eru þema dagsins í dag. Ég fór í sund í morgun og synti heilar 14 ferðir, sem er aukning um tvær frá því í síðustu viku... Bæði er ég aðeins að hressast með hækkandi sól, og svo fattaði ég að ef ég syndi 5 ferðir og hvíli mig aðeins, þá get ég synt aðrar 5 og hvílt mig ... og svo rest. Þá næ ég að synda lengra án þess að vera alveg uppgefin á eftir. Alveg gríðarleg uppgötvun - eða þannig - en skiptir máli fyrir mig.
Önnur uppgötvun, sem er Rósu vinkonu að þakka, er að fara í útiklefann um helgar þegar búningsklefarnir inni eru stappfullir og biðröð í sturturnar. Úti er engin biðröð og bara hressandi að vera þar, að minnsta kosti í góðu veðri. Í síðustu viku þurftu reyndar allar konur annað hvort að fara í útiklefann eða í búningsklefa íþróttahallarinnar, þar sem verið var að vinna að viðhaldi í sturtuklefunum.
Svo ég færi mig yfir í næsta umtalsefni... þá er verið að mála húsið við hliðina á okkur. Sem er í sjálfu sér gott og blessað. Nema hvað, húsið er grænblátt á litinn og sá litur (kaldur tónn) og liturinn á húsinu okkar (hlýr litatónn), passa hræðilega illa saman. Þegar við máluðum var ég bæði að reyna að velja lit sem var fallegur, en sem myndi falla nokkuð vel inn í umhverfið, því mér finnst það líka skipta máli. Það hefur greinilega ekki skipt máli hjá nágrönnunum. Þegar komið er inn í götuna núna, þá verður þetta alveg svakalegt litaslys, en hvor liturinn fyrir sig er fallegur, þeir eru bara ekki fallegir saman. En já já, svo veit ég að ég hætti að sjá þetta eftir smá stund, ég á bara stundum erfitt með að venjast breytingum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli