Ég man eftir því að hafa langað út að leika mér. Það var óveður úti, svo mikið óveður að þakið fauk af Súkkulaðiverksmiðjunni Lindu en ég var of lítil til að gera mér nokkra grein fyrir því. Æpti, skrækti og lét öllum illum látum af því ég fékk ekki að fara út. Mamma og pabbi þurftu að beita mig valdi til að hindra að ég æddi af stað út í óveðrið og eftir þetta atvik var settur hespulás fyrir útidyrnar, hátt uppi svo ég næði ekki að opna hann.
Einu sinni ætlaði bróðir minn að leika við mig en hann var sex árum eldri og lék sjaldan við litlu systur. Ég var hæstánægð og möglaði ekki þegar leikurinn hófst. Hann var þannig að Palli var á reiðhjóli og batt snæri í kerruna mína en í henni sat ég. Síðan hjólaði hann af stað með kerruna í eftirdragi en ferðin tók snöggan enda þegar kerran valt á hliðina og ég fékk gat á hausinn af því ég rak mig í. Það blæddi mikið úr sárinu og ég hlýt að hafa grátið. Mamma lét mig leggjast með kaldan bakstur við sárið þar til hætti að blæða. Á þeim árum var ekki farið upp á slysadeild nema rík ástæða væri til.
Þegar ég hafði safnað nógu lengi átti ég að lokum næga peninga til að kaupa reiðhjól (líklega með smá viðbót frá mömmu og pabba). Ég var sjö ára og þetta var mitt fyrsta hjól. Það var hátíðleg athöfn þegar við pabbi gengum niður í bæ til að kaupa hjólið. Hjólabúðin var í húsnæði því sem núna hýsir Ljósmyndastofu Páls en ekki man ég hvað búðin hét. Við skoðuðum öll hjólin vandlega en ég féll fyrir bláu Raleigh hjóli og það var ótrúlega stolt stelpa sem leiddi hjólið heim sér við hlið. Ég kunni þó að hjóla því systkini mín áttu hjól sem ég gat fengið lánuð ef ég kvabbaði nógu mikið í þeim. Palli átti risastórt karlmannsreiðhjól og ég hjólaði á því með því að setja annan fótinn inn undir stöngina og hjóla standandi, öll skökk og skæld. Verr man ég eftir hjólinu hennar Önnu, minnir þó að það hafi verið rautt og eins og Palla hjól, alltof stórt fyrir mig. Ekki var alltaf auðvelt að halda jafnvægi á svona stórum hjólum og afleiðingin var sú að ég datt oft og hruflaði mig, sérstaklega á hnjánum og sköflungunum.
Rósa var besta vinkona mín. Hún átti heima beint á móti mér og var yngsta barn foreldra sinna rétt eins og ég. Fyrsta minning mín um Rósu er sú að við sitjum báðar í barnakerrum sem lagt er hlið við hlið og horfum á svínin. Á þeim tíma var svínabú þar sem verslunarmiðstöðin Kaupangur er núna og bræður okkar Rósu, sem áttu að vera að passa okkur, höfðu brugðið á það ráð að skilja okkur eftir þarna svo við gætum skemmt okkur við að horfa á svínin á meðan þeir voru að leika sér.
Ég man eftir því þegar pabbi kom heim með bókasafnskort handa mér. Mikið var ég ánægð að eiga mitt eigið bókasafnskort. Eina vandamálið var að það mátti einungis taka 4 bækur í einu og ég var alltaf svo fljót að lesa þær. Það var viðtekin venja að á Þorláksmessu fórum við Anna systir alltaf að ná okkur í bækur á bókasafnið fyrir jólin. Á meðan við vorum á safninu bónaði mamma gólfin og þegar við komum heim angaði allt húsið af bónlykt, sem blandaðist að vísu saman við lyktina af rauðu jólaeplunum sem hann Sigurður í Vísi gaf okkur venjulega fyrir jólin.
Amma mín bjó hjá okkur. Hún var oftast heima. Sat annað hvort á rúminu sínu eða í stól við gluggann og horfði út. Þegar veðrið var gott sat hún stundum í stól úti á tröppum. Á hverjum morgni þvoði hún sér í framan með þvottapoka og strauk yfir hárið í leiðinni eftir að hafa fyrst tekið úr því flétturnar. Síðan fléttaði hún það upp á nýtt, bognum fingrum. Hárið var þunnt og grátt. Ég veit ekki einu sinni hvaða háralit hún var með í æsku því ég sá hana aldrei öðruvísi en gráhærða. Inni hjá ömmu var fataskápur, lítill skápur og við gluggann stóð blómaborð sem geymdi Iðnu Lísu. Við amma spiluðum stundum rommý en ekki mátti spila á spil á jólunum. En svo fékk amma heilablóðfall og lamaðist að hluta. Eftir það var hún rúmföst og það þurfti að hjúkra henni. Mamma gerði það. Lét hækka upp rúmið svo auðveldara væri að hjúkra henni. Saumaði band sem hún festi í fótgaflinn og amma gat notað til að reisa sig upp í rúminu. Þreif hana, skipti á rúmfötum, setti undir hana bekken. Snéri henni í rúminu svo hún fengi ekki legusár. Færði henni mat. Fimmtudagskvöld voru einu kvöldin í vikunni sem mamma fór út en þá fóru þau pabbi á samkomu og annað hvort ég eða systir mín vorum heima og pössuðum ömmu. 1. desember 1984 náði hún þeim áfanga að verða 100 ára en dó svo í febrúar árið eftir.
Svo mörg voru þau orð. Guðný has left the building.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli