Mér var gefið nafnið Guðný Pálína í höfuðið á ömmum mínum tveimur. Föðuramma mín hét Petrea Guðný en hún lést löngu áður en ég fæddist. Móðuramma mín hét Pálína og hún bjó á Sjónarhæð hjá foreldrum mínum þegar ég fæddist. Lengi fram eftir aldri fannst mér alveg ótækt að heita þessum tveimur nöfnum og skrifaði mig alltaf bara Guðnýju Sæmundsdóttur (fannst Pálínunafnið hálf kerlingarlegt eitthvað, líklega út af laginu "Það var einu sinni kerling og hún hét Pálína..."). Það er í rauninni frekar stutt síðan ég áttaði mig á því að auðvitað væri það bara ánægjulegt að heita í höfuðið á ömmu Pálínu og tók þá ákvörðun að nota bæði nöfnin þegar ég skrifa nafnið mitt. Samkvæmt Íslendingabók er ég eina núlifandi konan með þessu nafni svo þetta er ágætis auðkenni. Mér verður þá ekki ruglað saman við aðrar konur á meðan.
Annað auðkenni sem ég hef er röddin. Mér liggur frekar hátt rómur og eftir að hafa þurft að hlusta á glósur þar að lútandi í gegnum tíðina var ég eiginlega orðin þess fullviss að ég væri með hræðilega rödd. Sama hvað ég reyndi þá gekk mér illa að lækka mig. Þó er ég ekki frá því að ég sé nú farin að tala aðeins lægra í seinni tíð en kannski er það bara ímyndun. Nýlega áttaði ég mig svo allt í einu á því að í rauninni er það bara jákvætt að hafa rödd sem er svolítið sérstök. Það bregst nefnilega ekki að fólk þekkir mig í síma og það getur verið mikill kostur (vil þó taka það fram að ég kynni mig alltaf með nafni, þoli það ekki þegar fólk kynnir sig ekki og maður velkist í vafa um það hver viðmælandinn er).
Það er hægt að horfa á alla hluti frá fleiri en einni hlið og ef við bara veitum því athygli þá getum við fundið eitthvað jákvætt í öllu þó það virðist ekki vera mögulegt við fyrstu sýn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli