Sem sagt, þrátt fyrir að ekki séu allir dagar jafn góðir, og ég finn að ég er greinilega mjög "viðkvæm" fyrir þreytu og þarf virkilega að passa mig, þá er ég áframhaldandi að hressast. Fólk er farið að tala um að ég líti betur út og bara það að ég er aftur farin að hafa áhuga á að gera eitthvað skapandi s.s. að sauma, er gott merki. Annað dæmi er að á meðan ég var í þessu þreytustandi þá gat sú einfalda athöfn að ákveða í hvaða föt ég ætlaði að fara þann daginn, verið kvalræði fyrir mig. Nú er ég aftur komin með áhuga á að setja saman mismunandi fatnað og langar að líta vel út. Reyndar komin með of mikla fatadellu held ég, því þrátt fyrir að hafa keypt mér skó um síðustu helgi langar mig að kíkja í Mössubúð en þar er 20% afsláttur af öllum skóm núna... Hehe, já já ein alveg sjúk. Svo keypti ég peysu/jakka á 40% afslætti í Benetton núna í vikunni - sem passar svona líka ljómandi vel við nýja heimasaumaða pilsið mitt :-)
Annars gerðist það helst markvert í vikunni að ég fann aftur hálsmen sem er búið að vera týnt í meira en ár. Í fyrrahaust þegar ég byrjaði í kórnum þá var kórbúningurinn / kjóllinn svo fleginn að mér fannst nauðsynlegt að hafa eitthvað fallegt um hálsinn. Ætlaði að nota eina hálsmenið sem ég átti (ég er ekkert sérstaklega glysgjörn að eðlisfari) en fann það þá hvergi og "neyddist" til að fara til Halldórs úrsmiðs og kaupa mér nýtt hálsmen fyrir kórinn. Þegar ég útskýrði málið fyrir Möggu sem þar vinnur missti hún andlitið þegar hún heyrði að ég ætti aðeins eitt hálsmen, og sagðist ekki vita hversu mörg hún ætti, eða óteljandi mörg sem sagt ;-)
En sem sagt, í vikunni kom maður að lesa af rafmagni og hita hjá okkur. Það er gert á neðri hæðinni og á meðan hann var að lesa af mælunum leit ég í kringum mig og kom auga á dúkkuvöggu sem Hrefna átti þegar hún var lítil. Í fyrrasumar var ég að hugsa um að gefa vögguna, til að rýmka til í geymslunni, en tímdi því svo ekki þegar til kom. Einhverra hluta vegna lenti hún svo á flandri hér innanhúss og var nú stödd á ganginum niðri. Í vöggunni lá dúkkan mín gamla, Kolla, en ofan á henni var fullt af einhverju dóti. Ég kíkti í gegnum þetta dót og viti menn - ofan í vöggunni lá hálsmenið mitt! Svona getur það nú haft gott í för með sér að fá aflestur á hitaveitu- og rafmagnsmælum :-)
P.S. Rétt skal vera rétt. Ég á eitt hálsmen í viðbót, sem Anna systir gaf mér, að því er mig minnir í fertugsafmælisgjöf. Það er mjög fallegt en pent og látlaust, svo það var ekki alveg nógu áberandi við kórkjólinn.
3 ummæli:
Ánægjulegt að lesa hvað þér gengur betur. Sést líka greinilega þegar lesið er það sem þú skrifar.Bestu kveðjur Þórdís.
Hehe, já ég er svo gegnsæ, það sést alltaf langar leiðir hvernig mér líður :)
Er nú ekki svo viss um gegnsæið. Bara gott að sjá svona glaðlegan tón.Bestu kveðjur, Þórdís.
Skrifa ummæli