Talandi um utanlandsferðir þá erum við Valur að velta því fyrir okkur hvort við ættum kannski að fara eitthvert út í haust. Það yrði þá líklega í september, áður en Ísak byrjar í Menntaskólanum. Það yrði án efa mjög notalegt að fara eitthvert þar sem væri hlýtt og gaman að fara aðeins út fyrir landsteinana. En þá er það spurningin hvert á að fara, hvað ætti að vera lengi og síðast en ekki síst, kemst ég í frí á þeim tíma? Ojæja, þetta kemur allt í ljós.
þriðjudagur, 31. maí 2011
Léleg ending
Talandi um utanlandsferðir þá erum við Valur að velta því fyrir okkur hvort við ættum kannski að fara eitthvert út í haust. Það yrði þá líklega í september, áður en Ísak byrjar í Menntaskólanum. Það yrði án efa mjög notalegt að fara eitthvert þar sem væri hlýtt og gaman að fara aðeins út fyrir landsteinana. En þá er það spurningin hvert á að fara, hvað ætti að vera lengi og síðast en ekki síst, kemst ég í frí á þeim tíma? Ojæja, þetta kemur allt í ljós.
mánudagur, 30. maí 2011
Að stöðva neikvæðar hugsanir
Sem sagt, maður flækist stundum í neikvæðum hugsunum, eða hugsunum sem valda manni streitu, og heldur endalaust áfram að velta sér uppúr þeim. En hér er sem sagt tengill á grein, á ensku að vísu, sem sýnir hvernig maður getur (eða á að geta...) stöðvað neikvæðar hugsanir þegar þær láta á sér kræla - en það krefst þess líka að maður sér meðvitaður um hugsanir sínar. Sem er nú ekki alltaf. Stundum verð ég allt í einu alveg ómöguleg og skil ekkert hvað er í gangi. Þá reyni ég að hugsa til baka og muna hvað fór í gegnum höfuðið á mér þarna rétt áður. Oftar en ekki hef ég verið að hugsa eitthvað heimskulegt (t.d. hvað ég sé nú ómöguleg af því ég sé alltaf svona þreytt, eða að ég sé ekki nógu góð eiginkona, móðir, dóttir eða systir o.s.frv.). Allra best væri að maður hugsaði aldrei neitt slíkt, því það hefur voða lítið uppá sig að vera sjálfur sinn versti óvinur, en hinn möguleikinn er að ná að stöðva slíkar hugsanir og bara "skilja þær eftir á árbakkanum".
Putting a STOP to Negative Thoughts | Rebuilding Wellness | Sue Ingebretson
sunnudagur, 29. maí 2011
laugardagur, 28. maí 2011
Birta er mætt á svæðið
Varúð - vælupistill
Málið er að í dag er laugardagur. Ég er í fríi og ef allt væri með felldu þá væri ég núna að laga til í húsinu, þvo þvott, kannski búin að fara í sund, kannski á leiðinni eitthvert að taka myndir, kannski væri ég búin að baka brauð (hm, ég gæti nú reyndar druslast til þess, það er ekki svo mikið mál - neibb, ekki til egg, var að gá að því) og svo framvegis.
Raunveruleikinn er hins vegar sá að ég er óendanlega þreytt og slöpp og sloj. Það er alveg hrikalega pirrandi að þurfa alltaf að nota alla frídaga í að hvíla sig og þó ég harki af mér og geri hluti þrátt fyrir þreytu, þá nýtur maður þess jú ekki þegar maður er svona úrvinda. Ég hafði verið búin að hugsa mér að kíkja aðeins í bæinn og skoða sumarföt en ég veit að þó ég druslist niður í bæ, þá er það alveg misheppnað þegar ég er svona þreytt. Þá þoli ég ekki hávaðann í verslununum og finnst ég bara ljót í öllu sem ég máta. Ég fór t.d. inn í Gallerí seinni part fimmtudags, meðan ég var að bíða eftir að geta sótt Val. Um leið og ég kom þar inn tók á móti mér hræðileg hávaðatónlist með einhverjum þungum takti sem bara sagði endalaust búmm, búmm, búmm og bergmálaði í höfðinu á mér. Í staðinn fyrir að fara strax út þrjóskaðist ég við, af því mig vantar nýja gollu/hneppta peysu og viti menn, eftir ca. 3-5 mínútur þarna inni var ég komin í fullkomið þreytu-breakdown, eins og ég er farin að kalla þetta ástand. Það má helst líkja því við að ganga á vegg. Þá er ég algjörlega örmagna og bara get ekki meir.
Svo er það nú dálítið merkilegt að ég er sem sagt komin með tíma í Lilleström í lok júlí, og þó ég sé ánægð með það, þá stressar það mig líka heilmikið upp. Ég þarf jú að komast þangað (fá frí úr vinnu), þarf að panta flug, þarf að hugsa hvað ég á að stoppa lengi hjá Önnu systur, þarf að koma mér til Lilleström og allt þetta praktíska. Svo bætist við óöryggið sem fylgir því að fara í allar þessar blóðprufur og önnur próf. Hvað ef það finnst nú ekki neitt að mér? Hvað ef eitthvað finnst og ég fæ meðferð en verð ekkert betri? Það er ekki beint eins og þetta sé ókeypis. Hm, já ég veit að ég er alveg galin. Ég er bara orðin svo óendanlega þreytt á þessu ástandi á sjálfri mér. Ég er líka orðin þreytt á þessu ástandi fyrir hönd allra þeirra sem þurfa að umgangast mig, án þess að hafa nokkuð val um það, og þá er ég sérstaklega með maka og fjölskyldu í huga.
Og já, ef einhver skyldi halda að þetta væri nú allt bara í hausnum á mér og það væri bara þunglyndi sem orsakaði þessa þreytu, þá sá ég mjög góða grein um daginn eftir norskan hjúkrunarfræðing sem fjallar um síþreytu. Þar segir hún að hægt sé að greina milli þunglyndis og síþreytu með tveimur einföldum spurningum:
1) Ef þú vaknaðir upp í fyrramálið og værir orðin frísk, hvað myndir þú þá gera?
Sá þunglyndi: "Ég veit það ekki".
Sá síþreytti: Romsar upp löngum lista yfir hluti sem hann vildi gera.
2) Þegar þú hefur gert eitthvað sem reynir líkamlega á þig, hvernig líður þér þá?
Sá þunglyndi: "Betur"
Sá síþreytti: "Verr"
Þetta hvoru tveggja passar mjög vel við mig. Mig langar til að gera hluti en get það ekki. Ég veit að ef ég geri hitt og þetta þá þýðir það bara að ég þarf að "borga fyrir það" seinna. Sbr. að ég fór út að borða með klúbbnum mínum á fimmtudagskvöldið og þó ég leggði mig aftur í gærmorgun eftir að Ísak var farinn í skólann, þá var ég úrvinda allan daginn og ég er ennþá þreytt. Eftir sund líður mér betur í skrokknum (minni vefjagigtarverkir) en þreytan er verri. Ég reyndar viðurkenni það alveg að ég dett niður í þunglyndisköst inn á milli. Stundum af því ég er bara stödd á þeim stað í "hringnum" og stundum af því ég er svo innilega leið á sjálfri mér og þessu ástandi mínu. En að þunglyndi sé höfuðorsök þreytunnar það er af og frá.
Svo já, það er bara frábært að ég er komin með tíma þarna í Noregi og ég vona svo innilega að eitthvað finnist sem hægt er að meðhöndla!!
miðvikudagur, 25. maí 2011
Gömlu skólaljóðin hafa verið í huga mér í dag
Þegar vorsólin leikur um vangann á mér,
þegar veröldin fyllist af söng.
Þegar gróandi um sveitirnar fagnandi fer,
finnst mér gatan í bænum of þröng.
Þá held ég til fjalla, og glatt er mitt geð.
:,: Gríptu stafinn þinn og malinn þinn
og svefnpokann og prímusinn
og tjaldið þitt og komdu bara með.:,:
Þetta er eftir Tryggva Þorsteinsson, fyrrum skátaforingja, sem samdi mörg virkilega falleg skátalög.
En nei nei, ég mundi ekki eftir einu einasta ljóði, svo úr varð að hann söng þá bara með sínu nefi "Nú er sumar, gleðjumst gumar" o.s.frv. Ég skil ekki hvernig maður á miðjum aldri (hm eða ríflega það, veit ekkert hvað hann er gamall) getur munað öll þessi ljóð. Og hann er alveg steinhissa á því að ég skuli EKKI muna þetta. Hehe, en já ég þruma bara einu skátalagi á hann næst!
Nú er sumar, gleðjumst gumar, gaman er í dag :)
Já mikið sem ég var glöð að það skyldi vera þetta gott veður í dag. Ég var orðin alveg ótrúlega þreytt og leið eitthvað á veðrinu undanfarið. Í dag var líka frídagur hjá mér og þrátt fyrir að vera illa sofin núna tvær nætur í röð (í fyrrinótt vaknaði ég ábyggilega fimm sinnum og í gærkvöldi gat ég ekki sofnað) þá dreif ég mig á fætur um hálf átta. Var komin í sund um áttaleytið og þegar ég var búin að synda mínar x ferðir (hehe, ekki margar sem sagt) þá fór ég í sólbað uppi í legvatninu. Þar lá ég og hlustaði á skvaldrið í hinum sundlaugargestunum og naut þess í botn að sleikja sólina. Eftir sundið og morgunmat dreif ég mig svo út með myndavélina. Það var nú eiginlega ekkert alltof hlýtt úti, eða 7 gráður, en ég var í nýju hnausþykku flíspeysunni minni og varð ekkert kalt. Svo bara flakkaði ég milli staða og smellti af hægri og vinstri... eða þannig. Afurðin í dag var nú ekkert til að hrópa húrra yfir, ég var greinilega of þreytt eða eitthvað, að minnsta kosti voru flestar myndirnar alveg kolómögulegar. En útiveran stóð fyrir sínu eins og alltaf. Um ellefuleytið fór ég og fékk mér kaffi í Pennanum og sat í smá stund með kaffibollann og fletti tímaritum. Fannst ég bara vera í sumarfríi þarna eitt augnablik.
Svo náði raunveruleikinn í skottið á mér og þreytu"breakdown" var óumflýjanlegt. Ég lufsaðist heim og fljótlega upp í rúm og lagði mig. Gekk samt ekki vel að sofna því hugurinn var alltof mikið á iði. Um tvöleytið keyrði ég Andra út á flugvöll svo hann gæti flogið um loftin blá, og fór svo með makrólinsu í Lystigarðinn. Þar er allur gróður að taka við sér en ekki mörg blómstrandi blóm á þessum tíma. Gaman samt að hlusta á fuglana syngja og jú jú ég tók líka nokkrar myndir - sem voru held ég bara allar misheppnaðar. Greinilega ekki minn mynda-dagur í dag. Eftir hálftíma var ég alveg búin á því og dreif mig heim. Og síðan hef ég ekki gert neitt nema borða, leysa sudoku og liggja í sófanum.
Í gær fékk ég bréf frá þeim í Lilleström. Ég get fengið tíma hjá þeim í júlí eða ágúst. Sem ég vil að sjálfsögðu, enda mun þetta ferli allt taka svo langan tíma. Það verða teknar gríðarlega umfangsmiklar blóðprufur sem getur tekið 1-2 mánuði að fá svör við (og kannski lengur af því sumarleyfistímabilið er að hefjast?) og síðan er hafist handa við meðferð, allt eftir því hvað kemur út úr blóðprufunum. En já, ég er sem sagt glöð með að geta fengið tíma en byrja samt að flækja allt í höfðinu á mér. Við Sunna erum ekki ennþá búnar að skipuleggja sumarfríin hjá okkur einhverra hluta vegna, en Valur byrjar í fríi í kringum 10 júní. Við höfum svo sem engin sérstök plön varðandi fríið okkar saman, en það er spurning hvort ég eigi að nota hluta af því fríi til að fara til Noregs, eða hvort ég eigi að fara í ágúst. Samt vil ég helst drífa í því sem allra fyrst. Þá verð ég nú að heimsækja Önnu systur í leiðinni, annað kemur ekki til greina. Og svo ég haldi áfram að flækja málin, þá ímynda ég mér að Ísak vilji gjarnan fá að koma með til Noregs, en auðvitað þarf það ekki að vera. Hm, jæja þetta kemur allt í ljós. Og ég er hætt þessu blaðri.
sunnudagur, 22. maí 2011
Frekar andlaus sunnudagur bráðum á enda
Kórinn minn fyrrverandi var með tónleika í dag og í staðinn fyrir að fara og hlusta á þær syngja og njóta þess í botn, þá fór ég bara í pirringskast yfir því að hafa þurft að hætta, og langaði ekki að fara á tónleikana. Sem eru auðvitað barnaleg viðbrögð en ég er nú bara ekki fullkomnari en þetta. Mér fannst rosalega gaman í kórnum og það var ansi sárt að hætta og ég er greinilega ekki komin yfir þessi vonbrigði. Eins og maður er þó að verða búinn að venjast ýmsum breytingum sem vefjagigtin og hennar fylgikvillar hafa orsakað. Í tengslum við kórinn og sönginn þá er eitt lítið "vandamál" í viðbót. Valur gaf mér nefnilega söngtíma í jólagjöf af því ég var byrjuð í kór og mig langaði að læra aðeins betur á röddina mína. Það var samt ekki fyrr en fyrir stuttu síðan að ég fór í fyrsta tímann og svo annan. En þá finnst mér það eitthvað svo tilgangslaust að taka þessa tíma úr því ég er ekki í kórnum lengur. Svo er ég alveg ótrúlega stressuð í þessum tímum (hef reyndar bara farið tvisvar sinnum og þar af bara sungið eitthvað í öðrum þeirra) og næ bara ekki að slaka á þó ég reyni. Það þýðir að ég herpi hálsinn og vöðvana í kring alltof mikið saman, sem leiðir til þess að ég verð hás. Hm, verður spennandi að sjá hvort það gengur betur næst. En svo átti ég að koma með einhver lög sem ég vil syngja og mér detta engin lög í hug. Hlusta svo rosalega lítið á tónlist eftir að ég varð svona viðkvæm fyrir hávaða.
Jæja lambið er að verða klárt, nammi namm :-)
laugardagur, 21. maí 2011
Þá er Valur kominn heim
Annars eru bara þvílík rólegheit framundan um helgina. Veðrið býður ekki uppá miklar ljósmyndaferðir og það er svo sem ágætt, því gamla er svo þreytt núna. Það kemur samt alltaf fram þessi tilfinning að nú eigi ég að vera dugleg og gera eitthvað. Ég get einhvern veginn aldrei slappað bara af með góðri samvisku og hugsað með sjálfri mér að nú sé ég að hlaða batteríin fyrir komandi viku. Held að það tengist því eitthvað að þegar maður notar alla orku sína utan heimilis virka daga, þá finnst manni að um helgar eigi að gera eitthvað fyrir heimilið. Svo kannski ég reyni að safna mér aðeins saman og gera eitthvað af viti. Eða ekki... Það væri líklega gáfulegra að hvíla sig.
Ég á samt ennþá eftir að klára að fara í gegnum fataskápinn minn og taka úr umferð föt sem ekki eru í notkun + skipta út vetrarfötum fyrir sumarföt. Þó það sé nú ekki mjög sumarlegt þessa dagana reyndar... en Valur var að skoða veðurspána og ég hef eftir honum að veðrið eigi að skána uppúr næstu helgi.
miðvikudagur, 18. maí 2011
Jamm og jæja
En já tíminn flýgur og ég þarf að gera mig klára fyrir nuddið. Best að hætta þessu blaðri.
P.S. Mér tóks að segja/skrifa "En já" tvisvar sinnum í ekki lengri texta, geri aðrir betur ;)
sunnudagur, 15. maí 2011
Sund og húsalitir
Önnur uppgötvun, sem er Rósu vinkonu að þakka, er að fara í útiklefann um helgar þegar búningsklefarnir inni eru stappfullir og biðröð í sturturnar. Úti er engin biðröð og bara hressandi að vera þar, að minnsta kosti í góðu veðri. Í síðustu viku þurftu reyndar allar konur annað hvort að fara í útiklefann eða í búningsklefa íþróttahallarinnar, þar sem verið var að vinna að viðhaldi í sturtuklefunum.
Svo ég færi mig yfir í næsta umtalsefni... þá er verið að mála húsið við hliðina á okkur. Sem er í sjálfu sér gott og blessað. Nema hvað, húsið er grænblátt á litinn og sá litur (kaldur tónn) og liturinn á húsinu okkar (hlýr litatónn), passa hræðilega illa saman. Þegar við máluðum var ég bæði að reyna að velja lit sem var fallegur, en sem myndi falla nokkuð vel inn í umhverfið, því mér finnst það líka skipta máli. Það hefur greinilega ekki skipt máli hjá nágrönnunum. Þegar komið er inn í götuna núna, þá verður þetta alveg svakalegt litaslys, en hvor liturinn fyrir sig er fallegur, þeir eru bara ekki fallegir saman. En já já, svo veit ég að ég hætti að sjá þetta eftir smá stund, ég á bara stundum erfitt með að venjast breytingum.
sunnudagur, 8. maí 2011
Blendnar tilfinningar
En Valur kom með mér niður í gil og við vorum þarna saman í dágóða stund. Svo fór hann heim að klára að græja sig fyrir Noregsferðina en ég var áfram á sýningunni. Það kom ótrúlegur fjöldi af fólki enda voru fleiri sýningar að opna í gær, og meðal annars yfirlitssýning á verkum Kristínar Gunnlaugsdóttur í Listasafninu (sem er í næsta húsi). Um hálf fimmleytið var ég alveg búin á því og ákvað að drífa mig heim, enda ætluðum við líka að borða snemma þar sem Valur var að fara í flug til Reykjavíkur.
Eftir matinn skutlaði ég honum síðan út á völl en fór svo aftur heim, sótti myndavélina og fór út í smá myndarúnt. Aðalmarkmiðið var nú kannski ekki myndatakan sem slík, heldur aðallega að vera úti í náttúrunni og reyna að losna við þennan brjálaða pirring eða undarlegu tilfinningu sem var að gera mig brjálaða. Það gekk nú svona la la. Ég fór út á Gáseyri og var þar alein með sjálfri mér - og fuglunum. Það var reyndar ekkert svo mikið af fuglum en nokkrar rjúpur sá ég, og spóa og tjald og stelk og svo heyrði ég í hrossagauk. Jú jú og einhverjar endur voru líka á svæðinu en þær láta sig alltaf hverfa þegar maður nálgast, og svo auðvitað einhverjir mávar, líklega bæði hettumáfar og sílamáfar. Já og gæsir. En sem sagt, engin fuglategund var þarna í neinu magni svo heitið geti. Mér finnst samt alveg yndislegt að vera úti og hlusta á fuglahljóðin. Ekki var hávaði frá sjónum því það var logn. Reyndar voru tvær trillur lónandi þarna rétt fyrir utan og frá annarri þeirra heyrðust einstaka skothvellir, en svo fór hún sem betur fer.
Ég vildi óska að það væru fleiri staðir í líkingu við Gáseyri hér við fjörðinn. Ef mann langar að komast niður að sjó og helst í fjöru, þá er ekki um marga staði að ræða. Það er reyndar stundum fjara í kringum Leiruveginn en þar er endalaus bílaumferð. Svo er auðvitað Svalbarðsströnd en það er í þéttbýli (ef svo má segja, það búa nú ekki margir þar), Grenivík er eiginlega alltof langt í burtu fyrir stutta túra, Hjalteyri er inni í myndinni en um daginn sá ég að þeir eru búnir að eyðileggja sandfjöruna þar og setja svakalegan grjótgarð meðfram allri suðurfjörunni. Þá er það upptalið held ég. Ef maður er bara að sækja í fugla og er sama þó það sé ekki við sjóinn, þá eru Krossanesborgir og Naustaborgir, en það er eitthvað við sjóinn sem ég veit ekki hvað er, en ég sæki í. Kannski lyktin, kannski hljóðið.
Jæja, nú sitjum við hér, við Birta. Það er að segja, ég sit en hún liggur milli handanna á mér uppi á skrifborðinu - og malar og malar. Hún var eitthvað óróleg í nótt og ég heyrði hana stundum mjálma frammi í vaskahúsi, svo hún var alveg extra glöð þegar ég dröslaðist á lappir um hálf níu leytið. Ætli sé ekki best að fara að fá sér morgunmat og reyna svo að gera eitthvað gáfulegt. Mig myndi langa að fara út og taka myndir. Það er samt hálfgert þokuloft svo birtan er nú ekkert æðisleg. Það sem ég þyrfti hinsvegar að gera er að ryksuga og taka aðeins til í húsinu - en æ ég er ekki að nenna því núna. O jæja, þá fer ég að leysa Sudoku í blaðinu ;-)
laugardagur, 7. maí 2011
Ísak og Arnar vinur hans
fimmtudagur, 5. maí 2011
Meira ljósmynda"blaður"
Veðrið var svo dásamlegt í dag, sannkallað sumarveður. Ég ætlaði að fara út með myndavélina í morgun, en eyddi morgninum í þetta stúss með að græja myndina og fara með í Pedromyndir, og svo var ég orðin svo þreytt... þannig að ég um hádegisbilið lagði ég mig svo ég myndi meika að fara í vinnuna. Andri var að fara í flug klukkan tvö og var þar að auki að sendast fyrir mig, svo ég ákvað að ganga í vinnuna í þessu dásemdarveðri. Nokkuð sem ég er að "borga" fyrir núna með þreytuverkjum í fótunum - en það var nú líka vegna þess að ég gekk svo hratt og þá verður það auka álag á vöðvafestur.
Svo komst Ísak að því í dag að á morgun væru lokaskil á bókarskýrslu í íslensku, svo hann þurfti að klára bókina sem hann var þó byrjaður með, og skrifa skýrsluna. Ég var svo að fara yfir þetta núna áðan og koma með smá athugasemdir um lagfæringar. En núna þarf ég að fara að baka fyrir klúbbinn á morgun.
miðvikudagur, 4. maí 2011
Ljósmyndasýningar á færibandi
Á föstudaginn er líka árshátíð hjá Ísaki, matur og ball. Hann á ný jakkaföt en vantar skó, svo það á eftir að finna út úr því. Ég á líka eftir að gera veitingar fyrir klúbbinn - og já svo er fundur hjá Félagi kvenna í atvinnurekstri á morgun kl. 18. Úff, þetta er í það mesta fyrir Guðnýju gömlu... Veit ekki hvort ég á bara að slaufa fundinum. Æ, það kemur í ljós, ætli ég verði ekki bara að sjá til hvernig staðan verður á mér á morgun, ég var nú ekki sú allra hressasta eftir vinnu í dag.
þriðjudagur, 3. maí 2011
Náttúran er að vakna til lífsins þessa dagana
Ég hefði ekki þurft að stressa mig yfir söngtímanum í dag. Í fyrsta lagi þá þurfti ég ekki að syngja einn einasta tón því kennarinn var bara að fara í teoríu í dag. Í öðru lagi þá var hann mjög afslappaður og þægilegur í viðmóti, svo vonandi skil ég allt stress eftir heima í næsta tíma.
Söngtími á eftir og pínu stress í gangi
Talandi um form, þá er Valur búinn að senda beiðni á endurhæfingadeildina á Kristnesi, um að ég komist í mat hjá þeim. Ekki að borða mat... heldur að þau meti mig og mitt ástand. Ég held að það verði fínt að sjá svart á hvítu hvernig þetta er. Í framhaldinu gæti svo orðið spurning um endurhæfingu í einhverjar vikur, þó það yrði nú ábyggilega ekki strax. En mér skildist að þetta mat tæki tvær vikur, svo þau greinilega eru mjög nákvæm og vilja fá fulla mynd af ástandi hvers og eins.
Svo vona ég að við Sunna fáum sem allra fyrst nýtt starfsfólk fyrir sumarið en Andri er að byrja að vinna hjá nýja Icelandair hótelinu og Silja verður á tjaldstæðinu í sumar. Þannig að okkur vantar manneskju í ca. 50% starf á virkum dögum + aðra hverja helgi. Já og helst aðra manneskju sem er bara um aðra hverja helgi. Því við verðum jú að fá okkar frí. Vera með fjölskyldunni og hlaða batteríin.
mánudagur, 2. maí 2011
Já börnin stækka víst
sunnudagur, 1. maí 2011
Fríhelgin á enda
Í dag var eitthvað eirðarleysi í mér og við Valur fórum út um hádegisbilið, með myndavélarnar að sjálfsögðu. Við ókum í átt að Dalvík og fórum fyrst aðeins inn í Þorvaldsdal, en bæði var vegurinn slæmur og eins var birtan ekkert falleg þar, svo við fórum næst til Dalvíkur. Ég hafði séð á myndum frá Hrefnu að á Dalvík er þessi fína sandströnd og mig langaði að skoða hana. Sem við og gerðum. En það var þoka og ótrúlega kalt þarna niðri við sjóinn svo við stoppuðum ekki mjög lengi.
Ætli við höfum ekki verið komin heim aftur um hálf þrjú leytið og þá bakaði Valur vöfflur en síðan hef ég ekki gert neitt af viti. Jú annars, ég spjallaði aðeins við Hrefnu á skype og hjálpaði Ísaki við íslenskuverkefni, svo eitthvað pínu hef ég nú gert.
Á morgun byrjar svo ný vinnuvika og gamla er bara pínu stressuð því það er eitthvað svo margt aukalega í gangi þessa viku. Á þriðjudaginn fer ég í söngtíma (jólagjöf frá Val), á fimmtudaginn er lokafundur vetrarins hjá FKA, á föstudaginn á ég að vera með konuklúbb og á laugardaginn verðum við Álfkonur með ljósmyndasýningu. En já svo reddast þetta auðvitað allt saman eins og venjulega...
P.S. Ég ætlaði fyrst að birta fremur kuldalega mynd úr fjörunni á Dalvík með þessari færslu, en ákvað að það væri miklu skemmtilegra að halda sig bara við eitthvað litríkt og fallegt, svo hér kemur önnur mynd úr Lystigarðinum frá því um daginn.
Annars er ég mun skárri í dag en í gær. Finnst ég verða að segja það, þar sem ég var að hella svona úr mér hérna á blogginu í gær. Ég svaf líka til hálf tíu í morgun og óvenju vel.
Annað í fréttum er það að Ísak er að fara í skólaferðalag með 10. bekk. Þau leggja af stað á morgun og koma aftur á miðvikudag. Þannig að núna er hann að byrja að græja sig fyrir ferðina, en mamma hans er búin að vera að þvo föt af honum undanfarið, með þeim árangri að pilturinn sagði áðan að hann héldi að það hefðu aldrei verið svona margir hreinir bolir inni í skáp hjá honum áður. Svo byrjar Ísak að vinna í vinnuskólanum þann 6. júní. Hann verður staðsettur á golfvellinum og fær vonandi fjölbreytt verkefni þar, þó líklega snúist starfið mest um umhirðu á flötinni (eða það ímynda ég mér).
Andri byrjar að vinna á nýja Icelandair hótelinu á miðvikudaginn. Þetta verða töluverð umskipti fyrir hann því vaktirnar þar standa í 12 tíma, en hann hefur sjaldnast verið að vinna lengur en 4-5 tíma í einu í Pottum og prikum. En það er gott, hann fær þá meiri laun og ekki veitir af þegar flugtíminn kostar í kringum 20 þús. krónur.
Við Valur fórum út að ganga í Krossanesborgum í gærkvöldi. Það er mjög þægilegt að fara þangað að ganga því maður þarf ekki að fara nema örstutt frá bílastæðinu til að komast að tjörninni og upplifa fuglalíf og náttúru. Enn betra er að það er hægt að ganga þarna um nánast á jafnsléttu, sem er afar hagstætt fyrir gamlar konur eins og mig, hehe. En já þetta er ábyggilega ellimerki, ég er farin að njóta þess svo innilega vel að komast aðeins út í náttúruna. Maður nær ótrúlegri slökun að hlusta á fuglana, en þar fyrir utan er svo mikil kyrrð og ró. Hm, kannski ég finni einhverja mynd frá þessu svæði til að hafa hérna með.