012

Gott að hafa í huga!

"The fastest way to kill your passion is by comparing yourself to the accomplishments of others"
Illuminated mind

Ég veit ekki með aðra, en þetta er þörf áminning fyrir sjálfa mig. Ég hætti til dæmis að teikna á unglingsaldri af því ég bar mig saman við aðra hæfileikaríkari (sem var synd því ég hafði mjög gaman af því að teikna). Sem betur fer hef ég aðeins vitkast með árunum, ég hefði t.d. aldrei haldið áfram að taka ljósmyndir ef ég hefði stöðugt verið að bera mig saman við aðra ljósmyndara. En þetta er mitt áhugamál sem veitir mér mikla ánægju - og eina markmiðið er að taka myndir sem ég sjálf er ánægð með + hafa gaman af því.


Rólegheit

Ég lá of lengi í rúminu í morgun og ákvað að drífa mig í sund strax þegar opnaði kl. 10, ef ske kynni að ég hresstist eitthvað við það. Það voru aðallega fastagestir sem voru í sundinu þetta snemma, og ein bankaði létt í öxlina á mér í sturtunni og sagði að það væri svo notalegt að sjá "fólkið sitt". Á páskum er alla jafna mikið af ferðafólki í sundi og ég verð nú bara hálf ringluð að vera innan um svona margt fólk í búningsklefanum og sturtunni. Það er minna vandamál í lauginni sjálfri, því fæstir eru að synda.

Hvað um það, ég hresstist nokkuð við að fara í sund og fór að kíkja aðeins á bókhaldið þegar ég kom heim. Það eru skil á virðisaukaskatti á morgun og þá er eins gott að vera búin að klára skýrsluna og senda inn. Ég var reyndar búin að færa allar færslurnar áður en ég fór á Kristnes, en átti eftir að villuleita + laga og prenta út. Þá fór prentarinn að stríða mér og það festust í honum tvö blöð. Ég gerði máttleysislega tilraun til að losa þau, en hugsaði svo með mér að ég myndi fá minn ágæta eiginmann til að hjálpa mér við þetta. Þá hringdi Rósa vinkona og bað mig um að koma í lítinn labbitúr, sem ég og gerði. Hún var hér yfir helgina að aðstoða mömmu sína við að pakka niður í kassa, en mamma hennar er búin að selja húsið og flytur í maí. Það verður skrítið fyrir hana, eftir að hafa búið þarna í meira en 40 ár, og líka skrítið fyrir okkur að fá nýja nágranna. Við Rósa kynntumst árið 1967 þegar foreldrar okkar fluttu hingað í Stekkjargerði nr. 7 og 8 og húsin hafa æ síðan verið í eigu þessara sömu fjölskyldna (við Valur keyptum jú af mömmu).

Ég skutlaði svo Rósu og Berglindi dóttur hennar á flugvöllinn um þrjúleytið en svo fórum við Valur á bókamarkaðinn. Það var nú eiginlega svona "shop until you drop" dæmi, því maður verður fljótt þreyttur í þessu umhverfi, einhverra hluta vegna. Við keyptum þó bæði nokkrar bækur. Og nú sit ég hér, aftur með bókhaldið en það er enn ein vitleysa sem á á eftir að laga og heilinn á mér er ekki starfhæfur í augnablikinu. Þannig að nú er best að græja sér kvöldmat og athuga hvort heilinn lagast ekki við það.

sunnudagur, 8. apríl 2012

Gróðurinn að vakna úr dvala

Vildi óska að hið sama væri hægt að segja um mig... Er eiginlega lögst í dvala ef eitthvað er, enda eru páskar yfirleitt tími afslöppunar hér í húsinu. Ekki er fjölskylduboðum fyrir að fara og við ekki þau duglegustu að bjóða heim (enda erfitt þegar húsfrúin er alltaf að drepast úr þreytu). Fyrstu dagana finnst mér reyndar óskaplega notalegt að slaka bara á, því það er helst í jóla- og páskafríum að hægt er að slappa af með góðri samvisku. En svo fer þessi eilífðar-afslöppun að verða helst til leiðigjörn. Þannig að í dag fór ég alla leið út í garð... með myndavélina. Þar sá ég að náttúran lætur góða veðrið gabba sig, og tré og runnar komnir með brum. Eins og sjá má t.d. á þessum myndum.




