Myrkrið hellist yfir þessa dagana og minnir hressilega á sig hjá þeim sem berjast við skammdegisþunglyndi. Þá er nú aldeilis gott að eiga lampann góða og má eiginlega segja að hann bjargi lífi mínu yfir vetrarmánuðina. Brandarinn er bara sá að við erum með lampann á eldhúsborðinu og þegar búið er að kveikja á honum þá lýsir hann upp eldhúsið af svo miklum krafti að helst mætti halda að geimskip hefði óvart villst inn til okkar. Það er göngustígur meðfram húsinu og fólk sem gengur framhjá missir sig hreinlega alveg og glápir svo mikið inn um eldhúsgluggann að mesta furða má teljast að það gengur ekki á ljósastaur.
Mikið sem það var sorglegt að lesa minningargreinarnar í Mogganum í dag. Verið að jarða tvær ungar konur sem báðar skilja eftir sig ung börn. Það er ekki langt síðan ég vitnaði í Önnu Pálínu Árnadóttur hérna á blogginu og ég ætla að gera það aftur í dag.
"Á morgun er ef til vill alltof seint að yrkja þau ljóð sem í huganum dvelja."
Engin ummæli:
Skrifa ummæli