Annars átti ég víst afmæli á laugardaginn og varð einu árinu eldri eins og lög gera ráð fyrir. Afmælisdagurinn var hinn ágætasti og byrjaði með því að ég fór á fyrirlestur í Eflingu um úrræði við vefjagigt. Þau snérust að mestu leyti um það hvað maður gæti gert sjálfur s.s. að draga úr streitu og álagi, njóta líðandi stundar, bæta svefninn með slökun ofl., hreyfa sig daglega og huga að mataræðinu. Þarna var ekkert nýtt fyrir mér en þar er samt alltaf gott að hnykkja á sumum hlutum s.s. þessu með streituna. Sérlega mikilvægt núna þegar jólavertíðin er að fara í gang í búðinni og sá tími að koma að ég á mjög erfitt með að hafa stjórn á aðstæðum. Það er að segja, það þarf að panta vörur (sem er mjög tímafrekt), það þarf að taka upp vörur (sem getur verið líkamlega erfitt og stressandi því ekki er hægt að hafa kassa með vörum í marga daga bakvið afgreiðsluborðið) og það þarf að afgreiða viðskiptavinina. Svo þarf eftir sem áður að halda búðinni í þokkalegu standi, þurrka af ryk, ryksuga ofl. Í síðustu viku fengum við t.d. mjög stóra sendingu og þá verðum við bara að vinna á fullu þar til hún er öll komin uppúr kössum og upp í hillur eða inná lager. Enda er ég ennþá lúin eftir það. Ég þarf samt einhvern veginn að ná að vinna betur úr þessum atriðum svo ég drepi mig ekki alveg á jólavertíðinni. Einmitt núna þegar ég er að byrja að hressast þá held ég að það sé mjög mikilvægt að ég reyni að passa mig. En hvort það er hægt, er svo allt önnur Ella.
Eftir fyrirlesturinn fór ég heim þar sem Valur gaf mér kaffi og færði mér líka bók í afmælisgjöf. Áður var hann eiginlega búinn að gefa mér ilmvatn og svo er þurrkofn handa mér á leiðinni í hús, svo maður skyldi halda að ég væri komin með nóg af gjöfum. En aldeilis ekki. Það var eitthvað Tax-free dæmi í gangi í miðbænum og 20% afsláttur í flestum verslunum, svo ég varð náttúrulega að skreppa í bæinn. Byrjaði í Vouge og keypti mér efni í tvær flíkur til viðbótar. Eitt rosa skræpótt sem ég ætla að sauma langermabol úr, og eitt fallega grænt sem á að verða kjóll. Næsta stopp var í Sirku og þar rak ég augun í tösku sem ég sá á augabragði að yrði alveg fullkomin sundtaska. Grá með ljósum doppum og mátulega stór. Ég er búin að vera með sömu sundtöskuna síðan ég byrjaði að synda svona reglulega og hún var að verða dálítið slitin, auk þess sem hún er merkt lyfjafyrirtæki, og það er náttúrulega ekkert sérlega smart. Næst fór ég í Viking, sem er túristabúð, en þar hafði ég augastað á gærumokkasínum og fékk þær að sjálfsögðu líka með 20% afslætti. Mér er alltaf svo kalt á fótunum á veturna en ef ég er berfætt í þessum inniskóm þá er mér nokkuð hlýtt. Þegar hér var komið sögu var ég að verða ansi lúin en á leiðinni í bílinn datt ég "alveg óvart" inn í tískuverslunina Rexín og sá þar svo fallega skó sem ég féll fyrir. Þeir eru gráir, með smá hæl og bandi yfir ristina (já Hrefna þú last rétt!) og það sem best er, eru með "anti-shock" kerfi sem dregur úr álagi á hrygginn og liðina. Svo skórnir fylgdu mér heim og eru hugsaðir sem skór í vinnuna, þegar ég er í pilsi eða kjól. Síðan ég fékk brjósklosið hef ég ekki getað gengið á neinum hælum sem eru hærri en 2-3 cm. og hef notað svört leðurstígvél við pils og kjóla, en er orðin svolítið leið á þeirri samsetningu.
Um kvöldið fórum við svo út að borða fjölskyldan (sá partur hennar sem býr á Akureyri) og það var bara virkilega vel heppnað. Við fórum á stað sem heitir Goya Tapasbar og maturinn var góður og allir glaðir, svo ekki var hægt að fara fram á neitt meira.
Hér má svo sjá sundtöskuna mína fínu :-)
2 ummæli:
Sæt taska og greinilega góður afmælisdagur :-)
Hehe, já mér leið voða vel á mínu "shopping spree" þó alein væri, fannst ég bara næstum vera í fríi í útlöndum :) Merkilegt hvernig skoðunin á því hvað er góður afmælisdagur breytist með aldrinum :) Hefði samt verið enn betra að geta fengið alla ástvini í kaffi, en það bjargaði miklu að vera nýbúin að tala við þig á skype :)
Skrifa ummæli