Síðasta rós sumarsins


Þegar ég var nýbyrjuð í Kvennakór Akureyrar, haustið 2010, fengum við nótur að þessu fallega írska þjóðlagi. Það var þó aldrei æft þennan vetur sem ég var í kórnum, en þarna strax um haustið fór ég á youtube og fann það sungið þar. Þetta er angurvært og fallegt lag finnst mér.

laugardagur, 7. apríl 2012

Ísak nýklipptur og flottur

A new haircut by Guðný Pálína
A new haircut, a photo by Guðný Pálína on Flickr.
Ég var nú búin að bíða frekar lengi eftir því að honum fyndist þörf á klippingu, en það kom að því. Og svo fékk ég náðarsamlegast leyfi til að taka mynd af honum ;)

föstudagur, 6. apríl 2012

Heitir bakstrar eru eitt af því sem boðið er uppá í Kristnesi

Þegar ég vaknaði á þriðjudagsmorguninn, öll undirlögð í skrokknum og þar að auki að drepast í öðru hnénu, ákvað ég að prófa heita bakstra. Starfsmaðurinn sem sér um bakstrana vafði utan um mig eftir öllum kúnstarinnar reglum og ég lá á bekk og líktist mest múmíu þegar hann hafði lokið sinni vinnu. Svo fór hann fram en ég lá eftir og ætlaði nú að slaka vel á. Það gekk ekkert alltof vel fyrst í stað þar sem hugurinn var á fleygiferð eins og venjulega. Þar sem hugsanir snúast yfirleitt annað hvort um fortíð eða framtíð, ákvað ég að einbeita mér að nútíðinni, andartakinu, og viti menn, blaðrið í höfðinu róaðist töluvert. Samt ekki meira en svo að allt í einu var ég farin að setja saman einhvers konar ljóð eða textabrot í huganum. Ekki með neinum sérstökum myndarskap samt, þar sem ég kann engar bragreglur. Eftir situr því bara texti sem ég birti hér til gamans.

Slökun

Fyrst í stað heyri ég ekki umhverfishljóðin
fyrir hávaða eigin hugsana.

En síðan laumar taktfastur sláttur veggklukkunnar
sér inn í vitund mína.

Ómur fjarlægra radda, vindgnauð í glugga.
Fuglar að syngja og flugvél á leið inn til lendingar.

Skyndilega verður það svo augljóst,
að ég er aðeins agnarlítill hluti af risagangverki alheimsins

og hugsanir mínar einungis bakgrunnshljóð.



fimmtudagur, 5. apríl 2012

Já það er fallegt í Eyjafirði

að minnsta kosti þegar veðrið er svona fallegt :) Ég tek myndavélina með mér á Kristnes, en það gengur ekki sérlega vel að taka myndir þar. Svæðið sem ég hef "til umráða" er frekar lítið og takmarkast við göngufjarlægðir, sem eru stuttar þessa dagana. Mér finnst eiginlega sveitabæirnir skemmtilegasta myndefnið, einhverra hluta vegna, en lítið er þó af búpeningi úti við. Þessi mynd er tekin á þriðjudaginn. Ég hafði verið alveg óskaplega þreytt þann dag og ekki orkað að fara út, en fannst ég þó endilega verða að fá mér frískt loft. Svo að um fimmleytið lét ég af því verða. Þá voru svona skemmtileg birtuskilyrði. Sólin kom og fór og varpaði lágstemmdum geislum sínum á mismunandi hluta landslagsins hverju sinni.

miðvikudagur, 4. apríl 2012

Stutt vika í þetta sinn

Enda kannski eins gott. Við í hópnum förum öll versnandi... sem er víst nokkuð eðlilegt skilst mér, svona á þessu stigi málsins. Það er reyndar viss huggun harmi gegn, að vera ekki sú eina sem verð verri, þá sé ég að þetta er ekki bara ég sem er svona "gölluð".

Það sem hefur komið mér einna mest á óvart er hvað bakið á mér fer í klessu, en sjúkraþjálfarinn er að reyna að láta einhverja litla vöðva vinna og fá til samhæfingu milli þeirra og stóru vöðvanna, sem eru svo frekir og taka alltaf strax yfir. Þannig að allar æfingar sem ég er að gera eiga að vera afar smáar og það er bara alveg ótrúlega erfitt. Maður vill alltaf að það sjáist að maður sé að gera eitthvað, en þegar þetta er spurning um millimetra eða sentimetra, þá finnst mér að ég sé ekki að gera neitt. Samt verð ég alveg svakalega þreytt í bakinu, svo eitthvað er ég nú að gera.

Það er annars stór kostur við endurhæfinguna hér að ekki er einungis unnið með líkamlega kvilla, heldur en fræðsla stór þáttur í þessu öllu. Sumir hafa aldrei leitt hugann að því að t.d. sársauki og skynjun sársauka fer eftir ótal þáttum, bæði sálrænum og félagslegum, í viðbót við þessa líkamlegu. Eins erum við stödd á mismunandi stað í því ferli sem stundum er kallað sorgarferli og fer í gang þegar fólk verður fyrir áfalli, greinist með sjúkdóma, eða slasast. Sjúkrahúspresturinn kom í gær og fjallaði um þetta ferli. Hún vildi meina að það að hafa náð ákveðinni sátt (orð sem hún vill reyndar ekki nota) eða samþykki, sé forsenda þess að geta komist áfram og unnið betur úr því sem maður þó hefur. Það er að segja, að samþykkja að svona sé staðan núna, það sé líklega óraunsætt að maður nái nákvæmlega sömu heilsu/virkni og áður, en það sé engu að síður hægt að finna nýjan flöt á hlutunum og ná betri færni í kjölfarið.

Þetta með að sætta sig við ástandið túlka sumir sem uppgjöf, og ég hef sjálf átt í mesta basli með akkúrat þetta. En ég held að ég sé núna búin að átta mig á því að það er ekki verið að ræða um að gefast upp, heldur bara að horfast í augu við það að breytingar hafa orðið og maður þarf bara að vinna út frá því hvernig staðan er í dag. Hm, þetta hljómar mjög einfalt hér en er ekki svona einfalt í raunveruleikanum. Ég er í raun löngu búin að átta mig á því að ég mun aldrei verða eins og ég var, en ég verð líka voða glöð ef ég næ að verða eitthvað betri en ég er núna.

Á morgun er ég svo að vinna í Pottum og prikum, en síðan er ég komin í 4ra daga páskafrí.

sunnudagur, 1. apríl 2012

Eitt skref áfram, tvö aftur á bak

Please have a seat by Guðný Pálína
Please have a seat, a photo by Guðný Pálína on Flickr.

Upplifunin er a.m.k. svolítið þannig hjá mér núna. Eins og ég sagði þá var vikan á Kristnesi mun strembnari en ég hafði áttað mig á, sem þýðir bara það að ég er í þreytu-breakdown ástandi núna. Og já ég veit það, allir vilja ábyggilega helst heyra að maður sjái strax framför og betri líðan, en þannig gerast hlutirnir víst ekki á eyrinni.

Þannig að í gær hélt ég mest kyrru fyrir en "neyddist" samt eiginlega til að fara í eitt stykki fimmtugsafmæli. Það er kona í klúbbnum mínum sem á afmæli (í dag reyndar) og hélt uppá það í gær með heilmikilli kaffiveislu. Við fórum tvær í samfloti og þetta var mjög flott allt saman, en mikill hávaði, enda margt fólk og veislan haldin í heimahúsi.

Ég var nokkurn veginn í lagi í klukkutíma en svo fór að halla undan fæti. Hávaðinn ætlaði að æra mig og þá klárast ansi hratt útaf batteríinu. Það var samt svo "heppilegt" að sú sem ég var samferða í veisluna var líka hálf slöpp og þar að auki á leið í matarboð, svo við yfirgáfum veisluna eftir ca. 1 1/2 tíma. Ég var samt ánægð með að hafa farið, annað hefði verið leiðinlegt.

Valur eldaði svo dýrðarinnar nauta prime ribs í kvöldmatinn og við fengum okkur smá rauðvínstár með. Í gærkvöldi horfðum við á myndina hans Woody Allen sem gerist í París, en það er ekki séns að ég muni núna hvað hún heitir. Bara fínasta mynd í sjálfu sér.

Í gær var ég svo að berjast við allar mínar hamfara-hugsanir. Það er alltaf sama ferlið sem fer í gang þegar mér versnar aftur eftir að hafa verið örlítið skárri. Niðurrifsspúkinn á öxlinni verður svo hávær og er þar að auki endalaust að kvabba eitthvað. Ég þarf að koma mér upp betri aðferð til að eiga við þennan niðurrifssegg, því það er örugglega grundvallarforsenda fyrir bata að maður trúi því sjálfur að ástandið geti skánað.