Svo vaknaði ég rúmlega sjö og vakti Ísak um hálf átta og dröslaðist svo í sund um áttaleytið. Ég var alveg eins og gamalmenni þarna á sundlaugarbakkanum og synti bara sex ferðir. Gat ekki hugsað mér að fara í kalda sturtu eftir gufuna, þó ég hefði kannski einmitt haft gott af því. Nema hvað, þegar ég var nú búin að borða morgunmatinn fór ég að spá í þetta með loftþrýstinginn, þar sem veðrið í dag er fremur grátt og alls ekki eins fallegt og verið hefur. Fór á netið og fann upplýsingar frá sjálfvirkri veðurstöð hér á Akureyri - og niðurstaðan var nú eiginlega bara stórskondin. Hér má sjá loftþrýsting frá miðnætti í dag:
Þarna á milli kl. 4 og 5 hefur loftþrýstingurinn verið í miklu lágmarki, alveg eins og skrokkurinn á mér sagði til um. Þegar ég var búin að komast að þessu ákvað ég að skoða síðustu viku, því þá var ég jú aðeins skárri til heilsunnar. Og viti menn, jú jú, var ekki loftþrýstingurinn hærri þarna um miðja vikuna, einmitt þegar ég var skást.
Nú veit ég að þessi fræði einskorðast ekkert við mig. Ein vinkona mín sem er með gigt segir að allir þeir sjúkraþjálfarar sem hún hefur verið hjá, hafi talað um þetta. Eins hefur mamma tekið eftir þessu og auðvitað ótal margir aðrir. Það er bara eitthvað svo sérstakt að geta staðfest þetta svona, bæði á eigin skrokki og líka með línuriti og alles ;)
En já, nú er Ísak búinn að sækja um framhaldsskóla fyrir næsta vetur. Hann ætlar á náttúrufræðibraut í MA eins og bæði eldri systkini hans. Það er nú eiginlega pínu skondið, því ekki höfum við foreldrarnir reynt að hafa áhrif á þetta val. Hins vegar hafa þau öll hæfileika til að læra raungreinar, og þá kemur þetta val jú líklega af sjálfu sér.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli