þriðjudagur, 22. mars 2011

Vaknaði kl. 5.30 í morgun

Síðustu nótt vaknaði ég kl. 3.30 að íslenskum tíma því þá var ég að fara í flug en ég skil engan veginn af hverju ég vaknaði svona snemma í dag.

En hér kemur MJÖG löng og ítarleg ferðasaga...  Ágætt að lesa bara með hléum :-)

Þriðjudagur 15. mars 
Flaug suður, eftir smá seinkun. Flugið tók klukkutíma og tuttugu mínútur, og er þar með það lengsta sem ég hef flogið milli Akureyrar og Reykjavíkur. Vegna seinkunarinnar missti ég af rútunni til Keflavíkur kl. 18 og þar sem næsta rúta fór ekki fyrr en kl. 21 þurfti ég að komast einhvers staðar í hús á meðan. Guðjón bróðir Vals, og Edda konan hans skutu yfir mig skjólshúsi og ekki bara það, heldur fékk ég þessa fínu lambasteik hjá þeim líka. Hrund og Sævar voru í mat með litla Guðjón Atla sem er aldeilis flottur og fjörugur strákur. Já og Katrín Heiða, yngri dóttirin. Það er gaman að segja frá því að Guðjón og Edda eru nýflutt í íbúð sem foreldrar Vals áttu á árum áður. Íbúðin er í raðhúsi í Fossvoginum og allt er óbreytt að utan - en að innan hefur gjörsamlega öllu verið breytt. Svo skutlaði Guðjón mér á BSÍ og þaðan tók ég rútuna til Keflavíkur. Eða réttara sagt að hringtorgi við Innri Njarðvík, þar stoppaði bílstjórinn fyrir mig og Ásgrímur maðurinn hennar mömmu beið eftir mér og keyrði mig heim til þeirra. Það er alltaf gaman að koma til þeirra en bara svo alltof sjaldan sem ég er á ferðinni sunnan heiða. 

Miðvikudagur 16. mars 
Ég þorði ekki annað en vakna kl. 7.30 til að hringja heim í Ísak og vekja hann í skólann. Þá var hann nú sjálfur vaknaður en ég sofnaði lítið eftir það. Samt var þetta ótrúlega þægilegur tími til að ferðast á því vélin til Oslóar fór ekki fyrr en 12.40. Mamma og Ásgrímur óku mér uppá flugvöll og þar var ég á vafri í tvo tíma í hinum mestu rólegheitum, því það voru svo fáir í flugstöðinni. Það eina sem truflaði var ótrúlega hvimleiður hávaði í einhverjum slípivélum, því það var verið að pússa upp gegnheilt parkett þarna á miðsvæðinu og hávaðinn glumdi í öllu. Ég hafði verið búin að ákveða að láta mæla hjá mér sjónina því gleraugun mín eru keypt þarna og mér finnst ég vera farin að sjá svo miklu verr undanfarið. Það kom líka í ljós að ég þurfti sterkari gler og því var reddað á korteri. Mjög þægilegt að geta klárað þetta þarna. 

Flugið til Oslóar tók rétt tæpa þrjá tíma og svo beið ég í Osló í ca. tvo tíma minnir mig. Flugið til Tromsö tók svo tæpa tvo tíma, þannig að það er talsverður spotti þarna uppeftir. Ég var nú orðin ansi framlág þegar ég kom loks í hús hjá eiginmanninum en þá var klukkan að verða níu að norskum tíma. Eiginlega var ég bara alveg stjörf af þreytu, en hresstist aðeins við að fá spælt egg og "pytt i panne" sem Valur reiddi fram handa mér.

Fimmtudagur 17. mars
Valur fór í vinnu en ég steinsvaf áfram alveg til að verða tíu. Þá lufsaðist ég á fætur og fannst ég endilega verða að gera eitthvað gáfulegt við tímann. Svo ég dreif mig með strætó í bæinn og rölti þar aðeins um. Það var nú einhver óraunveruleikatilfinning yfir mér og þó flest væri eins og áður þá var líka ýmislegt breytt, og hvort sem það var þreytan eftir ferðalagið eða eitthvað annað, þá fannst mér svo skrítið að vera þarna. Það var búið að byggja glænýtt ráðhús og eins er búið að breyta gamla bíóinu (Fokus kino) í bókasafn. Öðru og enn eldra bíói (sem hét Verdensteatret) þar sem ég hafði stundum verið á fyrirlestrum í sálfræðinni, var búið að breyta í kaffihús. Ég reyndar fór ekki á marga fyrirlestra þar, því fyrirlesarinn var finnskur og talaði sænsku með svo gríðarlegum finnskum áherslum að ég skildi nánast ekki stakt orð af því sem hann sagði. Svo ég hætti nú bara að mæta á fyrirlestrana og las sjálf heima í staðinn. 

Hm, nú er ég að átta mig á því að ég var auðvitað búin að skrifa um fimmtudaginn, svo ég læt gott heita með hann.

Föstudagur 18. mars
Já ég tók sem sagt strætó í áttina að flugvellinum og kíkti aðeins inn í Jekta storsenter, áður en ég fór og sótti bílaleigubílinn. Þetta var fínn bíll, Suzuki smábíll en samt með fjórhjóladrifi og á negldum dekkjum í bak og fyrir. Mér fannst ég hins vegar allt í einu ekki rata neitt þegar ég var komin undir stýri ... sem auðvitað var vitleysa. Málið er að ég reyndi að keyra sömu leið til baka og ég hafði komið með strætónum, en þá hafði hann ekið leið sem að hluta til er lokuð fyrir öðrum en strætisvögnum og leigubílum, svo það var ekki nema von að ég lenti í vandræðum. Ég fann nú alveg aðra leið tilbaka, bara mun lengri, en ók þá meðal annars götu sem við keyrðum oft þegar við bjuggum í Tromsö, og það var búið að byggja svo mikið af nýjum húsum og þó ég væri á stað sem ég þekkti þá fannst mér allt eitthvað svo öðruvísi. Og ég áttaði mig á því að ég var komin í "þreytu-breakdown" svo ég dreif mig bara heim. 

Um það leyti sem Valur var búinn að vinna ætlaði ég að kíkja á háskólasvæðið og ganga þar aðeins um garða. Ég hins vegar komst fljótt að því að það var bannað að leggja nánast alls staðar nema vera með tilþessgert bílastæðakort og eftir að hafa ekið þarna um í smástund og liðið eins og rottu í völundarhúsi (mátti hvergi leggja + sumar götur lokaðar fyrir umferð + búið að byggja alveg heilan helling af nýjum húsum frá því ég var þarna síðast), þá sótti ég Val og við fórum heim og fengum okkur kaffi. 

Síðan fórum við aftur út og ég gerði nýja tilraun til að keyra um eyjuna. Í þetta sinn var enginn sérstakur áfangastaður,  heldur átti bara að rúnta um og skoða fornar slóðir. Það gekk mun betur, þrátt fyrir að vera í umferðinni á annatíma, eða á föstudagseftirmiðdegi þegar fólk var að hætta í vinnu og versla inn fyrir helgina o.s.frv. Við ókum upp á Elverhøy þar sem við áttum heima en fórum reyndar ekki að blokkinni sjálfri, heldur bara að búðinni. Svo fórum við að Åsgård sykehus, en það er geðsjúkrahús og þar vann ég sem sjúkraliði í hlutastarfi veturinn ´93-´94 ef ég man rétt. Mig minnti endilega að húsið sjálft hefði verið rautt á litinn en það er núna einhvern veginn ljósbleikfjólublátt. 

