Húsvörðurinn úti í háskóla er kallaður Matti, afskaplega hress og skemmtilegur náungi. Hann er grannvaxinn og léttur á fæti. Við vorum að velta því fyrir okkur að hann hlyti að vera svona grannur því hann er á fullu allan daginn, gengur örugglega fleiri fleiri kílómetra á dag og virðist vera óþreytandi. Matti stóð sig alveg með eindæmum vel í að aðstoða okkur þegar við vorum að flytja inn í nýju skrifstofuna um daginn og hlaut að launum eilíft þakklæti okkar. Svo stingur hann höfðinu reglulega inn um dyrnar þegar hann á leið framhjá og kemur þá með einhverjar óborganlegar spurningar í hvert sinn. Hins vegar er ekki jafn auðvelt að svara þeim öllum. Í fyrradag kom hann t.d. með stiga og spurði Bryndísi hvort mætti ekki bjóða henni að "klífa metorðastigann". Í annað skipti kom hann með málband og spurði hvort við myndum "mæla með þessu". Í dag var hann að færa til einhverjar hillur þegar ég átti leið fram hjá og spurði mig hvort hann ætti að "hylla mig". Ég svaraði að bragði og sagðist hafa haldið að hann ætlaði að "leggja eitthvað á hilluna". Sem var auðvitað alls ekkert fyndið þegar ég sagði það... Nei, það er best að leyfa Matta að eiga orðaleikina en halda áfram að hafa gaman af því að hlusta á hann.
Í gærkvöldi fór ég niður í geymslu að tína til föt og leikföng sem Ferðaskrifstofan Nonni ætlar að senda fátækum börnum á Grænlandi í jólagjöf. Ekkert nema gott um það að segja. En mikið sem það var gaman að kíkja aðeins í kassann með ungbarnafötunum (sem ég geymi alltaf ef ske kynni að ég yrði amma einn góðan veðurdag) og rifja upp gamlar minningar frá því stóru börnin mín voru lítil. Það lá við að ég fyndi ennþá ungbarnalyktina úr sumum flíkunum. Svo fór ég með nokkra poka af dóti til Surekhu sem vinnur hjá ferðaskrifstofunni og kom heim um hálf níu leytið. Setti bílinn inn í skúr og ætlaði ekki meir út úr húsi. En þá hafði Andri gleymt að skila vídeospólum sem hann hafði tekið kvöldið áður og var nú farinn á handboltaæfingu. Þannig að ég ruslaðist af stað með spólurnar gangandi. Mér var auðvitað engin vorkunn því vídeoleigan er ekki nema örfárra mínútna gang heiman frá okkur. Samt vorkenndi ég sjálfri mér hálf partinn - en rak þá augun í þvílíka sjónarspilið á himninum og átti ekki lengur neitt bágt. Það sem norðurljósin geta verið falleg. Ég starði upp í himininn og gekk hálf partinn afturábak til að missa ekki af þessu. En þegar ég kom út af leigunni var öll dýrðin horfin, alveg eins og hún hefði aldrei verið þar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli