laugardagur, 28. maí 2011

Varúð - vælupistill

Æ ég segi svona... Nú er gamla góða sjálfsvorkunnin að láta á sér kræla og ég veit að ef ég leyfi mér að væla aðeins, þá mun mér líða aðeins betur á eftir, svo ég ætla bara að láta vaða. Þeir sem nenna ekki að lesa svona sleppa því þá bara.

Málið er að í dag er laugardagur. Ég er í fríi og ef allt væri með felldu þá væri ég núna að laga til í húsinu, þvo þvott, kannski búin að fara í sund, kannski á leiðinni eitthvert að taka myndir, kannski væri ég búin að baka brauð (hm, ég gæti nú reyndar druslast til þess, það er ekki svo mikið mál - neibb, ekki til egg, var að gá að því) og svo framvegis.

Raunveruleikinn er hins vegar sá að ég er óendanlega þreytt og slöpp og sloj. Það er alveg hrikalega pirrandi að þurfa alltaf að nota alla frídaga í að hvíla sig og þó ég harki af mér og geri hluti þrátt fyrir þreytu, þá nýtur maður þess jú ekki þegar maður er svona úrvinda. Ég hafði verið búin að hugsa mér að kíkja aðeins í bæinn og skoða sumarföt en ég veit að þó ég druslist niður í bæ, þá er það alveg misheppnað þegar ég er svona þreytt. Þá þoli ég ekki hávaðann í verslununum og finnst ég bara ljót í öllu sem ég máta. Ég fór t.d. inn í Gallerí seinni part fimmtudags, meðan ég var að bíða eftir að geta sótt Val. Um leið og ég kom þar inn tók á móti mér hræðileg hávaðatónlist með einhverjum þungum takti sem bara sagði endalaust búmm, búmm, búmm og bergmálaði í höfðinu á mér. Í staðinn fyrir að fara strax út þrjóskaðist ég við, af því mig vantar nýja gollu/hneppta peysu og viti menn, eftir ca. 3-5 mínútur þarna inni var ég komin í fullkomið þreytu-breakdown, eins og ég er farin að kalla þetta ástand. Það má helst líkja því við að ganga á vegg. Þá er ég algjörlega örmagna og bara get ekki meir.

Svo er það nú dálítið merkilegt að ég er sem sagt komin með tíma í Lilleström í lok júlí, og þó ég sé ánægð með það, þá stressar það mig líka heilmikið upp. Ég þarf jú að komast þangað (fá frí úr vinnu), þarf að panta flug, þarf að hugsa hvað ég á að stoppa lengi hjá Önnu systur, þarf að koma mér til Lilleström og allt þetta praktíska. Svo bætist við óöryggið sem fylgir því að fara í allar þessar blóðprufur og önnur próf. Hvað ef það finnst nú ekki neitt að mér? Hvað ef eitthvað finnst og ég fæ meðferð en verð ekkert betri? Það er ekki beint eins og þetta sé ókeypis. Hm, já ég veit að ég er alveg galin. Ég er bara orðin svo óendanlega þreytt á þessu ástandi á sjálfri mér. Ég er líka orðin þreytt á þessu ástandi fyrir hönd allra þeirra sem þurfa að umgangast mig, án þess að hafa nokkuð val um það, og þá er ég sérstaklega með maka og fjölskyldu í huga.

Og já, ef einhver skyldi halda að þetta væri nú allt bara í hausnum á mér og það væri bara þunglyndi sem orsakaði þessa þreytu, þá sá ég mjög góða grein um daginn eftir norskan hjúkrunarfræðing sem fjallar um síþreytu. Þar segir hún að hægt sé að greina milli þunglyndis og síþreytu með tveimur einföldum spurningum:

1) Ef þú vaknaðir upp í fyrramálið og værir orðin frísk, hvað myndir þú þá gera?
Sá þunglyndi: "Ég veit það ekki".
Sá síþreytti: Romsar upp löngum lista yfir hluti sem hann vildi gera.

2) Þegar þú hefur gert eitthvað sem reynir líkamlega á þig, hvernig líður þér þá?
Sá þunglyndi: "Betur"
Sá síþreytti: "Verr"

Þetta hvoru tveggja passar mjög vel við mig. Mig langar til að gera hluti en get það ekki. Ég veit að ef ég geri hitt og þetta þá þýðir það bara að ég þarf að "borga fyrir það" seinna. Sbr. að ég fór út að borða með klúbbnum mínum á fimmtudagskvöldið og þó ég leggði mig aftur í gærmorgun eftir að Ísak var farinn í skólann, þá var ég úrvinda allan daginn og ég er ennþá þreytt. Eftir sund líður mér betur í skrokknum (minni vefjagigtarverkir) en þreytan er verri. Ég reyndar viðurkenni það alveg að ég dett niður í þunglyndisköst inn á milli. Stundum af því ég er bara stödd á þeim stað í "hringnum" og stundum af því ég er svo innilega leið á sjálfri mér og þessu ástandi mínu. En að þunglyndi sé höfuðorsök þreytunnar það er af og frá.

Svo já, það er bara frábært að ég er komin með tíma þarna í Noregi og ég vona svo innilega að eitthvað finnist sem hægt er að meðhöndla!!

4 ummæli:

Anna Sæm sagði...

Guðný mín, ég er í frí þegar þú kemur og auðvitað keyri ég þig til Lilleström. Ef þú þarft að fara oftar en einu sinni færðu bara bílinn lánaðan! Svo vona ég bara að þú hafir tíma til að stoppa smá. Er ekki best að vera komin nokkrum dögum fyrir tímann til að slappa aðeins af? ;-)

Guðný Pálína sagði...

Það er ekki að spyrja að hjálpsemi stóru systur :-) Sjálf ferðin til Lilleström er kannski ekki aðal vandamálið... gæti nú ábyggilega tekið lest. Ég bara mikla allt svo fyrir mér stundum. En takk kærlega fyrir Anna mín :)

P.S. Hvernig finnst þér að lesa þetta letur, á ég bara að halda mig við Times New Roman?

Harpa Jónsdóttir sagði...

Það er svolítið erfitt að lesa þetta letur.

En gangi þér alveg hrikalega vel þarna úti, ég er viss um að þetta á eftir að hjálpa þér.

Guðný Pálína sagði...

Takk Harpa :)
P.S. Búin að breyta letrinu til baka, hélt kannski að þetta væri ekki alveg að gera sig, takk fyrir ábendinguna.