Ég fór í leikfimi í morgun og verð að viðurkenna að stelpan í móttökunni er farin að fara í mínar fínustu. Ég býð alltaf góðan daginn þegar ég kem inn úr dyrunum - hún býður aldrei góðan daginn að fyrra bragði. Í eitt skiptið bauð ég góðan daginn og þegar bið varð á svari (hún var að skoða eitthvað á internetinu) sagði ég "eða ekki". "Ha, jú, jú auðvitað er þetta góður dagur" sagði hún þá og reyndi að bjarga sér fyrir horn. En ég er harðákveðin í því að halda áfram að bjóða henni góðan daginn, þó ekki sé nema til þess að stríða henni. Eftir hæfilega æfingu í tækjasalnum fór ég svo að teygja en það er fremur lítið pláss ætlað undir teygjuæfingar. Þá var þar fyrir ein kona sem breiddi úr sér yfir dýnurnar og þegar ég settist á örmjóa rönd sem laus var þá datt henni ekki í hug að færa sig svo ég fengi meira pláss. Eftir á að hyggja hefði ég auðvitað átt að biðja hana að færa sig en mér datt ekkert slíkt í hug þegar ég var þarna.
Þetta var nöldur dagsins.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli