Já suður fór ég sem betur fer. Hafði svo gott af því að lyfta mér aðeins upp. Ég fór með flugi á föstudagskvöldið og Rósa vinkona sótti mig á flugvöllinn. Síðan fórum við á Sólon og fengum okkur að borða þetta fína salat með reyktum laxi. Svo fórum við heim til Rósu og sátum og spjölluðum þar til rúmlega ellefu, en þá vildi sú gamla (ég) fara í háttinn. Á laugardagsmorguninn fékk ég ljúffengt jurtate hjá Rósu, úr jurtum sem hún hafði sjálf tínt, og brauð með bláberjasultu sem Berglind dóttir hennar hafði búið til.
Eftir morgunmatinn tók ég taxa út á Umferðamiðstöð og þar keypti ég mér ferð með flugrútunni til Keflavíkur, þar sem það eru svo fáar áætlunarferðir til Keflavíkur með "venjulegu" rútunni. Þegar til kom var ég eini farþeginn í rútunni, og sagði þá bílstjórinn "Það verða þá færri sem fjúka", sem var gríðarlega upplífgandi byrjun á rútuferð... Ég kippti mér þó ekkert upp við það, en veðrið var alveg snælduvitlaust, rok og rigning.
Anna systir beið eftir mér á flugvellinum. Hún hafði komið frá Noregi daginn áður og gist hjá mömmu um nóttina. Nú tók hún bíl á leigu og skrifaði mig sem auka bílstjóra. Svo byrjaði ballið. Við gengum frá flugstöðinni og yfir að bílaplaninu - en þá kom þessi þvílíka vindroka og ég var nú bara nærri fokin þrátt fyrir að halda á ferðatöskunni minni í fanginu. Vindurinn var svo sterkur og við bættist úrhellisrigning sem lamdi á okkur - og ég fékk hláturkast - sem er auðvitað alveg skiljanlegt við þessar aðstæður, eða þannig ;-) En við komumst nú loks í bílinn, alveg rennandi blautar á þeirri hliðinni sem hafði snúið upp í vindinn. Og fína hárgreiðslan mín rokin út í veður og vind...
Jæja, við fórum svo heim til mömmu, sem beið okkar með þessa fínu máltíð. Sem var svo sannarlega afturhvarf til fortíðar, enda nákvæmlega eins og margar sunnudagsmáltíðir þegar við bjuggum í foreldrahúsum. Steikt lambalæri með rauðkáli, grænum baunum og brúnni sósu. Og í eftirmat hvorki meira né minna en Royal súkkulaðibúðingur með þeyttum rjóma. Borinn fram í sömu eftirréttaskálum og á árum áður. Þetta eru hvítar skálar með ávaxtamyndum í botninum og svo eru þær ýmist með gulri, bleikri eða blárri rönd ofan á brúninni.
Eftir að hafa borðað og slappað aðeins af hjá mömmu ókum við systur inn í Kópavog. Þar hittum við Sollu vinkonu Önnu og Dísu systur hennar, og fórum með þeim á tónleika í Salnum þar sem frænka þeirra systra var að syngja. Þetta voru hinir ágætustu tónleikar og að þeim loknum fórum við Anna og Solla á Saffran og fengum okkur að borða. Eftir matinn var planið að fara á kaffihús niðri í bæ, en ég ákvað að vera skynsöm og fara bara "heim" og slappa af. Rósa var ekki heima svo ég lagði undir mig sófann og horfði á Barnaby á dönsku stöðinni og var svo sofnuð fyrir miðnætti.
Ég steinsvaf alla nóttina (nokkuð sem gerist ekki oft) og fór ekki á fætur fyrr en um tíuleytið á sunnudagsmorgninum. Um hálf tólf fór ég í stutta heimsókn til tengdaforeldra minna og þaðan fór ég í brunch hjá vinkonu þeirra Önnu systur og Sollu. Þangað kom svo líka Dísa ásamt manni og sonum, svo þetta var bara mikið fjör. Á boðstólum voru amerískar pönnukökur, soðin egg, eggjakaka, brauð, kjötálegg, ostar og bollur. Nú er ég ábyggilega að gleyma einhverju en það verður þá bara að hafa það.
Við sátum ansi lengi að snæðingi en svo fórum við Anna heim til Rósu að sækja dótið mitt. Þaðan fórum við í Kringluna og ætluðum að rölta lítinn hring áður en ég færi í flug norður. Þá var tilkynnt um seinkunn, svo við eyddum nú aðeins lengri tíma þar, sem hafði þær afleiðingar að við keyptum okkur báðar peysu og ég keypti líka bol. Svo fengum við okkur líka meira að borða... Allt í einu var klukkan orðin margt og við þurftum að drífa okkur út á flugvöll. Hefðum nú reyndar ekki þurft að stressa okkur því við vorum svo eldsnöggar á leiðinni þangað. Svo sat systir mín elskuleg hjá mér þar til kallað var út í vél.
Flugmaðurinn tilkynnti að flugið norður tæki 40 mínútur og ég var aldeilis ánægð að heyra það. Svo varaði hann líka við því að það gæti orðið ókyrrð í flugtaki og fyrir lendingu fyrir norðan. Ég var sallaróleg og steinsvaf alveg þar til flugmaðurinn kom með næstu tilkynningu. Nefnilega þá að við þyrftum að hringsóla í 20 mínútur því það væri önnur flugvél á undan okkur inn til lendingar og þar að auki væri stórhríð á flugvellinum í augnablikinu. Svo dottaði ég aftur þar til þvílík heljarinnar ókyrrð byrjaði og konan við hliðina á mér greip dauðahaldi í sætis-handfangið milli sætanna. Ég viðurkenni að þetta var nú skrautlegasta ókyrrð sem ég hef lengi lent í en merkilegt nokk þá var ég bara fullkomlega róleg. Það er af sem áður var. Þegar ég var með lítil börn var ég svo bílhrædd og líka hrædd í flugi ef eitthvað var að veðri. Það komu nokkur svona fjölda "andköf" hjá farþegunum en allt gekk þetta nú vel, sem betur fer.
Heim var ég komin um kvöldmatarleytið og bara mjög sátt við a) að hafa drifið mig suður og b) að hafa getað þetta án þess að vera alveg dauð á eftir.
2 ummæli:
Takk fyrir samveruna um helgina Guðný mín! Þetta var bara mjög góð ferð, þrátt fyrir "planleysið". En fegin er ég að vera ekki í innanlandsflugi þessa helgi.......!!!! Anna systir
Þetta hefur verið hin besta ferð hjá þér Guðný mín, gaman að lesa þetta ...... nema um flugferðina norður ég hugsa að ég hefði varla lifað svona ósköp af.
Gott að heyra að þú sér að hressast :)
Bestu kveðjur
Bryndís Dagbj.
Skrifa ummæli