þriðjudagur, 9. nóvember 2004

Afmælisbarn dagsins er Birta

kötturinn okkar sem er 4ra ára í dag. Það var mikil gleði þegar hún kom á heimilið og lán í óláni að Valur skyldi vera veikur heima og geta hugsað um hana fyrstu dagana hennar á nýjum stað. Ástæðan fyrir því að við fengum okkur kött var sú að við höfðum prófað ýmsar tegundir gæludýra og einhvern veginn hafði það alltaf endað með dauða þeirra. Og nei, við vorum ekki að fá okkur í matinn (eins og fólkið sem stútaði kanínunni sinni fyrir jólin - en NB! kanínur þykja herramannsmatur t.d. í Frakklandi).

Þegar við bjuggum í Förde í Vestur-Noregi höfðum við reyndar haft ketti en það var nú alveg óvart að við eignuðumst þá. Þannig var að í raðhúsinu beint á móti okkur bjó fráskilinn sálfræðingur sem fékk syni sína til sín aðra hvora helgi og stundum oftar. Hann fékk sér 2 kettlinga, örugglega til að gera heimilið meira aðlaðandi fyrir synina. Hrefna sem þá var 7 ára hændist ógurlega að kettlingunum og var í sífellu að fara í heimsókn til sála til að fá að leika við þá. Síðan gerðist það að hann kynntist nýrri konu og sást ekki lengur heima hjá sér nema þá helst til að gefa köttunum að borða. Þetta var mikil sorg fyrir Hrefnu sem gat þá ekki hitt þessa vini sína eins oft og áður. Kvöld eitt kemur sálfræðingurinn yfir til okkar með þær fregnir að hann hafi hugsað sér að láta svæfa kettina. Hrefna tók það afar nærri sér og mitt kattahjarta bráðnaði líka alveg. Hvorug okkar gat hugsað sér að þeir hlytu svo slæm örlög og það varð úr að við tókum kettina (sem við nefndum þeim frumlegu nöfnum Svart og Grána) að okkur. Sem var auðvitað bara gálgafrestur því hvernig fara íslendingarnir að þegar þeir fara heim til Íslands í sumarfrí???

Gráni týndist reyndar fljótlega eftir að hann kom til okkar en Svartur lifði þeim mun betra lífi, óx og dafnaði vel. Valur minntist nú á það við mig oftar en einu sinni hvort kötturinn væri ekki orðinn ansi feitur en ég gat ekki séð það... Nokkrir mánuðir liðu, Andri fæddist í febrúar og í mars eða apríl kom Gráni aftur í leitirnar. Birtist allt í einu fyrir utan leikskólann sem Hrefna var á. Hann var nú hálf tuskulegur greyið eftir þessa útilegu, horaður, ljótur á feldinn og óttalega taugaveiklaður orðinn. Í maí fluttum við til Bergen og fórum keyrandi nokkurra klukkutíma leið með kettina í pappakassa sem við höfðum stungið ótal göt á. Þeir urðu alveg snarbrjálaðir í kassanum (það hreinlega hvarflaði ekki að mér að maður gæti keypt búr til að ferðast með þá í) og mjálmuðu og klóruðu í kassann í óratíma að því er mér fannst. Svo allt í einu datt allt í dúnalogn og ég var alveg handviss um að þeir hefðu fengið sjokk og drepist. Þorði samt ekki einu sinni að kíkja ofan í kassann til að tékka á þeim. En þeir steinþögðu það sem eftir var leiðarinnar og létu fyrst í sér heyra þegar við vorum komin til Bergen. Þá höfðu þeir bara sofið vært alla leiðina. Við þorðum ekki annað en hafa þá inni fyrstu dagana en hleyptum þeim svo út í stórborgina. Biðum svo milli vonar og ótta því við vorum alls ekki viss um að þeir myndu rata heim aftur. En sú heimska að efast um ratvísi katta! Þeir skiluðu sér að vísu ekki aftur fyrr en að rúmum sólarhring liðnum, Hrefnu til mikillar gleði því hún hafði varla getað sofið fyrir áhyggjum.

Fljótlega eftir þetta fór mjög að draga af Grána, hann fékk niðurgang og var farinn að skíta út um allt í íbúðinni. Ég var ekki mjög glöð enda með ungabarn á heimilinu. Svo kom að því að fjölskyldan ætlaði heim til Íslands í mánaðarlangt sumarfrí. Nú voru góð ráð dýr, hvað átti að gera við kettina á meðan? Við þekktum engan sem gat haft þá og þegar ég athugaði hvað myndi kosta að hafa þá á kattahóteli kom í ljós að það var álíka dýrt og flugfarið fyrir fullorðinn fram og tilbaka frá Noregi. Ljóst var að þetta yrði ekki eina ferðin okkar til Íslands á meðan Noregsdvölinni stæði og þetta yrði vandamál í hvert sinn sem við myndum ætla að fara eitthvert. Það voru þung spor þegar farið var með kettina til dýralækninsins sem svæfði þá. Þetta var kona og hún sagði að það hefði hvort sem er þurft að svæfa Grána út af hans veikindum en það var lítil huggun. Mér leið svo illa yfir þessu að lengi gat ég ekki hugsað mér að fá mér kött aftur. Hrefna var líka afskaplega leið og henni var lofað því að þegar við flyttum til Íslands myndi hún fá gæludýr.

Fjórum árum síðar fluttum við heim og ekki leið á löngu þar til Hrefna hermdi loforðið um gæludýr upp á okkur og kanína var keypt. Hún var höfð í búri inni í Hrefnu herbergi en var stundum hleypt út (inni í húsinu) til að viðra sig og afrekaði þá að naga í sundur allar þær rafmagnssnúrur sem hún náði í. Um páskaleytið fór Hrefna með hana út og ætlaði að leyfa henni að anda að sér fersku lofti en þá tókst ekki betur til en svo að kanínan stökk úr fangi hennar niður á harðan snjóinn og fótbrotnaði. Dýralæknirinn sagði að það hefði gerst vegna þess að dýr sem höfð væru í búrum fengju beinþynningu af hreyfingarleysi. Ekki þarf að orðlengja það frekar en kanínuna þurfti að aflífa.

Næsta dýrategund sem við reyndum okkur á voru fiskar. En það var sama hvað gert var, þeir týndu alltaf tölunni. Ég var búin að fara ótal ferðir í dýrabúðina og fara samviskusamlega eftir öllum þeim ráðleggingum sem mér voru gefnar - árangurslaust. Keyptir voru nýir og nýir fiskar því þeir drápust alltaf. Ég gafst nú upp á þeirri útgerð og næst fékk Hrefna páfagauka.

Þetta voru kall og kelling og gekk ágætlega með þá til að byrja með. Þeir fengu að vera inni í stofu og við hleyptum þeim iðulega út að fljúga (og skíta, ég er enn að finna fuglaskít á ótrúlegustu stöðum mörgum árum síðar). Kellingin var þó alltaf heldur slappari en kallinn og hefur sennilega verið orðin gömul enda dó hún innan einhverra ára. En við fengum nýja kellingu og sú var hress og spræk. Nógu spræk til þess að þau fóru brátt að sýna hvort öðru mikil ástaratlot. Ég fór þá og keypti varpkassa og viti menn, innan tíðar verpti hún eggjum, við mikinn fögnuð barnanna á heimilinu (sem voru orðin þrjú þegar hér er komið sögu, Ísak hafði bæst í hópinn). Kellingin lá samviskusamlega á eggjunum og kallinn studdi hana dyggilega með því að mata hana þegar þess var þörf. Og viti menn, þegar réttur tími var kominn brutust fimm ungar úr eggjunum, við ennþá meiri fögnuð heimilisfólksins alls. Það var ótrúlega spennandi að fylgjast með framvindu mála og þegar Andri átti afmæli stuttu síðar voru ungarnir aðal aðdráttaraflið. Ég hleypti einum og einum strák inn í einu til að kíkja ósköp varlega niður í varpkassann og þetta þótti mikið undur. Hins vegar leið ekki á löngu þar til við tókum eftir því að kellingin var hætt að mata ungana. Og ekki hleypti hún kallinum inn í varpkassann heldur svo hann gat ekki bjargað þeim. Þannig að þeir lognuðust út af hver á eftir öðrum og dóu allir.

Við vorum öll alveg miður okkar eftir þetta og þegar ég sá auglýsingu í Dagskránni stuttu síðar þar sem Síamskettlingar voru til sölu var tekin sú ákvörðun að fá sér gæludýr sem myndi ekki drepast við minnsta tilefni. Og kötturinn skyldi verða hafður inni svo ekki yrði keyrt á hann (þau fögru fyrirheit dugðu í eitt ár eða svo og núna fer hún út eins og hún vill, en aldrei langt í burtu og hún passar sig vel á bílunum.)

Birta hefur veitt okkur öllum mikla ánægju og fyrir um ári síðan ákváðum við að fá félaga handa henni því okkur fannst hún hálf leið, sérstaklega yfir veturinn þegar við vorum að heiman meirihluta dagsins í skóla og vinnu. Máni kom þá, pínulítill og vitlaus, en Birta var nú hreint ekki til í það að fá ókunnugan kött inn á heimilið. Til að byrja með var hún alveg galin og hvæsti og urraði á hann ef hann kom of nálægt henni. En smám saman minnkaði radíusinn á hennar yfirráðasvæði og á þriðja degi var hann kominn niður í ca. hálfan metra. Máni er alveg sérstaklega geðgóður og tókst fljótlega að bræða hjarta Birtu þannig að í dag eru þau bestu vinir. Þau borða úr sömu skálinni, sofa iðulega þétt saman og leika sér í eltingaleik þegar sá gállinn er á þeim. Þetta er sældarlíf þetta kattalíf.

Engin ummæli: