Kórinn minn fyrrverandi var með tónleika í dag og í staðinn fyrir að fara og hlusta á þær syngja og njóta þess í botn, þá fór ég bara í pirringskast yfir því að hafa þurft að hætta, og langaði ekki að fara á tónleikana. Sem eru auðvitað barnaleg viðbrögð en ég er nú bara ekki fullkomnari en þetta. Mér fannst rosalega gaman í kórnum og það var ansi sárt að hætta og ég er greinilega ekki komin yfir þessi vonbrigði. Eins og maður er þó að verða búinn að venjast ýmsum breytingum sem vefjagigtin og hennar fylgikvillar hafa orsakað. Í tengslum við kórinn og sönginn þá er eitt lítið "vandamál" í viðbót. Valur gaf mér nefnilega söngtíma í jólagjöf af því ég var byrjuð í kór og mig langaði að læra aðeins betur á röddina mína. Það var samt ekki fyrr en fyrir stuttu síðan að ég fór í fyrsta tímann og svo annan. En þá finnst mér það eitthvað svo tilgangslaust að taka þessa tíma úr því ég er ekki í kórnum lengur. Svo er ég alveg ótrúlega stressuð í þessum tímum (hef reyndar bara farið tvisvar sinnum og þar af bara sungið eitthvað í öðrum þeirra) og næ bara ekki að slaka á þó ég reyni. Það þýðir að ég herpi hálsinn og vöðvana í kring alltof mikið saman, sem leiðir til þess að ég verð hás. Hm, verður spennandi að sjá hvort það gengur betur næst. En svo átti ég að koma með einhver lög sem ég vil syngja og mér detta engin lög í hug. Hlusta svo rosalega lítið á tónlist eftir að ég varð svona viðkvæm fyrir hávaða.
Jæja lambið er að verða klárt, nammi namm :-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli