sunnudagur, 29. maí 2011

Ein alveg að missa sig


Úff, það er ferlegt þegar maður byrjar að hræra í litum og útliti á blogginu, þá held ég bara endalaust áfram að breyta og finnst þetta aldrei gott. Ég var í sjálfu sér ekkert óánægð með gamla útlitið, hafði bara eitthvað lítið fyrir stafni í gær og fór þess vegna að hamast í bloggsíðunni. Ég veit að þetta er svolítið "over the top" í litum núna, ætli það breytist ekki fljótlega aftur.

Annars er ég mun skárri í dag en í gær. Finnst ég verða að segja það, þar sem ég var að hella svona úr mér hérna á blogginu í gær. Ég svaf líka til hálf tíu í morgun og óvenju vel.

Annað í fréttum er það að Ísak er að fara í skólaferðalag með 10. bekk. Þau leggja af stað á morgun og koma aftur á miðvikudag. Þannig að núna er hann að byrja að græja sig fyrir ferðina, en mamma hans er búin að vera að þvo föt af honum undanfarið, með þeim árangri að pilturinn sagði áðan að hann héldi að það hefðu aldrei verið svona margir hreinir bolir inni í skáp hjá honum áður. Svo byrjar Ísak að vinna í vinnuskólanum þann 6. júní. Hann verður staðsettur á golfvellinum og fær vonandi fjölbreytt verkefni þar, þó líklega snúist starfið mest um umhirðu á flötinni (eða það ímynda ég mér).

Andri byrjar að vinna á nýja Icelandair hótelinu á miðvikudaginn. Þetta verða töluverð umskipti fyrir hann því vaktirnar þar standa í 12 tíma, en hann hefur sjaldnast verið að vinna lengur en 4-5 tíma í einu í Pottum og prikum. En það er gott, hann fær þá meiri laun og ekki veitir af þegar flugtíminn kostar í kringum 20 þús. krónur.

Við Valur fórum út að ganga í Krossanesborgum í gærkvöldi. Það er mjög þægilegt að fara þangað að ganga því maður þarf ekki að fara nema örstutt frá bílastæðinu til að komast að tjörninni og upplifa fuglalíf og náttúru. Enn betra er að það er hægt að ganga þarna um nánast á jafnsléttu, sem er afar hagstætt fyrir gamlar konur eins og mig, hehe. En já þetta er ábyggilega ellimerki, ég er farin að njóta þess svo innilega vel að komast aðeins út í náttúruna. Maður nær ótrúlegri slökun að hlusta á fuglana, en þar fyrir utan er svo mikil kyrrð og ró. Hm, kannski ég finni einhverja mynd frá þessu svæði til að hafa hérna með.

2 ummæli:

Anna Sæm sagði...

Sumarlegur litur á blogginu, mátt alveg hafa þennan lit í dálítinn tíma mín vegna. Sammála um að þetta letur (TNR?) er betra að lesa.
Anna systir

Guðný Pálína sagði...

Jæja, þá hef ég þetta svona :)