laugardagur, 6. nóvember 2004

Er farin að halda

að það þýði ekkert fyrir mig að fara í leikhús. Við Valur fórum í leikhús í gærkvöldi ásamt vinafólki okkar og sáum Svik. Leikritið byrjaði ágætlega en svo var maður einhvern veginn alltaf að bíða eftir því að eitthvað meira bitastætt gerðist - en það gerðist aldrei! Þetta var samt allt í lagi þannig lagað, mér leiddist ekki og leikararnir stóðu sig ágætlega svo langt sem það náði. Skildi reyndar engan veginn hvaða hlutverki Skúli Gautason gengdi sem ítalskur þjónn með augljósa gervibumbu en verkið sem slíkt náði bara ekki að kveikja í mér og hið sama gerðist þegar við fórum á Brim fyrr í haust. Verð þó að bæta því við að ég var alveg heilluð af Edith Piaf, svo enn er von...

Hrefna og Elli (tengdasonurinn) voru hjá okkur í mat í kvöld og bóndinn eldaði afskaplega ljúffengar beikonvafðar kjúklingabringur. Með þeim var spaghetti og bruchettur með þistilhjörtum. Þessu skoluðum við gamlingjarnir niður með bjór en ungviðið drakk Pepsi Max. Eftir matinn varð ég svo syfjuð að ég var við það að leka út úr sófanum, seig alltaf neðar og neðar og geispaði og geispaði. Ofsalega skemmtilegur félagsskapur eða hitt þá heldur. En nú er Valur búinn að taka vídeó þannig að það er ekki um annað að ræða en hætta þessu pári og skvera sér niður í sjónvarpsherbergi.



Engin ummæli: