mánudagur, 29. nóvember 2004
Amælisbarn dagsins
er æskuvinkona mín, hún Rósa. Við erum í dag búnar að þekkjast í ca. 37 ár, sem er ekki slæmt í ljósi þess að við erum aðeins fertugar að aldri. Við Rósa bjuggum á móti hvor annarri, í Stekkjargerði 7 og 8 og brölluðum ýmislegt saman þegar við vorum yngri. Flest af því frekar saklaust því við vorum svo óskaplega vel upp aldar stúlkur. Ég man varla eftir því að við höfum orðið ósammála svo heitið geti, utan einu sinni þegar við hnakkrifumst út af einhverju (sem er auðvitað löngu gleymt) og töluðum ekki saman í nokkra klukkutíma eða svo. Þá kom Rósa lallandi yfir götuna með friðþægingargjöf handa mér, sem ég tók að sjálfsögðu fagnandi. Dúkkuleikur, drullumall, farið út að hjóla, á skauta, skroppið upp að skítalæk.... seinna meir skátarnir og sundið. Þetta voru góðir tímar. Svo skildu leiðir um sinn þegar ég hætti í menntaskólanum og fór að læra sjúkraliðann en Rósa hélt áfram á beinu brautinni. En það er aldrei lengi vík á milli vina og fyrr en varði tókum við upp þráðinn aftur, rétt eins og hann hefði aldrei slitnað. Það er alltaf jafn gaman að hitta Rósu, núna síðast gisti ég hjá henni þegar ég var í Reykjavík í húsmæðraorlofi, og fékk höfðinglegar móttökur eins og alltaf. Sem sagt: Til hamingju með daginn Rósa mín og láttu dæturnar dekra við þig í tilefni dagsins.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli