föstudagur, 29. apríl 2011

Fríhelgi framundan

Bara spurningin í hvað á að nota hana? Ætli það fari nú ekki eftir því hvernig staðan verður á frúnni... En já í dag eða í gær sá ég á facebook að ein stelpa (hehe reyndar bráðum 3ja barna móðir en svo stelpuleg (ungleg)) var að segjast ekki hafa borðað sykur, hveiti eða sterkju í 300 daga. Úff, ég samgladdist henni en verð að viðurkenna að ég öfundaði hana af viljastyrknum og sjálfsaganum. Mér sjálfri skrikar alltaf fótur í þessu með mataræðið og eins og núna þá er ég dottin á bólakaf í sykurkarið, eða svona næstum því. Og það er svo fyndið með það, að buxnastrengurinn verður fljótt þrengri og maginn skvaplegri, já allt verður skvapkennt. En það er jú ekki fyrst og fremst útlitið sem ég er að reyna að hafa áhrif á með mataræðinu, heldur líðanin. Mér líður betur á fæði sem er nokkuð laust við sykur, hveiti og ger. En vá hvað það er erfitt að halda því til streitu. Nú þarf ég að peppa mig upp í að byrja aftur í hollustunni, sumarið ætti nú að vera besti tíminn til þess.

Sumir eru fegnir sumri



Sign of summer, originally uploaded by Guðný Pálína.
Eins og til dæmis þessi fluga sem hér sést. Sú sem hér skrifar gleðst líka yfir lengri, bjartari og hlýrri dögum, þó það síðastnefnda sé nú undir hælinn lagt hér á Ís-landi.

Í dag var að minnsta kosti nógu hlýtt til þess að Birta færi út og stoppaði sú gamla utandyra í 5-10 mínútur, hvorki meira né minna.

Valur er í fríi í dag og fór á fætur með Ísaki en ég fékk að sofa lengur. Það var ósköp ljúft og minnti á gamla daga þegar við skiptumst á að vakna með krökkunum um helgar, svo hitt fengi þá aðeins lengri svefn.

En já, myndin er tekin í Lystigarðinum. Ég fór smá rúnt þar með myndavélina um daginn og var að reyna að taka myndir fyrir ljósmyndasýningu sem við Álfkonur ætlum að halda eftir eina viku. Álfkonur er heitið á ljósmyndaklúbbnum mínum og er ein okkar, Hrefna Harðardóttir leirlistakona, afskaplega dugleg að reyna að koma okkur á framfæri. Hún er með vinnustofu í Listagilinu og fyrir framan vinnustofuna er gangur þar sem við getum sýnt myndirnar okkar, t.d. þegar Gildagur er en þá eru opnaðar nýjar myndlistarsýningar í Listasafninu og á fleiri stöðum og margt fólk á ferli. Það er meiningin að við tökum þátt í sýningu um næstu helgi og Valur fór með tvær myndir eftir mig í prentun í morgun af því tilefni. 

Þessi hér er önnur þeirra. Það verður spennandi að sjá hvernig þær koma út en það var nú ekkert hlaupið að því að taka þær. Ég þurfti helst að liggja í jörðinni því blómin voru svo lítil (ca 15 cm. há) og markmiðið var að ná ákveðnu sjónarhorni upp undir þau. Það var nú ekki alls staðar hlaupið að því að leggjast niður í miðju blómabeði svo stundum þurfti ég að húka í asnalegri stellingu, öll samankrulluð, og reyna að halda myndavélinni stöðugri. Sem var pínu áskorun því bæði titraði ég pínulítið sjálf af því það var svo erfitt að vera í stellingunni, og svo var líka gola úti. Ég þurfti að stilla fókusinn manuelt því ekki er hægt að nota autofókus þegar verið er að taka myndir svona nálægt. Sjálfvirki fókusinn veit nefnilega ekki nákvæmlega hvar ég vil hafa fókusinn í myndinni og velur kannski eitthvað strá sem er til hliðar/bakvið við myndefnið.

mánudagur, 25. apríl 2011

Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga


Er það ekki bara? Páskarnir voru fínir, ég hvíldi mig mikið og gerði líka ýmislegt skemmtilegt. Nú tekur hefðbundin vinnuvika við, en þó í styttri kantinum, ég á nefnilega frí á miðvikudaginn (alltaf frí annan hvern miðvikudag). Þá er ég reyndar búin að lofa að hitta vinkonur mínar á kaffihúsi um miðjan daginn og um kvöldið er ljósmyndahittingur, svo það verður nóg að gera þann dag/kvöld.

Æi, ég er að fara að sofa, blogga meira seinna, góða nótt :-)

laugardagur, 23. apríl 2011

Lífið heldur áfram - sem betur fer :)

Í gærmorgun dreif Valur sig út á reiðhjólinu og hjólaði hring fram í Eyjafjarðarsveit. Á meðan fór ég í sund með Rósu, en henni datt það snjallræði í hug að fara í útiklefann. Það var ansi mikill vindur en sólin skein og funhiti úti þannig að það var mjög fínt að vera í útiklefanum. Þar voru fáir og maður losnaði alveg við hávaðann og lætin sem fylgja því að vera í venjulega búningsklefanum á sólríkum dögum sem þessum. Við syntum nokkrar ferðir og fórum svo í pottinn og svei mér þá ef ég var nú ekki bara rjóð í kinnum á eftir. Svo gengum við líka báðar leiðir í rokinu og það minnti mig á gamla og góða daga, þegar við æfðum báðar sund og gengum daglega á æfingar og heim aftur.

