Ég rakst á þessa grein á netinu og datt í hug að þetta væri eitthvað sem fleiri en ég gætu hugsanlega notfært sér. Það er svo merkilegt hvað maður festist oft í neikvæðum hugsunum (gjarnan sem tengjast manni sjálfum) og nær ekki að hrista þær af sér. Í því sambandi dettur mér í hug sagan um munkana tvo sem voru á ferðalagi. Þeir komu að straumharðri á sem þeir þurftu að vaða yfir. Þar sem þeir gera sig klára í að vaða yfir ána, kemur til þeirra ung og falleg kona og biður um aðstoð þeirra við að komast yfir ána. Eldri munkurinn bar konuna á öxlunum yfir ána og lét hana svo niður á bakkann hinum megin. Hinn munkurinn varð alveg miður sín yfir þessu en sagði ekki neitt. Þeir héldu áfram ferð sinni og eldri munkurinn tók eftir því að sá yngri virtist vera eitthvað miður sín þó hann segði ekki neitt. Sá eldri spurði hinn hvort eitthvað væri að. Sá yngri sagði: "Sem munkar megum við ekki vera með konum, hvernig gastu borið konuna á öxlunum yfir ána?". Þá svaraði sá eldri: "Ég skildi konuna eftir á árbakkanum fyrir löngu síðan, en þú virðist enn halda á henni." Mér finnst þetta alltaf svolítið góð saga.
Sem sagt, maður flækist stundum í neikvæðum hugsunum, eða hugsunum sem valda manni streitu, og heldur endalaust áfram að velta sér uppúr þeim. En hér er sem sagt tengill á grein, á ensku að vísu, sem sýnir hvernig maður getur (eða á að geta...) stöðvað neikvæðar hugsanir þegar þær láta á sér kræla - en það krefst þess líka að maður sér meðvitaður um hugsanir sínar. Sem er nú ekki alltaf. Stundum verð ég allt í einu alveg ómöguleg og skil ekkert hvað er í gangi. Þá reyni ég að hugsa til baka og muna hvað fór í gegnum höfuðið á mér þarna rétt áður. Oftar en ekki hef ég verið að hugsa eitthvað heimskulegt (t.d. hvað ég sé nú ómöguleg af því ég sé alltaf svona þreytt, eða að ég sé ekki nógu góð eiginkona, móðir, dóttir eða systir o.s.frv.). Allra best væri að maður hugsaði aldrei neitt slíkt, því það hefur voða lítið uppá sig að vera sjálfur sinn versti óvinur, en hinn möguleikinn er að ná að stöðva slíkar hugsanir og bara "skilja þær eftir á árbakkanum".
Putting a STOP to Negative Thoughts | Rebuilding Wellness | Sue Ingebretson
2 ummæli:
Mér finnst nýja útlitið á blogginu þínu mjög flott og þetta letur þægilegt.
Takk fyrir að deila þessum pistli um neikvæðar hugsanir, maður lendir oft í óttalegri hringavitleysu með slíkt sjálfur.
Takk Beta, gaman að heyra :)
Skrifa ummæli