föstudagur, 18. mars 2011

Skrítið að koma aftur á fornar slóðir

Það var að minnsta kosti fyrsta upplifunin í gærmorgun, þegar ég tók strætó í bæinn og rölti aðeins um. Þó að ég þekkti hin ýmsu kennileiti þá fannst mér alveg stórundarleg tilhugsun að ég hefði búið hér í þrjú og hálft ár. Fannst eins og það hefði verið í einhverju allt öðru lífi. Það var nú kannski ekki alveg að marka heldur, því ég var svo þreytt eftir ferðalagið, að ég var langt frá því að vera uppá mitt besta. En já, eftir því sem ég rölti lengur um og var búin að fá mér að borða (salat og vatn fyrir rúmar 2 þús. ísl. krónur) þá fór nú ástandið aðeins skánandi. Og eins furðulega og það kannski hljómar þá fannst mér það alveg nauðsynlegt að leita uppi þær verslanir í miðbænum, sem ég hafði farið í meðan við bjuggum hér og voru enn starfandi. Þá fór ég einhvern veginn að skynja þetta betur. Svo gekk ég niður að sjó, en einn veturinn var ég með lesaðstöðu uppi á fjórðu hæði í húsi við sjóinn, með útsýni yfir Tromsöbrua og Ishavskatedralen/kirkjuna (sem eru hvorutveggja klassísk kennileiti staðarins). Ég kíkti líka í fyrrverandi bíóið þar sem ég hafði verið á fyrirlestrum í sálfræðinni en bíóið er nú orðið bókasafn. Og smátt og smátt rifjaðist meira upp fyrir mér. Ég entist nú samt ekki lengi í þessum túr, varð fljótt lúin og tók strætó tilbaka heim í hús.

Íbúðin sem Valur er með hérna er í stærðar fjölbýlishúsi og frekar svona gettólegu, en samt alveg OK. Það vantaði nú ofn í svefnherbergið þegar hann kom, og þegar hann settist í gamla norska furusófann, brotnaði hann... sem var kannski lán í óláni því þá fékk hann glænýjan þægindastól með skammeli, og tveggja sæta sófa í staðinn.

Við Valur fórum svo aftur í bæinn seinni partinn í gær. Hann keypti sér mannbrodda því það er þvílík hálka hér núna (hnausþykkir svellbunkar um allt og lítið sandað). Í dag er nú svo búið að snjóa yfir hálkuna, svo ástandið er ábyggilega orðið enn verra en í gær og átti ég þá sjálf alveg nógu erfitt með að fóta mig hér fyrir utan - ég hefði betur keypt mér mannbrodda líka... En já svo gengum við um miðbæinn og héldum áfram að rifja upp þetta og hitt. Bæði hús/fyrirtæki sem eru farin og eins þau sem eru hér enn, 16 árum síðar. Það var nú ansi napurt úti, þrátt fyrir plúsgráður á mælinum og sunnanvind. Svo gekk okkur ekkert sérlega vel að finna stað til að borða á, en það hafðist fyrir rest. Síðan var það strætó heim aftur (fjórar strætóferðir hjá mér í dag = 1.600 ísl. krónur) og svo tókum við því bara rólega í gærkvöldi.

Nú er ég búin að panta bílaleigubíl, svo við getum hreyft okkur meira um en hins vegar er veðrið ekki mjög spennandi til útsýnis-aksturs. Það er lágskýjað/þoka og allt grátt. Samt hvorki snjókoma né rigning, svo það er nú ágætt. Ég ætla sem sagt að taka strætó langleiðina út á flugvöll en þar er bílaleigan. Valur er að vinna í dag. Ætli ég kíki ekki aðeins í búðir á meða hann er að vinna... Samt er ég sem sagt á verðlags-sjokk-stiginu og sé bara hvað allt er dýrt (miðað við gengi íslensku krónunnar), og því er ekki mikil hætta á að ég versli mikið. Vissar fataverslanir s.s. H&M, KappAhl, Lindex ofl. eru nú samt alveg í lagi, já og mér sýndist vera hægt að fá sæmilega ódýr föt í Vero Moda líka.

En jæja, ætli sé ekki best að koma sér í sturtu ef ég ætla að ná strætónum sem fer eftir hálftíma...

Engin ummæli: