laugardagur, 5. nóvember 2011

Óvænt aukaverkun af minna sykuráti

er óstöðugt skap. Ég þarf víst að horfast í augu við að ég notaði sykur og allt sem gaf svipuð áhrif, sem eins konar deyfiefni. Ef ég var þreytt þá fékk ég mér eitthvað sætt, ef ég var leið þá fékk ég mér eitthvað sætt o.s.frv. Núna hef ég ekki þennan sama möguleika til að detta í huggunarát því það gefur engan veginn sama kikk að borða grænmeti. Sem aftur þýðir að ég þarf að finna mér nýja og heilbrigðari leið til að vinna mig út úr ástandi eins og þreytu og leiða. Hana hef ég hins vegar ekki fundið ennþá. Dettur samt í hug að handavinna sé góður kostur og keypti mér nýtt prjónablað um daginn, en hef ekki haft mig í að byrja á neinu. Eins langar mig alltaf til að byrja að sauma aftur, en hef heldur ekki gert neitt til að láta eftir þeirri löngun.

Í augnablikinu þjáist ég af einhverri ljósmyndafóbíu og hef ekki farið að taka myndir síðan ég fór með ljósmyndaklúbbnum í Mývatnssveit.  Nánast allar myndirnar sem ég tók í þeirri ferð voru misheppnaðar og ég veit ekki hvort það var ástæðan, en eftir það datt ég í stóran forarpytt sem heitir fullkomnunarárátta. Skyndilega fundust mér allar myndirnar mínar lélegar og ekki þess virði að vera að æða út um hvippinn og hvappinn með myndavélina þegar útkoman er ekki betri. Sem er í hrópandi andstöðu við upphaflega markmið mitt með ljósmyndun. Sem var að eyða meiri tíma úti í náttúrunni og ljósmyndunin var verkfærið sem ég notaði til að draga sjálfa mig út úr húsi. Eftir að ég fékk brjósklosið og "lata fót" þá leiðist mér að fara í göngutúra. Sennilega af því ég get ekki rigsað jafn hratt áfram eins og ég var vön (hm, á jafnsléttu að minnsta kosti, ég var nú alltaf lélegri í brekkunum...). En sem sagt, þegar ég er komin með myndavél í hendurnar þá enda ég oft á því að ganga miklu lengra en ég hefði gert, því þegar ég sé eitthvert myndefni í fjarska þá elti ég það.

En já, það hefur sem sagt komið mér á óvart hversu óstöðug ég er í skapinu eftir að ég breytti um mataræði. Svona fyrirfram hefði ég haldið að ég yrði voða geðgóð og fín, étandi grænt í flest mál og búin að taka út allt sem hefur slæm áhrif á líkamann. En í staðinn er skaplyndið farið að minna á veðrið. Það hvessir, það rignir, stundum skín sólin. Og já ég veit ekki alveg hvernig ég á að höndla sjálfa mig undir þessum nýju kringumstæðum þegar ég get ekki lengur notað sætindi til að róa mig niður. Eigum við ekki bara að segja að það sé ágætis byrjun að vera þó búin að átta mig á þessum tengslum - hitt komi pottþétt síðar!

P.S. Þegar ég var að lesa þetta yfir fór ég að velta vöngum yfir þessu með mig og fullkomnunaráráttuna. Það er ekkert nýtt að ég láti hana eyðileggja fyrir mér eitthvað sem ég haft ánægju af. Þegar ég var krakki hafði ég gaman af að teikna, en þegar ég sá hvað aðrir í kringum mig teiknuðu mikið betur, þá hætti ég að teikna. Þegar mig langaði að skrifa smásögur þá hætti ég því þegar mér fundust þær ekki nógu góðar. Og nú er ég að detta í sama gírinn með ljósmyndunina.

Uss, þetta hljómar ekki vel. Eins og ég gefist alltaf upp á öllu um leið og gefur á bátinn. Það er samt ekki alveg rétt lýsing á mér sem persónu. Svo dæmi sé nefnt þá hafði ég t.d. gríðarlega mikið fyrir því að vinna mig í gegnum stærðfræðina þegar ég byrjaði í háskólanum, og hafði fram að því haldið að ég gæti ekki lært stærðfræði eða raungreinar. Einnig hef ég stundað vinnu síðustu tvö, þrjú árin, þrátt fyrir að vera oft örmagna af þreytu/verkjum. Sem er hreint ekki lítið afrek þó ég segi sjálf frá.

Auðvitað er samt fáránlegt að láta fullkomnunaráráttu eyðileggja fyrir sér áhugamálin. Þetta er jú bara gert til að hafa gaman af - ekki eins og það snúist um líf eða dauða hvort manni tekst vel upp eða ekki.


2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Alls ekki hætta að taka myndir, finnst myndirnar þínar mjög flottar. Er sérstaklega hrifin af blómamyndunum þínum. Bestu kveðjur og ósk um betri líðan. Þórdís.

Guðný Pálína sagði...

Takk fyrir Þórdís, það er alltaf gott að fá smá klapp á öxlina :)