Ég var hálf dösuð eftir sundið og lagði mig um miðjan daginn, nokkuð sem ég geri yfirleitt ekki. Það er að segja, ég legg mig kannski í sófann án þess að sofna, en í gær fór ég inn í rúm og steinsofnaði. Það er nú svo sem allt í lagi, svona í páskafríinu ;-)

Í gærkvöldi komu svo Rósa og Dóra mamma hennar í kvöldmat til okkar. Valur eldaði þessa dýrindis fiskisúpu og ég bakaði súkkulaðiköku, og hvort tveggja var bara mjög gott þó ég segi sjálf frá :-)

Í dag þarf ég að fara að vinna klukkan eitt en er engan veginn að nenna því... bara löt, löt, löt. Svona er það þegar maður kemst á bragðið og er búin að vera í fríi í tvo daga. En mér er nú engin vorkunn því svo fæ ég aftur frí í tvo daga. Úti skín sólin eins og henni sé borgað fyrir það, vantar bara fuglasönginn.

fimmtudagur, 21. apríl 2011

Fór á sinfóníutónleika með fallbyssuskotum - og lifði af ;)

Já við Valur áttum miða á tónleika í dag en eftir því sem nær dró tónleikunum voru farnar að renna tvær grímur á okkur bæði, því ég var ekki akkúrat sú hressasta. En ég ákvað að gleypa í mig tvær verkjatöflur, svona fyrirbyggjandi, og drífa mig bara. Ef mér liði mjög illa gæti ég þá bara farið í hléinu. Mér fannst mjög óþægilegur hávaðinn þegar hljómsveitin var að stilla strengi sína og eins þegar fólk var að ganga í salinn, já og í hléinu leið mér ekki vel. En um leið og ég gat  bara setið kyrr og það var eitthvað skipulag á hávaðanum (þögn í öllum nema hljómsveitinni) þá var allt í lagi. Merkilegt nokk!

Skírdagur / Sumardagurinn fyrsti

Ég man nú ekki eftir því að þessa tvo daga hafi borið uppá sama dag á dagatalinu áður, en það þarf nú svo sem ekki að vera rétt því gleymnari manneskja er vandfundin. Mér tókst t.d. í gær að spyrja eina frænku mína hvernig mamma hennar hefði það - sem væri kannski í lagi ef mamma hennar væri ekki dáin. Úff, ég fattaði nú reyndar nánast samstundis hvaða vitleysu ég hefði gert (svipurinn á henni hjálpaði nú til við það) og varð alveg miður mín yfir þessu, en sagt er sagt og ekki hægt að taka tilbaka töluð orð.

Í dag er afskaplega fallegt að horfa út um gluggann. Sólin skín en reyndar er einhver vindur. Það sem það er nú búið að blása mikið hér undanfarið. Bara endalaust rok. Sérlega leiðinlegt á nóttunni þó. Ég sótti mér eyrnatappa eitt kvöldið þegar ég gat ekki sofnað, en þá heyrði ég alltof hátt í suðinu í eyrunum á mér í staðinn, svo það var til lítilla bóta.

Ég sé fram á nokkuð rólega páska, að minnsta kosti vinnulega séð. Ég er í fríi í dag og á morgun, og sunnudag og mánudag. Það er ekki ljóst enn með laugardaginn en þá á ég að vera að vinna frá 13-17, nema Andri bjóði sig fram í að leysa mömmu gömlu af. Það kemur í ljós. Hins vegar hittir þannig á að það er nóg að gera á ýmsum öðrum vígstöðvum. Við áttum miða á tónleika með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sem eru í dag og stóð alltaf til að fara á. En svo ætluðum við í leikhús í tvígang, og fyrst var Valur veikur og svo Ísak, þannig að við eigum miða í leikhúsið núna á laugardagskvöldið. Loks eru tónleikar með Megasi á sunnudagskvöld og búið að kaupa miða á þá, en það verður bara að koma í ljós hvernig formið á frúnni verður.

Eftir mikla yfirlegu og angist (ok, kannski smá dramatík í gangi hérna) þá ákvað ég að fara ekki í afmælið hennar Hjördísar. Mér finnst það ægilega leiðinlegt, en var hreinlega ekki að treysta mér. Þó það hefði líka verið gaman að hitta fólkið og fá tilbreytingu þá var þetta bara ekki að gera sig núna.

Jæja, ætli sé ekki best að hætta þessu rausi og reyna að gera eitthvað. Þó ekki væri nema reyna að upphugsa hvað á að vera í matinn yfir páskana. Ég fékk þau fyrirmæli frá eiginmanninum áðan, þegar hann fór í ræktina. Nú fer hann bráðum að koma heim og ég ekki búin að hugsa neitt.

þriðjudagur, 19. apríl 2011

Það er allt annað að sjá mig...

Þetta er smá afbökun á setningu sem Valur sagði oft þegar ég hafði verið á hárgreiðslustofu: "Það er allt annað að sjá þig!". Auðvitað meint sem hrós en gat kannski stundum hljómað eins og ég hefði verið orðin algjör hörmung. Í þetta skiptið var ég virkilega orðin algjör hörmung, ég var komin með stóra gráa rót og restin af hárinu var orðið bæði litlaust og dautt. Ég hafði klikkað á því að panta tímanlega hjá hárgreiðslukonunni minni, þannig að það var mikil gleði að komast loks í dag og láta gera eitthvað í málinu. Þegar ég settist í stólinn sagði ég við hana að nú mætti hún gera eitthvað róttækt við mig... Þá fékk ég að heyra að ég væri nú ekki sú fyrsta til að segja þetta í dag. Allar konur væru eitthvað svo þreyttar á hárinu á sér. En já hún klippti vel af því en hélt samt ennþá í síddina við eyrun og svo litaði hún rótina og setti þar að auki rauðleitan lit í restina af hárinu, þannig að það er bara heilmikill munur á kellu. Ég er ekki frá því að ég hafi nú bara yngst um einhver ár ;-)

sunnudagur, 17. apríl 2011

Þessi litla dúlla í heimaprjónuðum kjól

er núna stödd í sólinni í San Diego í Kaliforníu. Þangað fórum við Valur fyrir 10 árum eða rúmlega það og kunnum óskaplega vel við okkur. Þægilegur hiti, snyrtileg borg og bara almenn huggulegheit. Á meðan passaði Hrefna bræður sína hér heima og hélt heraga á heimilinu, hehe. Hún er nú enginn aukvisi  hún dóttir mín. En já kjólinn sem hún er í á myndinni prjónaði ég af fingrum fram og fannst ég nú bara nokkuð góð á þeim tíma.

Ládeyða eða bara rólegheit

Allt spurning um það hvernig maður skilgreinir hlutina. Þessi helgi hefur sem sagt verið afskaplega róleg eins og þær flestar eru þessa dagana. Í gær fórum við Valur samt í smá ljósmyndatúr yfir á Svalbarðseyri. Þar var "gluggaveður", eða þannig. Ótrúlega kalt þrátt fyrir plúsgráður úti og sól á köflum. Þegar mér verður svona kalt þá stífna ég öll upp og í dag var ég að drepast í hendinni sem ég notaði til að halda undir linsuna, en ég var með aðeins þyngri linsu á vélinni heldur en ég er vön. Um kvöldmatarleytið birtist svo Hjörtur bróðir Vals, en það datt í hann að kíkja norður í land þar sem hann var kominn í páskafrí. Það er alltaf gaman að fá gesti og mættu fleiri koma og oftar.

Í dag voru meiri rólegheit, en þó fórum við með Hirti á listasýningar í gilinu, í kaffi í Hofi og smá bíltúr yfir í heiði. Já ekki má gleyma því að Rósa vinkona hringdi í mig í morgun og bauð mér með sér í sund. Hún er stödd hérna núna, ætlar að vera hjá mömmu sinni yfir páskana. Það var skemmtileg tilbreyting að fara með henni í sund, við syntum nokkrar ferðir og héngum svo í (volga) heita pottinum og spjölluðum saman. Eitt er hins vegar farið að plaga mig svolítið mikið í tengslum við sundferðir og það er hávaðinn í hárþurrkunum í búningsklefanum. Hávaði almennt er reyndar erfiður viðureignar og þarf kannski ekki einu sinni að vera svo mikill hávaði sem slíkur. Allt hljóð magnast bara einhvern veginn upp í höfðinu á mér og mér líður eins og ég sé inni í tómri tunnu sem verið er að berja í. Það er rosalega erfitt að eiga við þetta, því umhverfishljóð eru ekki beinlínis eitthvað sem þú getur stýrt sjálfur. Valur var t.d. bara að krumpa saman bréfpoka í morgun og ég ætlaði alveg að ærast.

Ég hef ekki verið sjúkdómsgreind með síþreytu, enda ekki farið til læknis eftir að ég versnaði svona. Mér finnst ég samt eiga mjög margt sameiginlegt með síþreytusjúklingum og mörg einkenni þau sömu. Þeir sem eru verst haldnir þurfa að liggja fyrir í dimmu herbergi því þeir þola ekki birtu og fólk þarf að hvísla því þeir þola ekki hljóð/hávaða. Og enn og aftur þá er ég þakklát fyrir að vera ekki svo slæm - en mikið sem mér þætti nú vænt um að vera frískari.

laugardagur, 16. apríl 2011

Þrautseigja



Þrautsegja - Resilience, originally uploaded by Guðný Pálína.
Er eiginleiki sem er gott að búa yfir. Þessi hvönn er búin að standa úti allan veturinn, í stormi og snjóalögum, og stendur enn. Enda harðgerð planta. En hún er víst ekki beint lifandi, í þeim skilningi sem við erum vön að leggja í orðið. Minnir mig pínulítið á sjálfa mig þessa dagana. Ég þrauka og þeir sem horfa á mig sjá manneskju sem lítur út fyrir að vera í lagi, en mér finnst ég nú meira vera dauð en lifandi. Aðallega vegna þess að í stað þess að sættast við þá staðreynd að ég sé með vefjagigt og hún hamli vissum þáttum í mínu lífi, þá bara get ég ekki sætt mig við þetta ástand. Ég veit samt innst inni að ég verð að ná einhvers konar sáttum, því annars er það bara ávísun á endalausa andlega vanlíðan.

Stundum velti ég því fyrir hvort ég sé að "sjúkdómsvæða" sjálfa mig. Að með því að lesa mér til á netinu og reyna að finna einhver svör, einhverja meðferðarmöguleika, að ég sé þá að festa sjúkdóminn frekar í sessi hjá mér. Að ég hætti að líta á sjálfa mig sem heilbrigða manneskju og dragi frekar að mér upplýsingar og kringumstæður sem staðfesti að ég sé "sjúklingur". En um leið og ég spái í þetta þá veit ég að það er ekki satt.

Vegna þess að þá daga sem er svona nokkurn veginn í lagi með mig þá hugsa ég ekki um veikindi eina einustu sekúndu. Þá er ég bara venjuleg manneskja sem hef gaman af lífinu. Hef gaman að því að vera í vinnunni og sinna þeim verkefnum sem þarf utan vinnu. Þá fer ég alveg á fullt við að gera ýmsa hluti sem verða útundan í þreytu- og verkjaköstunum, og steingleymi að hugsa um að ég þurfi nú að passa mig. Passa að ofreyna mig ekki því svoleiðis þarf alltaf að borga með vöxtum. Ef ég væri algjörlega fixeruð á það að vera bara sjúklingur (af því að á einhvern undarlegan hátt væri það að gagnast mér) þá myndi ég ekki bara gleyma því inn á milli. Þannig að, niðurstaðan er sú að ef ég væri ekki svona "gölluð" þá væri ég ekki að velta mér svona uppúr þessu heilsuleysi.

En já, það eru margir mun verr settir heldur en ég, og ein kona sem hefur þjáðst af síþreytu síðan hún veiktist af flensu fyrir tíu árum síðan, Toni Bernhard, hefur skrifað bók "How to be sick" sem væri ábyggilega forvitnilegt að lesa. Hún fjallar um það hvernig hægt að að byggja upp verðugt líf, þrátt fyrir að vera rúmliggjandi. Hvernig hægt er að sættast við orðinn hlut og finna ný áhugamál o.þ.h. sem gera lífið þess virði að lifa því. Nú er ég ekki einu sinni rúmliggjandi, svo ég held að ég ætti nú bara að þakka fyrir það sem ég þó hef!!

föstudagur, 15. apríl 2011

Veit ekki hvað ég á að gera

Við Valur erum boðin í 50 ára afmæli Hjördísar vinkonu minnar sem býr í Reykjavík. Afmælið er á skírdag og satt best að segja þá treystir Valur sér ekki til að keyra með mig suður, fara í afmælið og keyra heim aftur, því hann veit af biturri reynslu að það þýðir bara sama og þreyta, þreyta, þreyta af minni hálfu. Svo hinn möguleikinn er að ég fari ein suður með flugi t.d. á skírdegi og komi heim á föstud. langa. Þá þarf ég að redda mér gistingu, sem ætti svo sem alveg að ganga, en hins vegar er allt ódýrt flug löngu uppselt. Síðan er það nokkuð ljóst að ég mun ekki þekkja marga í þessu afmæli, en Sólrún vinkona verður þar, það veit ég. Arg, ég á eitthvað svo erfitt með að ákveða mig - en verð að drífa í því áður en allt flug verður uppselt - þ.e.a.s. ef ég ætla að fara.

Hressari í gær => slappari í dag

Já það er voða fyrirsjáanlegt þetta ástand mitt. Yfirleitt ef ég er hressari einn dag þá borga ég fyrir það næsta dag og þarnæsta. Í gær var ég að vinna í 5,5 tíma og fór svo á fund í 1,5 tíma og þetta var alltof mikið fyrir gömlu konuna. Ég fann það eiginlega strax og ég vaknaði í morgun að ástandið var ekkert of gott en ákvað samt að streitast við og fara í sund. Þá er ég búin að fara í sund fjóra morgna í þessari viku, sem er nú bara nokkuð gott. Meira að segja búin að auka skammtinn úr sex ferðum og fór tíu ferðir í morgun. En það var nú líka af því ég var að reyna að synda mér til hita, laugin var svo ísköld.

Eftir sund og morgunmat var sú gamla alveg búin á því og endaði í rúminu aftur... sofnaði reyndar eiginlega ekki neitt, bara lá og las og dormaði reyndar aðeins í lokin. Svo fór ég að hugsa um að þetta væri nú meiri grái og leiðinlegi dagurinn og það væri víst undir sjálfri mér komið að gera hann betri. Ísak var veikur heima og ég vissi að Valur kæmi heim um hádegið, svo ég dreif mig á lappir og fór að baka vöfflur. Það gladdi kallana mína að fá þessar fínu vöfflur í hádegismat og þá var nú tilganginum náð.

Ég hinsvegar er ennþá hálf drusluleg og leið á sjálfri mér þrátt fyrir þessa tilraun til að gefa lífinu lit. En ég er að fara að vinna klukkan tvö og þá þýðir ekkert annað en safna sér saman, klína málningu framan í fjesið, reyna að finna einhver föt sem mér líður vel í og ruslast af stað. Sem betur fer hressist ég nú yfirleitt við að koma í vinnuna og eiga samskipti við fólk. Þá gleymi ég því stundarkorn hvað ég er eitthvað misheppnuð (að vera alltaf svona slöpp og þreytt) og það er nú ágætt. Gleymi því að minnsta kosti þar til ég fer að gera einhverjar gloríur...

Valur og Ísak eru inni í stofu að tefla. Ísak hefur ekki mikið verið að tefla en eitthvað aðeins þó í skólanum stundum. Nóg til þess að hann varð í öðru sæti þegar keppt var í skák í Lundarskóla og svo lenti Lundarskóli (liðakeppni og Ísak með) í þriðja sæti í keppni grunnskóla á Akureyri. Það voru 7 skólar sem kepptu. Og meiri fréttir af Ísaki, því hann skellti sér líka í stærðfræðikeppni grunnskóla við Eyjafjörð á dögunum, og gerði sér lítið fyrir og lenti í öðru sæti þar. Vann tíu þúsund krónur í verðlaun og fannst það ekki slæmt. Flott hjá honum.

fimmtudagur, 14. apríl 2011

Ég var heppin að vera í fríi í gær

Því það er ekki séns að ég hefði getað farið í vinnuna. Ég vaknaði alveg gjörsamlega undirlögð af "beinverkjum" og leið eins og ég væri alveg fárveik. Staulaðist fram, græjaði Ísak fyrir skólann og fór svo aftur upp í rúm og lá þar fram undir hádegi. Um tvöleytið var ég orðin nógu hress til að fara í sturtu og þó ég væri slöpp eftir sturtuna, þá var ég orðin mun betri aðeins síðar. Dreif mig meira að segja í bæinn að útrétta aðeins. En þrátt fyrir það, þá þorði ég ekki að fara á fund með ljósmyndaklúbbnum í gærkvöldi, vildi ekki taka neina sénsa. Hins vegar er ég alveg þokkalega hress í dag (svona miðað við mig) svo það er nú gott :-) Nógu hress til að blogga í vinnunni, hehe. Það er nú býsna rólegt hér á torginu í dag en lifnar vonandi yfir pleisinu þegar líða tekur á daginn.

miðvikudagur, 13. apríl 2011

Þá er Anna systir komin og farin

En hún kom til landsins á sunnudaginn þegar brjálaða veðrið var. Hennar flugvél lenti þó ekki í Keflavík eins og áætlað hafði verið, heldur á Egilsstöðum. Þar tók við töluverð bið í lokuðu rými á flugvellinum, á meðan beðið var eftir rútum til að flytja farþegana til Reykjavíkur. Það átti að fara í gegnum Akureyri, en svo lokaðist Holtavörðuheiði og þá var ákveðið að fara suðurleiðina. Önnu leist ekki á það, því þá hefði hún ekki komið til Reykjavíkur fyrr en um miðja nótt og átti svo pantað til Akureyrar snemma morguninn eftir. Þannig að hún tók bíl á leigu og keyrði til Akureyrar. Norsk stelpa sem var á leið að heimsækja vinkonu sína á Akureyri, var pöruð saman við hana, þannig að þær voru tvær í bílnum. Það var nú alveg brjálað rok á leiðinni en sem betur fer gekk allt vel og þær voru komnar í bæinn um ellefuleytið (minnir mig). Á mánudaginn fórum við systur í sund um morguninn og kíktum svo stutt á kaffihús, en síðan fór Anna á jarðarför. Í gær fórum við aftur í sund og svo fór ég að vinna. Eftir vinnu fórum við í Hof og fengum okkur hálfa smurbrauðsneið hvor, og slökuðum aðeins á. Síðan fór hún að pakka dótinu sínu og ég keyrði hana útá flugvöll rétt fyrir fimm. Þannig að ekki var þetta nú langt stopp, en samt svo notalegt að fá hana aðeins í heimsókn.

sunnudagur, 10. apríl 2011

Vorsvörður



Vorsvörður, originally uploaded by Guðný Pálína.
Það er Valur sem á heiðurinn af nafninu á þessari mynd. Ég sjálf var alveg tóm.

En sem sagt, í gær var ég í álíka þungbúnu skapi og himininn á þessari mynd. Ég hafði jú drattast í bæinn með þeim eina árangri að vera algjörlega uppgefin á eftir, og byrjaði sjálfspíningarsönginn minn eftir það. Sá söngur heyrist aðallega í höfðinu á sjálfri mér og fjallar um það hvað ég sé nú eiginlega mikill aumingi og hvað það hljóti að vera hræðilegt fyrir alla sem að mér standa að þurfa að horfa uppá þetta. Já, ég veit, alveg ömurleg sjálfsvorkunn hér á ferð.

 Jæja, nema hvað, eftir kvöldmatinn voru svo falleg ský í norðrinu, að við Valur ákváðum að drífa okkur út með myndavélarnar. Það stóð nú reyndar á endum að loks þegar við vorum komin af stað, voru skýin ekki svona falleg lengur, en mig langaði samt að komast eitthvað út fyrir bæinn. Svo við ókum að Gáseyri og vorum þar í smá stund í rokinu og tókum myndir. Það var ótrúlega hressandi að komast út í náttúruna og eins og oftast nær, þá tókst mér algjörlega að hætta að hugsa um rassinn á sjálfri mér á meðan ég var að horfa í gegnum linsuna og anda að mér fersku sjávarloftinu. Eftir Gáseyri ókum við svo fram Hörgárdal, og þar sáum við þetta yfirgefna hús og stoppuðum og tókum nokkrar myndir. Allt í allt var þetta prýðileg ferð hjá okkur og ég kom heim í þúsund sinnum betra skapi en ég fór.

laugardagur, 9. apríl 2011

Amma Pálína og Hrefna

Sú yngri á fyrsta aldursári og sú eldri á hundraðasta aldursári. Ég er sem sagt enn að skanna gamlar myndir, en gæðin eru nú svona og svona. Með því að smella á myndina má sjá stærri útgáfu sem virkar örlítið skýrari.

Velkomin í væluhorn Guðnýjar


Þá er þessi vinnuvika á enda og helgarþreytan tekin við. Alltaf jafn skemmtilegt að ná að halda sér á floti gegnum vikuna og hrynja svo saman um leið og færi gefst til hvíldar. Eða þannig. Sófinn er að minnsta kosti voða góður vinur minn núna. Ég sef samt ekki, er bara svo ótrúlega þreytt að mér finnst erfitt að sitja, hvað þá að standa upprétt. Það er þoka yfir höfðinu á mér og þar að auki er ég að drepast í hægri handleggnum. Hef líklega legið illa á honum í nótt. Mér er illt í öxlinni í nótt, illt í úlnliðnum og þar að auki með brjálaðan bjúg á fingrum hægri handar. 

Ég fór samt út áðan. Drattaði mínum rassi í 66 gráður norður því ég hafði séð auglýsta peysu með góðum afslætti. Þegar til kom passaði peysan ekki, svo ég þurfti ekki að spá meira í það. Ég hitti samt Fríðu bloggvinkonu / kórsystur / Nönnu- og Siljumömmu (Nanna og Silja hafa báðar unnið í Pottum og prikum). Fríða hafði séð auglýstan regnjakka, fisléttan og fínan til að hafa með sér í hlaupin, og var svo heppin að hann var til í hennar stærð. Með henni var Ívar sonur hennar sem er að fara á skólaskipið Danmark og er að vonum spenntur.

Ég hafði líka séð auglýstar gallabuxur og dreif mig þess vegna næst í miðbæinn. Það var í lagi fyrst í stað, en eftir að hafa mátað buxur í 10 mínútur (gat ekki ákveðið hvort sniðið ég átti að kaupa) var ég alveg búin á því. Þá datt mér í hug að fara í Pennann og kaupa mér kaffi til að hressa mig, en þegar til kom keypti ég ekki kaffi, heldur ljóðabók sem ég ákvað að færa eiginmanninum að gjöf.

Fór svo heim og fékk í staðinn kaffi úr kaffivél heimilisins. Það hressti mig nógu mikið til að ég sit hér og blogga en sófinn bíður handan við hornið. Helst vildi ég geta sofnað og sofið þar til ég verð hressari... en það er víst ekki í boði.

Árshátíðarkaffið gekk ágætlega fyrir sig. Ég hljóp þarna um eins og hauslaus hæna, og fannst ég ekki beint hafa yfirsýn yfir þetta verkefni, en það kom nú líka til af tvennu. Annars vegar mættu foreldrar og krakkar frekar seint til vinnunnar og hins vegar voru skemmtiatriðin búin korteri fyrr en við reiknuðum með, og ég var ekki "tilbúin" þegar gusan kom. Þetta slapp samt allt, heitu réttirnir voru ekki alveg tilbúnir en komu fljótt og svo var mikill hamagangur í öskjunni við að koma veitingum á hlaðborðið eftir því sem tæmdist af því. En gestirnir voru sáttir og það var nú aðalatriðið. Magn veitinga hefði ekki mátt minna vera, en það slapp líka fyrir horn. Ég fór ekki í þreytubreakdown á meðan á þessu stóð (adrenalínið sá fyrir því) og svo tók tíma að ganga frá en þá var ég líka alveg búin á því. Valur kom svo á næstu sýningu og við horfðum á leikritið sem Ísak og hinir krakkarnir í leiklistarvalinu voru að sýna. Þetta var bráðskemmtilegt hjá þeim og Ísak stóð sig svaka vel í stóru hlutverki. Kvöldið fór svo í að smyrja flatbrauð til að hafa með á hlaðborðinu næsta dag.

Í gær fór ég svo með tvær marengstertur og flatbrauð upp í skóla áður en ég fór í vinnuna. Var nú frekar framlág en þurfti að hrista það af mér þegar stór sending af vörum kom, og þá þýðir ekkert að vera þreyttur. Þannig að sú gamla bretti uppá ermar og fór á fullt.

Í gærkvöldi fórum við Valur svo á nýja sushi staðinn áður en við fórum á sýningu í Hofi. Þar var danska leikkonan Charlotte Böving með sambland af vangaveltum um lífið og tilveruna, og dönskum söng. Frábær sýning hjá henni. Þarna voru margir sem ég þekki eða kannast við, og meðal annars bæði Bryndís vinkona mín og Hafdís og Hulda systir hennar. Við Valur settumst hjá þeim systrum, en þetta var svona kaffihúsa-stemming en ekki uppraðaðir stólar. Þetta var sem sagt hin ágætasta skemmtun en mikið var samt gott að komast heim í sófann - sjónvarpssófann í þetta sinn - og slaka aðeins á eftir annasaman dag.

Ég held að ég láti þetta gott heita af væli í dag. Kannski blogga ég bara aftur í dag eða á morgun og sleppi því alfarið að væla. Væri það ekki frábært?

fimmtudagur, 7. apríl 2011

Ein að bræða úr sér

Úff púff... Ég er sem sagt að fara í þetta árshátíðar-kaffi-dæmi í dag og tel bara niður... Er annars í eldhúsinu að baka kökur sem ég á að koma með í kaffið. Það er nú aðallega þetta með að ég á að vera vaktstjóri yfir mínum hóp sem er að trufla mig. Þarna eru ákveðnar og duglegar konur og ég hef ekki áhyggjur af því að verkin verði ekki unnin. Nei, það er bara þetta með að eiga að vera "yfir" sem er vandamálið. Mér finnst ekkert rosalega auðvelt að eiga að skipa fyrir verkum, bæði krökkum og foreldrum. Ég veit samt alveg að allir munu verða mjög samvinnufúsir, þetta snýst ekki um það.

Já og svo er smá stress í gangi með veitingarnar á hlaðborðið. Í dag eru tvö kaffihlaðborð, hið fyrra kl. 16 (þetta sem ég er með) og hið síðara kl. 19, og stundum gerist það að það klárast alltof mikið af veitingunum í fyrra hlaðborðinu. Þá er hægt að fara í bakarí og fá einhverjar kökur s.s. djöflatertur og þess háttar, en mér finnst þær nú ekki koma í staðinn fyrir heimabakaðar marengs- og rjómatertur. Við sem erum í fyrra hlaðborðinu þurfum að gæta þess að allt þetta "mest spennandi" klárist ekki á okkar vakt en samt þarf að vera til nógu mikið þannig að allir fái nóg að borða. Til að flækja málið enn frekar þá eru sumir foreldrar fjarverandi og hafa ekki hugsað fyrir því að þeir þurfi að redda kökum þó þeir séu ekki á svæðinu. Ein kona tilkynnti í gærkvöldi að hún væri farin suður og hafði ekki velt því neitt fyrir sér að það myndi þá vanta tvær sætar tertur og 70-80 skinkusnúða á hlaðborðið. Aðrir foreldrar voru ekki á landinu en amma barnsins tók að sér að baka tvær tertur. Þá vantar samt muffinsið/snúðana sem þau áttu að koma með. Já það munar um allt. Ég á að koma með mínar kökur á morgun og er búin að baka eina kornfleksmarengstertu og er að græja kremið á hana. Svo keypti ég tvo marengsbotna og ætlaði að græja eitthvað úr því. En í morgun var ég orðin eitthvað svo tense yfir því að það myndi vanta kökur, svo ég fór að baka eina marengstertu í viðbót... Ég er líka að spá í það hvort ég ætti að fara frekar með flatbrauðið með hangikjötinu í dag, því það vantar kannski frekar í dag en á morgun því fyrri sýningin er svo snemma í fyrramálið og kannski ekki eins margir foreldrar sem geta tekið frí úr vinnu til að koma á hana + hlaðborð. En já úff, nú er ég bara farin að rugla hægri og vinstri. Ætli sé ekki best að ég skjótist í bankann til að fá skiptimynt fyrir miðasöluna.  Já og sæki líka vörur fyrir vinnuna sem ég var búin að gleyma að sækja. Svo þarf ég að kaupa einhver fersk ber til að setja ofan á þessar blessuðu marengstertur.

mánudagur, 4. apríl 2011

Skemmti mér við að skanna hitt og þetta

Já nú er ég búin að skanna hinar ýmsu myndir sem ég rakst á í tiltektinni í gær. Bekkjarmyndir frá því í barnaskóla, gagnfræðaskóla, menntaskóla og úr sjúkraliðanáminu. Þessu skellti ég öllu inn á facebook, við töluverðar vinsældir. Ég reyndar merkti ekki fólk á myndunum, ef einhverjir skyldu vera viðkvæmir fyrir gömlum myndum af sjálfum sér. Nöfnin koma þá ekki upp við leit á facebook eða netinu.

En já mér finnst þetta ferlega gaman og hér kemur ein skönnuð mynd sem er ekki komin á facebook. Þetta er myndin sem var tekin af mér í tilefni þess að ég útskrifaðist sem sjúkraliði. Myndin var tekin að vori til og strangt til tekið, þá var ég ekki útskrifuð á þeim tímapunkti. Það orsakaðist af því að ég var ekki búin með allt verknámið, en við gátum ekki byrjað allar á sama tíma í verknámi, svo ég vann í garðræktinni sumarið áður, þegar flestar hinna hófu verknám. Mér fannst svo gaman að vinna í garðræktinni að mér var sléttsama þó ég kæmist ekki strax inná sjúkrahús í vinnu.

En það sem maður rekur óneitanlega augun í við að skoða þessa mynd, er hversu ung ég er, enda ekki nema 18 ára þegar myndin var tekin (varð 19 um haustið). Svo skildi ég ekkert í því af hverju sumar hjúkkurnar komu fram við mig eins ég væri barn... hehe :-)

Alveg búin að vera í hægri hendinni og augunum

en bókhaldið er líka alveg að hafast. Ég er búin að færa allar færslurnar og á bara eftir að lesa yfir og leita að villlum. Og nú ætla ég að hætta að glápa á þennan tölvuskjá og fara að þurrka af ryk.

sunnudagur, 3. apríl 2011

Einu sinni langaði mig að verða fatahönnuður

Já það sem maður geymir!! Mér finnst ég nú vera orðin mun duglegri að henda hlutum, og auðvitað er margt sem ég vil ekki henda. Í dag hef ég dundað mér við að fara í gegnum ýmislegt gamalt og hent sumu. Öðru tími ég ekki að henda og hef meira að segja sett á tölvutækt form með því að skanna það inn, svo ég muni eiga það áfram.

Eitt af því eru þessar tvær myndir sem hér fylgja. Þær teiknaði ég í kringum tvítugsaldurinn, líklega svona ca. 22ja ára gömul, í tilefni þess að á þeim tíma langaði mig að verða fatahönnuður. Það er reyndar réttara að segja að fatahönnuður var eitt af því sem mig langaði að verða á þeim tíma. En hins vegar fannst mér ég ekki kunna að teikna og taldi því að ég gæti ekki lært fatahönnun þess vegna. Samt teiknaði ég mjög mikið í kringum 10-13 ára aldurinn. Svo hætti ég því hins vegar nánast alveg, þegar ég áttaði mig á því að Anna systir og Rósa vinkona voru miklu flinkari að teikna en ég... Já svona var ég skrítin. Auðvitað á maður ekki að hætta að gera það sem manni finnst skemmtilegt, en þannig hugsaði ég ekki þá. Ég á samt ennþá ofan í kassa safn af teikningum frá því ég var krakki/unglingur og flestar eru myndirnar af konum. Ekki af því ég hafi hrifist svo gríðarlega af konum sem slíkum, heldur af því ég var alltaf að teikna þær í mismunandi fötum. Þegar ég var enn yngri var ég líka endalaust að sauma föt á barbídúkkurnar mínar, þó saumaskapurinn hafi nú verið misgóður. En mikið sem ég hafði gaman af þessu föndri.

Ég saumaði líka föt á sjálfa mig, mest í kringum tvítugsaldurinn, en hætti því svo alveg þegar við fluttum til Noregs. Þar voru fataefnin svo dýr á þeim tíma. Síðasta flíkin sem ég saumaði á mig var vesti (minnir mig) og ætli það hafi ekki verið fyrir jólin 1992? Hm, eða 1993. Við bjuggum alla vega í Tromsö og ég saumaði vesti á mig, Hrefnu og Andra. Einhvers staðar á að vera til mynd af okkur í vestunum.

En já, aftur að þessum myndum sem koma hér. Ég er að spá í að hvort ég hafi verið að herma eftir myndum sem ég sá í tískublaði, ég held varla að mér hafi dottið þetta alfarið í hug sjálf. Því ég held að ég hefði örugglega reynt að hafa hlutföllin aðeins gáfulegri (höfuðin eru afskaplega lítil og fötin aðalatriðið).  Hins vegar fannst mér svo óborganlega fyndið að finna þetta að ég stóðst ekki mátið að birta þessi stórkostlegu teiknunar-afrek mín hér ;-)

laugardagur, 2. apríl 2011

Laugardagur en ekki letidagur

Já ég er búin að vinna í bókhaldi í morgun, búin að reikna út laun og er svo á leið í Potta og prik  þar sem ég ætla að standa vaktina með honum Andra mínum. Heilsufarið mætti vera betra. Ég var aðeins hressari í gær og afrekaði að sauma tvær gardínur (með einfaldasta saumaskap í heimi) og vinna mína 4,5 tíma, en svo var ég gjörsamlega ónýt í gærkvöldi. Nú þarf ég bara að skreppa í sturtu og setja svo á mig andlitið, og drífa mig svo í vinnuna.