mánudagur, 15. nóvember 2004

Hrikalegt

hvað maður ryðgar í tungumálum sem maður notar sjaldan. Ég þykist vera nokkurn veginn fluglæs á enskan texta en þegar kemur að því að skrifa sjálf þá versnar málið. Byrja að velta fyrir mér greini og forsetningum og veit allt í einu ekkert í minn haus. Þetta er auðvitað ekkert nema æfingarleysi - en þegar maður þarf ekki nauðsynlega að skrifa eitthvað á ensku þá gerir maður það auðvitað ekki. Þetta minnir mig á að ég fæ alltaf gríðarlegt samviskubit þegar ég sé Gullu, þýskukennarann minn úr framhaldsskóla. Ég var nefnilega fyrirmyndarnemandi í þýsku og afrekaði að fá þýskt ljóðasafn í verðlaun fyrir góðan árangur á stúdentsprófi. Hvað gerist svo? Jú ég hef hvorki lesið né skrifað þýsku síðan þá. Og ekki hef ég gert tilraun til að tala hana síðan við bjuggum í Noregi og ég ætlaði að tala við þýskan sjúkling sem lá á geðdeildinni sem ég vann á. Reyni ekki einu sinni að lýsa því hvaða bull kom út úr munninum á mér.

Engin ummæli: