þriðjudagur, 2. nóvember 2004

Undarlegt

hvernig sömu eða svipaðar hugmyndir eru í deiglunni hjá fleira fólki samtímis. Ég hef oft rekið mig á þetta, síðast núna í vikunni. Ég er alltaf að reyna að átta mig á því hvers konar starf myndi henta mér og hvað ég myndi hafa áhuga á að starfa við í framtíðinni. Ókey, ég lærði viðskiptafræði en hef afskaplega lítinn áhuga á viðskiptum sem slíkum, sérstaklega öllu sem hefur með fjármál að gera. Finnst (sem betur fer) ekki leiðinlegt að vinna að markaðsrannsóknum og könnunum eins og við gerum hjá Innan handar - en gæti líka hugsað mér að gera eitthvað annað en það. Uppgötvaði síðasta vor að mér fannst gaman að kenna og vonandi hafa mínir ágætu nemendur ekki beðið mikið tjón af.

Mér finnst gaman að skrifa ( þó vissulega sé íslenskukunnáttan heldur farin að dala) og eftir námskeiðið um daginn var ég að velta því fyrir mér á hvern hátt ég gæti unnið við eitthvað tengt skriftum - og datt í hug að ég, eða við hjá Innan handar, gætum tekið að okkur að uppfæra heimasíður fyrirtækja. Flest öll fyrirtæki eru komin með heimasíður en oft skortir mikið upp á að þær séu uppfærðar reglulega, t.d. skrifaðar fréttir o.s.frv. Yfirleitt er umsjón heimasíðunnar bætt á einhvern sem er þegar með alltof mörg verkefni á sinni könnu og kemst ekki yfir að gera meira þó hann vildi. Þarna sá ég sem sagt möguleika og nefni þetta við Bryndísi í gærmorgun.

Kem svo á námskeiðið í gærkvöldi (okkur fannst svo gaman að Þorvaldur samþykkti að koma norður nokkrum sinnum í viðbót) og þá er Þorvaldur að tala um að hann verði með námskeið í desember í hagnýtum skrifum. Og jú, jú, þetta námskeið er þá einmitt stílað á fólk sem vinnu sinnar vegna þarf að skrifa texta, s.s. fréttatilkynningar og efni á heimasíður. Þar fór sú viðskiptahugmynd - nú fara allir væntanlegu viðskiptavinirnir á námskeið og læra að gera þetta sjálfir........

Engin ummæli: