sunnudagur, 8. maí 2011

Blendnar tilfinningar

Þá er það endanlega staðfest, ég er stórskrýtin. Eða það finnst mér alla vega. Í staðinn fyrir að vera rosa stolt og finnast gaman að taka þátt í þessari ljósmyndasýningu, þá er ég bara hálf pirruð og ómöguleg eitthvað. Ég var svona skrýtin í allan gærdag og náði engan veginn að slappa af og hafa bara gaman af þessu. Það hefur kannski spilað inn í að ég var skelfilega þreytt og illa upplögð en var jú að reyna að láta það ekki sjást.

En Valur kom með mér niður í gil og við vorum þarna saman í dágóða stund. Svo fór hann heim að klára að græja sig fyrir Noregsferðina en ég var áfram á sýningunni. Það kom ótrúlegur fjöldi af fólki enda voru fleiri sýningar að opna í gær, og meðal annars yfirlitssýning á verkum Kristínar Gunnlaugsdóttur í Listasafninu (sem er í næsta húsi). Um hálf fimmleytið var ég alveg búin á því og ákvað að drífa mig heim, enda ætluðum við líka að borða snemma þar sem Valur var að fara í flug til Reykjavíkur.

Eftir matinn skutlaði ég honum síðan út á völl en fór svo aftur heim, sótti myndavélina og fór út í smá myndarúnt. Aðalmarkmiðið var nú kannski ekki myndatakan sem slík, heldur aðallega að vera úti í náttúrunni og reyna að losna við þennan brjálaða pirring eða undarlegu tilfinningu sem var að gera mig brjálaða. Það gekk nú svona la la. Ég fór út á Gáseyri og var þar alein með sjálfri mér - og fuglunum. Það var reyndar ekkert svo mikið af fuglum en nokkrar rjúpur sá ég, og spóa og tjald og stelk og svo heyrði ég í hrossagauk. Jú jú og einhverjar endur voru líka á svæðinu en þær láta sig alltaf hverfa þegar maður nálgast, og svo auðvitað einhverjir mávar, líklega bæði hettumáfar og sílamáfar. Já og gæsir. En sem sagt, engin fuglategund var þarna í neinu magni svo heitið geti. Mér finnst samt alveg yndislegt að vera úti og hlusta á fuglahljóðin. Ekki var hávaði frá sjónum því það var logn. Reyndar voru tvær trillur lónandi þarna rétt fyrir utan og frá annarri þeirra heyrðust einstaka skothvellir, en svo fór hún sem betur fer.

Ég vildi óska að það væru fleiri staðir í líkingu við Gáseyri hér við fjörðinn. Ef mann langar að komast niður að sjó og helst í fjöru, þá er ekki um marga staði að ræða. Það er reyndar stundum fjara í kringum Leiruveginn en þar er endalaus bílaumferð. Svo er auðvitað Svalbarðsströnd en það er í þéttbýli (ef svo má segja, það búa nú ekki margir þar), Grenivík er eiginlega alltof langt í burtu fyrir stutta túra, Hjalteyri er inni í myndinni en um daginn sá ég að þeir eru búnir að eyðileggja sandfjöruna þar og setja svakalegan grjótgarð meðfram allri suðurfjörunni. Þá er það upptalið held ég. Ef maður er bara að sækja í fugla og er sama þó það sé ekki við sjóinn, þá eru Krossanesborgir og Naustaborgir, en það er eitthvað við sjóinn sem ég veit ekki hvað er, en ég sæki í. Kannski lyktin, kannski hljóðið.

Jæja, nú sitjum við hér, við Birta. Það er að segja, ég sit en hún liggur milli handanna á mér uppi á skrifborðinu - og malar og malar. Hún var eitthvað óróleg í nótt og ég heyrði hana stundum mjálma frammi í vaskahúsi, svo hún var alveg extra glöð þegar ég dröslaðist á lappir um hálf níu leytið. Ætli sé ekki best að fara að fá sér morgunmat og reyna svo að gera eitthvað gáfulegt. Mig myndi langa að fara út og taka myndir. Það er samt hálfgert þokuloft svo birtan er nú ekkert æðisleg. Það sem ég þyrfti hinsvegar að gera er að ryksuga og taka aðeins til í húsinu - en æ ég er ekki að nenna því núna. O jæja, þá fer ég að leysa Sudoku í blaðinu ;-)

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú getur verið stolt af myndum þeim er þú valdir, óháð öllum samanburði,
Útlegarðar-Halur