Mér finnst gaman að skrifa ( þó vissulega sé íslenskukunnáttan heldur farin að dala) og eftir námskeiðið um daginn var ég að velta því fyrir mér á hvern hátt ég gæti unnið við eitthvað tengt skriftum - og datt í hug að ég, eða við hjá Innan handar, gætum tekið að okkur að uppfæra heimasíður fyrirtækja. Flest öll fyrirtæki eru komin með heimasíður en oft skortir mikið upp á að þær séu uppfærðar reglulega, t.d. skrifaðar fréttir o.s.frv. Yfirleitt er umsjón heimasíðunnar bætt á einhvern sem er þegar með alltof mörg verkefni á sinni könnu og kemst ekki yfir að gera meira þó hann vildi. Þarna sá ég sem sagt möguleika og nefni þetta við Bryndísi í gærmorgun.
Kem svo á námskeiðið í gærkvöldi (okkur fannst svo gaman að Þorvaldur samþykkti að koma norður nokkrum sinnum í viðbót) og þá er Þorvaldur að tala um að hann verði með námskeið í desember í hagnýtum skrifum. Og jú, jú, þetta námskeið er þá einmitt stílað á fólk sem vinnu sinnar vegna þarf að skrifa texta, s.s. fréttatilkynningar og efni á heimasíður. Þar fór sú viðskiptahugmynd - nú fara allir væntanlegu viðskiptavinirnir á námskeið og læra að gera þetta sjálfir........
Engin ummæli:
Skrifa ummæli