fimmtudagur, 24. mars 2011

Dæmigerð ljósmynd frá Tromsö


Hér má sjá brúna yfir í Tromsdalen til vinstri, og Ishavskatedralen (kirkjuna) við enda brúarinnar. Til hægri, sem sést ekki á myndinni, er svo Fjellheisen, eða lyftukláfurinn sem flytur fólk uppá fjallið Flöya, en þaðan er frábært útsýni yfir Tromsö. Við höfum farið þangað upp með gesti hér áður fyrr, bæði Gunnu og Matta og mömmu, en í þetta sinn fórum við ekki þangað. En þetta var sem sagt útsýnið mitt einn veturinn í Tromsö, þá var ég með lesaðstöðu uppi á fjórðu hæð í húsi niðri við höfn. Ég settist alltaf út við gluggann svo ég gæti fylgst með skipunum sigla inn og út, og bara notið náttúrunnar út um gluggann.

Ég hef verið nokkuð góð þessa vikuna, þrátt fyrir ferðalag og læti, og gærdagurinn var bara hinn ágætasti. Það koma þó alltaf þessi gríðarlegu þreytuköst inn á milli, en þá er bara eins og ég gangi allt í einu á vegg, orkan er alveg búin og ég þarf helst að setjast niður. Ég var t.d. ekkert gríðarlega hress síðustu tvo tímana í vinnunni í dag en það slapp nú allt fyrir horn. Var alveg búin á því þegar ég kom heim, en svo var ég nógu hress eftir kvöldmatinn til að fara að þrífa eldavélina (nokkuð sem ekki var vanþörf á að gera). Í leiðinni olíubar ég líka eldhúsborðið - en þetta tvennt hefur ekki verið gert óralengi. Í gær þreif ég líka bakaraofninn, enda fékk ég smá kast þegar ég kom heim og fannst allt svo skítugt. Strákarnir hafa samt verið mjög duglegir að taka til eftir sig á meðan ég var í burtu og það var snyrtilegt og fínt í eldhúsinu, þetta er meira svona "vetrarskítur" sem maður sér þegar sólin fer að hækka á lofti.

Á morgun kemur Valur heim og á morgun fer ég líka út að borða með konuklúbbnum mínum. Við ætlum á sushi stað og það verður ábyggilega fínt. Ég hafði nú reyndar verið búin að steingleyma þessu... en fékk SMS í dag frá einni sem var að minna á þetta. Sem var eins gott. Ef ég skrifa ekki allt hjá mér þá gleymi ég því, það er nánast regla. Enda er ég nú orðin býsna dugleg að skrifa niður hluti. Og gott er líka að hafa dagbók á netinu sem maður getur kíkt í hvar sem er. Nú er ég búin að tengja dagbókina á netinu við símann minn þannig að ég get alltaf séð dagskrá dagsins í símanum, það er alveg meiriháttar.

Engin ummæli: