Annað sem breyst hefur frá upphaflegum ásetningi eru veitingar þær sem boðið er uppá. Fyrst áttu þær í mesta lagi að vera poppkorn og smá nammi en í dag er öldin önnur... Borðin svigna undan hnallþórum og heitum réttum - sem er frábært þegar maður er sjálfur gestur - en skapar smá stress þegar maður er gestgjafinn. Sérstaklega ef maður er eins og ég, kem sjaldnast í eldhúsið nema til að borða þar! Geri ég minnstu tilraun til að nálgast pottana þegar maðurinn minn elskulegur er að elda fæ ég umsvifalaust olnbogaskot í síðuna, mér er sem sagt stjakað frá eldavélinni og enginn mun nokkru sinni geta sagt um mig að minn staður sé "bak við eldavélina". Kosturinn er sá að strákarnir alast upp við það að mamman sé hjálparvana í eldhúsinu og það sé hlutverk karlmannanna á heimilinu að sjá til þess að fjölskyldan haldi holdum. Þannig kom t.d. Andri Þór (14 ára) heim úr skólanum í dag og hreykti sér af því að hafa búið til besta lasanjað í heimilisfræðitímanum - þetta lærir hann af föður sínum.
Nú er ég komin út fyrir efnið en eins og allir hljóta að skilja er ekki einfalt mál fyrir konur eins og mig að halda veislur, klúbba ofl. þar sem gerð er krafa um nokkurn veginn slysalausa frammistöðu í eldhúsinu. Ergo: ég sit með sveittan skallann og reyni að finna kökur/heita rétti sem eru nægilega einfaldir fyrir eldhús-fáráðlinga eins og mig en líta samt út fyrir að vera flottir og flóknir! Þetta tekur á og gott að hvíla sig stundarkorn fyrir framan tölvuna ;-)
Mig langar bara að bæta einu við. Fór út að ganga með vinkonu minni í dag og hún var að segja mér sögur af tengdamömmu sinni, ekki sögur um það hve stórkostleg hún væri, heldur akkúrat öfugt. Gleymdi afmælisdegi barnabarnsins en það var nú bara toppurinn á ísjakanum. Minnti mig á aðra vinkonu mína sem líka á hörmulega tengdamömmu. Þá varð mér hugsaði til minnar yndislegu tengdamömmu og þakkaði í huganum mínum sæla fyrir að eiga hana að. Hún hefur aldrei sagt eitt einasta styggðaryrði við mig og var alltaf tilbúin að rétta hjálparhönd meðan hún hafði heilsu til - en ég hef alls ekki verið nógu dugleg að segja henni hvað hún er frábær. Hyggst bæta úr því sem fyrst.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli