laugardagur, 26. mars 2011

Tómur tankur

Já það hlaut að koma að því. Ég er búin að vera ótrúlega hress þessa vikuna þrátt fyrir ferðalagið á mánudeginum en ég fann í gærmorgun að eitthvað var farið að halla undan fæti. Ef ég vakna t.d. með eyrnasuð þá er það yfirleitt merki um að ég er of þreytt.

Mér tókst samt að halda dampi í gær. Fór í sund, fór í vinnuna, fór í búðina, sótti Val á flugvöllinn og fór og borðaði sushi með konuklúbbnum mínum. Var komin heim fyrir átta og farin í háttinn um tíuleytið - en gat ekki sofnað. Stundum þegar of mikið áreiti hefur verið á mér þá næ ég ekki að slaka á, þrátt fyrir að hlusta á slökunartónlist. Við vorum líka að fá gesti í morgunkaffi og kannski hefur það stressað mig pínu upp þó það ætti ekki að gera það. Ég var jú búin að kaupa allt nema brauð og það gerði Valur í morgun. Eins var allt snyrtilegt og fínt í húsinu svo ekki þurfti að lyfta litla fingri í hreingerningarskyni. En já ég sem sagt sofnaði frekar seint og var vaknaði uppúr sjö, alveg eins og valtað hefði verið yfir mig. Undirlögð í skrokknum og óendanlega þreytt.

Það er áskorun að taka á móti fólki þegar ástandið er svona á manni, en ég reyndi mitt besta til að halda haus. Það gekk svona bærilega framan af en svo í lokin var ég orðin alveg kúguppgefin. Að drepast úr höfuðverk og allt hljóð margfaldaðist í styrkleika í eyrunum á mér, svo mér leið eins og verið væri að berja innan í tóma tunnu. Sem var mjög leiðinlegt þar sem gestirnir sem um ræðir eru góðir vinir okkar og það var virkilega gaman að fá þau. Ekki er gott að vita hvenær við hittumst næst því þau eru að flytja langt frá Íslandi og munu ekki verða mikið hér heima næstu árin, ef allt fer sem horfir.

Eins og alltaf þegar ég hef átt nokkuð góðan tíma þá dett ég niður í svartsýni og neikvæðni þegar raunveruleikinn nær í skottið á mér. Ætli sé ekki bara best að hætta þessu væli og hvíla sig og sjá hvort ég næ ekki að safna mér eitthvað saman.

Engin ummæli: