þriðjudagur, 31. maí 2011

Léleg ending

Fyrir þremur árum stóð til að við fjölskyldan færum í ferð til hlýrri landa síðar um sumarið. Þar sem ég er alltaf í sundi verð ég fljótt sólbrún á sumrin, en fæ eins og gefur að skilja far eftir sundbolinn. Þess vegna datt mér í hug að þetta sumar skyldi ég bara synda í bikini, þá yrði ekkert ljótt sundbolafar á mér þegar við færum í ferðina. Þetta gekk allt eftir. Ég fann þetta fína bikini í verslun hér í bænum og synti í því um sumarið. Síðan kom haust og bikinið lenti ofan í skúffu og hefur legið þar síðan. Undanfarið hef ég verið að velta því fyrir mér hvort ég ætti kannski að fara að nota það aftur til að synda í (til að fá bikinifar en ekki sundbolafar) og í morgun ákvað ég að grafa ofan í skúffuna eftir því. Þetta leit nú allt saman ágætlega út, alveg þar til ég fór í það. Kom þá í ljós að teygjan í hlírunum er morkin og ég get ekki séð að hægt sé að skipta henni út. Meira draslið! Það er sem sagt allt í lagi með buxurnar og fyrir utan þessa ónýtu teygju er brjóstahaldarinn í góðu lagi. Ég fór svo að segja frá þessu í sundinu og þá skilst mér að þetta sé þekkt vandamál. Það er víst ekki hægt að setja sundföt í geymslu og ætla að nota þau einhverjum árum síðar. Þannig að þá vitið þið það!

Talandi um utanlandsferðir þá erum við Valur að velta því fyrir okkur hvort við ættum kannski að fara eitthvert út í haust. Það yrði þá líklega í september, áður en Ísak byrjar í Menntaskólanum. Það yrði án efa mjög notalegt að fara eitthvert þar sem væri hlýtt og gaman að fara aðeins út fyrir landsteinana. En þá er það spurningin hvert á að fara, hvað ætti að vera lengi og síðast en ekki síst, kemst ég í frí á þeim tíma? Ojæja, þetta kemur allt í ljós.

4 ummæli:

ella sagði...

Teygja sem eyðileggst á þremur árum er nú bara frat. Hinsvegar er það mín reynsla að maður er ekkert mikið að hringla með lengd á þessum hlýrum þannig að ég myndi nú bara klippa þá í rétta lengd og sauma fast.

Guðný Pálína sagði...

Já þú segir nokkuð, mér hafði nú ekki dottið það í hug. Þetta er samt pínu skrítin teygja (eða hún morknar á undarlegan hátt) því það kemur eins og "keðja" í miðjunni og það eru svona harðar kúlur sem gefa frá sér ljósbrúnan lit, sem smitast út í efnið. Hef aldrei séð neitt þessu líkt áður. En já ég ætla að skoða hvernig það kæmi út að klippa hlýrana, það skaðar ekki því þetta er þá hvort sem er ónýtt. Takk fyrir ábendingun :o)

Guðný Pálína sagði...

Ábendinguna átti þetta nú að vera.

ella sagði...

Hekla eða sauma nýja hlýra í stíl við flíkina og þú vekur almenna aðdáun á hvaða sólarströnd sem er!