miðvikudagur, 25. maí 2011

Nú er sumar, gleðjumst gumar, gaman er í dag :)

Já mikið sem ég var glöð að það skyldi vera þetta gott veður í dag. Ég var orðin alveg ótrúlega þreytt og leið eitthvað á veðrinu undanfarið. Í dag var líka frídagur hjá mér og þrátt fyrir að vera illa sofin núna tvær nætur í röð (í fyrrinótt vaknaði ég ábyggilega fimm sinnum og í gærkvöldi gat ég ekki sofnað) þá dreif ég mig á fætur um hálf átta. Var komin í sund um áttaleytið og þegar ég var búin að synda mínar x ferðir (hehe, ekki margar sem sagt) þá fór ég í sólbað uppi í legvatninu. Þar lá ég og hlustaði á skvaldrið í hinum sundlaugargestunum og naut þess í botn að sleikja sólina. Eftir sundið og morgunmat dreif ég mig svo út með myndavélina. Það var nú eiginlega ekkert alltof hlýtt úti, eða 7 gráður, en ég var í nýju hnausþykku flíspeysunni minni og varð ekkert kalt. Svo bara flakkaði ég milli staða og smellti af hægri og vinstri... eða þannig. Afurðin í dag var nú ekkert til að hrópa húrra yfir, ég var greinilega of þreytt eða eitthvað, að minnsta kosti voru flestar myndirnar alveg kolómögulegar. En útiveran stóð fyrir sínu eins og alltaf. Um ellefuleytið fór ég og fékk mér kaffi í Pennanum og sat í smá stund með kaffibollann og fletti tímaritum. Fannst ég bara vera í sumarfríi þarna eitt augnablik.

Svo náði raunveruleikinn í skottið á mér og þreytu"breakdown" var óumflýjanlegt. Ég lufsaðist heim og fljótlega upp í rúm og lagði mig. Gekk samt ekki vel að sofna því hugurinn var alltof mikið á iði. Um tvöleytið keyrði ég Andra út á flugvöll svo hann gæti flogið um loftin blá, og fór svo með makrólinsu í Lystigarðinn. Þar er allur gróður að taka við sér en ekki mörg blómstrandi blóm á þessum tíma. Gaman samt að hlusta á fuglana syngja og jú jú ég tók líka nokkrar myndir - sem voru held ég bara allar misheppnaðar. Greinilega ekki minn mynda-dagur í dag. Eftir hálftíma var ég alveg búin á því og dreif mig heim. Og síðan hef ég ekki gert neitt nema borða, leysa sudoku og liggja í sófanum.

Í gær fékk ég bréf frá þeim í Lilleström. Ég get fengið tíma hjá þeim í júlí eða ágúst. Sem ég vil að sjálfsögðu, enda mun þetta ferli allt taka svo langan tíma. Það verða teknar gríðarlega umfangsmiklar blóðprufur sem getur tekið 1-2 mánuði að fá svör við (og kannski lengur af því sumarleyfistímabilið er að hefjast?) og síðan er hafist handa við meðferð, allt eftir því hvað kemur út úr blóðprufunum. En já, ég er sem sagt glöð með að geta fengið tíma en byrja samt að flækja allt í höfðinu á mér. Við Sunna erum ekki ennþá búnar að skipuleggja sumarfríin hjá okkur einhverra hluta vegna, en Valur byrjar í fríi í kringum 10 júní. Við höfum svo sem engin sérstök plön varðandi fríið okkar saman, en það er spurning hvort ég eigi að nota hluta af því fríi til að fara til Noregs, eða hvort ég eigi að fara í ágúst. Samt vil ég helst drífa í því sem allra fyrst. Þá verð ég nú að heimsækja Önnu systur í leiðinni, annað kemur ekki til greina. Og svo ég haldi áfram að flækja málin, þá ímynda ég mér að Ísak vilji gjarnan fá að koma með til Noregs, en auðvitað þarf það ekki að vera. Hm, jæja þetta kemur allt í ljós. Og ég er hætt þessu blaðri.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta kemur náttúrulega allt í ljós, en ég fer bara að hlakka til að sjá þig í sumar :-) Anna systir

Guðný Pálína sagði...

Ég fékk símtal frá þeim í morgun. Það var eiginlega voða lítið laust í júlí en ég fékk tíma þann 26. Það verður þá bara að koma í ljós hvort ég kemst þá... Á sem sagt eftir að tala við Sunnu og eftir að athuga með flug. Hvenær byrjar þú aftur að vinna eftir sumarfrí?

Nafnlaus sagði...

Byrja aftur 1. ágúst þannig að þetta passar ágætlega :-) Anna.

Nafnlaus sagði...

Tékkaðu á SAS líka A.