Við ókum líka leiðina að húsi Maritar dagmömmunnar hans Andra, en það hús var hins vegar alveg óbreytt. Ég reyndi að finna Marit í símaskrá en annað hvort er hún komin á elliheimili, flutt frá Tromsö eða eitthvað, því mér tókst ekki að finna hana. Svo fórum við á hinn enda eyjarinnar, að nýlegu hverfi sem heitir Hamna og ókum áfram fyrir endann. Þá fórum við meðal annars framjá Tromsö ridesenter og það rifjaðist upp fyrir mér að Heidi vinkona Hrefnu hafði verið á hestanámskeiði og Hrefna fór ábyggilega með henni í eitt skipti, því ég keyrði þær þangað. Nema ég hafi bara verið að skutla Heidi, sem mér finnst samt ólíklegt... svona er nú minnið mitt óáreiðanlegt. 

Um kvöldið fórum við á veitingastað sem heitir Emmas Under og á að vera ægilega fínn. Á efri hæðinni er Emmas drømmekjøkken. Þetta er sami staðurinn, sama eldhúsið og sami matseðillinn, en innréttingarnar eru víst flottari á efri hæðinni. Maturinn byrjaði mjög vel, við fengum lystauka í boði hússins og svo var forrétturinn mjög góður, aðalrétturinn fínn (norskt lambakjöt) en ekkert slær íslenska lambakjötinu við... og eftirrétturinn alltof dísætur fyrir okkar smekk. 

Laugardagur 19. mars. 
Við höfðum verið búin að ákveða að fara eitthvað út úr bænum þennan dag, þar sem Valur var í fríi. Ferð út á Sommarøy varð fyrir valinu, en þangað fórum við með Gunnu og Matta eitt sumarið sem við bjuggum í Tromsö og þau heimsóttu okkur. Er þá fyrst farið yfir á Kvaløya, en það er eyja sem tengd er við Tromsö með brú. Byggðin þar er hluti af bæjarfélaginu í Tromsö. Það var óskaplega fallegt veður, sól og blíða, og mörg myndefni en afskaplega erfitt að stoppa til að taka myndir því vegurinn var svo þröngur og mikil umferð. Norskir vegir eru mjög þröngir, það er nú bara þannig. Ég áttaði mig á því hvílíkur lúxus það er fyrir áhugaljósmyndara að búa á Íslandi, þar sem er nánast alltaf hægt að aka út í kant ef maður sér áhugavert myndefni. Eftir því sem við fjarlægðumst byggðina var minni umferð og auðveldara að stoppa ef áhugi var á. Ég flaug nú á hausinn í einu stoppinu, fótunum var algjörlega kippt undan mér, og var heppin að meiða mig ekki. 

Í annað sinn ákváðum við að stoppa hjá safni af gömlum húsum og þá þurfti að finna bílastæði. Þegar Valur ætlaði að leggja úti í kanti, benti ég honum á hvort ekki væri betra að hafa bílinn örlítið innar og aftar til að vera ekki fyrir innkeyrslunni að íbúðarhúsi sem þarna var. Hann gerði eins og ég sagði, með þeim afleiðingum að við festum bílinn. Þennan dag var nefnilega hláka og blettur sem leit út fyrir að vera frosinn, var það ekki, svo hægra framhjólið bara hlunkaðist beint niður í gegnum snjóinn, eins og ofan í gat. Vinstra afturhjólið aftur á móti lyftist frá götunni, svo þetta var nú frekar skondið, þó okkur væri ekki hlátur í hug. Við vorum hins vegar svo lánsöm að fyrsti bílstjórinn sem átti leið hjá, stoppaði þegar Valur veifaði í hann, og von bráðar stoppaði annar bíll. Það var nú smá spurning hvernig ætti að fara að þessu, því ekki þótti okkur hættandi á að lyfta undir plast-stuðarann að framan, og enginn var með kaðal til að kippa í bílinn að aftan. Eftir smá japl jaml og fuður kom sú hugmynd upp að þyngja bílinn að aftan og athuga hvort það væri nóg til þess að hann næði gripi og hægt væri að bakka uppúr holunni. Valur fór ofan í skottið, ein kona settist í aftursætið vinstra megin og annar maður settist líka aftast á skottið. Ég fór inn í bílinn og viti menn, það gekk eins og í sögu að bakka honum uppá veginn aftur. Þetta var mjög ánægjulegt svo ekki sé meira sagt. Mikið sem það er nú gott að hitta á hjálpsamt fólk.

Við tókum nokkrar myndir af gömlu húsunum og héldum svo áfram. Þegar hér var komið sögu var veðrið farið að versna, skýjabakkar hrönnuðust upp og það var farið að blása en við héldum ótrauð áfram. Sem þýddi það að loks þegar við komum út á Sommarøy var veðrið frekar leiðinlegt til að byrja með. Ég var svo heppin að það var opin sjoppa/veitingahús og ég gat keypt mér heitt te og svo borðuðum við nestið okkar í bílnum. Ókum svo aðeins um eyjuna og allt í einu glitti í bláan himinn að nýju. Það gerir svo ótrúlega mikið fyrir sálina að sjá aðeins til sólar og ekki er síðra að fá skemmtilega lýsingu þegar verið er að taka myndir. Nánast áföst við Sommarøy er Hillisøy, og þar gengum við út á smá nes eða odda á eyjunni. Kalt var það en fallegt. Ég var í lopapeysu, dúnúlpu og hlífðarbuxum, með húfu og vettlinga, en mikið var mér samt kalt. Fegurðin þarna var samt alveg dásamleg. Það var mikið berjalyng og enginn snjór yfir því á parti. Þrátt fyrir kuldann ilmaði lyngið eins og á fallegu hausti. Brimið skall á steinunum/klettunum í fjörunni og í fjarska mátti sjá snarbrattan klett sem þakinn var snjó að hluta. 

Eftir smá stund hvarf sólin aftur, himininn varð grár og það byrjaði að snjóa aðeins. Þá var kominn tími til að snúa heim á leið, sem við og gerðum. Við ókum reyndar aðra leið tilbaka en sú var ekki jafn falleg og hin leiðin, en mun styttri og ótrúlegt en satt, breiðari vegur sem þægilegra var að keyra. 

Um sexleytið fórum við svo í bæinn til að fá okkur að borða og varð Pastafabrikken fyrir valinu. Þar fengum við þessa frábæru súpu með bláskel. Hún var sterk og góð og akkúrat það sem mann vantar eftir að hafa verið úti í kulda og trekki. 

Sunnudagur 20. mars
Frúin var nú ansi lúin eftir ferðalag gærdagsins, svo það var ekki mikið gert á sunnudeginum. Ekki var hægt að eyða deginum í verslunarmiðstöðvum, því Norðmenn eru svo skynsamir að hafa allar verslanir lokaðar á sunnudögum. Ég væri alveg til í að hafa sama system hér á landi. En um tólfleytið fórum við samt á stúfana og kíktum á listasafn. Þar var ljósmyndasýning eftir norskan ljósmyndara og sýning með vídeóverkum eftir Sigurð Guðjónsson, og fyndin tilviljun að það skyldi einmitt vera Íslendingur með sýningu þar. Eftir safnið ætluðum við að fara í ljósmyndarúnt um eyjuna. Þemað átti að vera að taka myndir af öllum gömlu stöðunum sem höfðu verið hluti af lífi okkar þennan tíma sem við bjuggum þar. Svo sem blokkinni okkar, búðinni sem við versluðum í, vídeoleigunni þar sem laugardagsnammið var oftast keypt o.s.frv. En þegar hér var komið sögu fór að hellirigna og einnig var komið alveg brjálað rok, svo ekkert varð úr ljósmyndatúrnum. Í staðinn fórum við bara heim í hús og lögðumst undir feld, eða svo gott sem. Dagurinn fór í sjónvarpsgláp, tölvugláp og blaða- og tímaritalestur. Valur eldaði svo kvöldmat og síðan fórum við og fylltum bensín á bílaleigubílinn. Ég hafð ætlað að fara snemma að sofa en það varð nú ekki fyrr en um hálf ellefu/ellefu sem ég sofnaði. 

Mánudagur 21. mars
Ég vaknaði klukkan hálf fimm og gat ekki sofnað aftur. Fór á fætur rétt fyrir fimm og fór í sturtu og fékk mér morgunmat. Um hálf sex ók ég svo á flugvöllinn og byrjaði á því að skila bílaleigubílnum. Ég ætlaði nú reyndar varla að komast af bílastæðinu vegna hálku, spólaði bara á fínu kuldaskónum mínum, en þeir eru sérlega hálir. Svo tékkaði ég mig inn og lenti á alveg skelfilega morgunfúlum manni, en ég áttaði mig reyndar á því eftirá að ég hafði farið í vitlausa röð. Fór í röðina sem er ætluð þeim sem eru búnir að tékka sig inn sjálfir og þurfa bara að skila töskunum... Maðurinn var samt ekkert að segja mér það, en mikið sem hann var samt leiðinlegur. Í vopnaleitinni lenti ég svo í líkamsleit. Það hefur aldrei gerst áður og ég var mikið að spá í hvort það væri vegna klæðaburðar. Það er að segja, ég var ekki í "fínum" fötum eins og yfirleitt í flugi, heldur lopapeysu, gallabuxum, fjallgönguskóm og með bakpoka. En þegar ég var loks komin þarna í gegn þá fattaði ég að ég hafði gleymt að skila lyklinum að bílaleigubílnum. Þurfti að fara niður með lykilinn og aftur í gegnum vopnaleitina. Þá var komin þvílík biðröð þar fyrir framan og ég óttaðist að missa af vélinni ef ég færi samviskusamlega í biðröðina, svo ég laumaðist fram fyrir - og komst í þetta sinn óáreitt í gegnum vopnaleitina. En þá sá ég líka að þeir voru að taka fleira fólk í líkamsleit, og meira að segja konur sem voru snyrtilega klæddar, þannig að ég hefði ekki þurft að vera svona fordómafull... 

Flugið til Oslóar gekk eins og í sögu og mér tókst að sofa hluta leiðarinnar. Ég skil reyndar ekki alveg að við fengum ókeypis morgunmat, en þegar ég flaug til Tromsö var bara í boði að kaupa eitthvað ef maður var svangur. Í Osló gat ég bara gengið beinustu leið að utanlandsflugsvæðinu og þurfti ekki að fara aftur í gegnum vopnaleit, þannig að það var nú ágætt. Svo keypti ég mér mat áður en ég fór í flugið, til að þurfa ekki að kaupa vondar samlokur þar. Það var bara nokkuð góður leikur hjá mér, því ég fékk mér egg, beikon, baunir og ávaxtahristing, og var lengi södd af þeim mat. 

Mér tókst líka að sofa hluta heimleiðarinnar en eftir að ég vaknaði fór ég samt í algjört þreytukast og leið mjög illa á tímabili. Tók verkjatöflu og fékk mér vel að drekka og ástandið skánaði. Þegar við lentum í Keflavík fór ég að velta því fyrir mér hvort ég myndi ná fyrra flugi heim, en ég átti pantað kl. 16 norður og fannst svolítið mikið að þurfa að bíða í tvo tíma á Reykjavíkurflugvelli. Samt hafði ég ekki þorað að panta með fluginu kl. 14 því ef einhver seinkun hefði verið á fluginu frá Noregi hefði ég misst af því flugi. Það tekur líka alltaf tímann sinn þegar ferðast er með flugrútunni frá Keflavík, því hún fer stundum ekki af stað fyrr en klukkutíma eftir að vélin lendir. Það var reyndar tæpur klukkutími í þetta sinn og við vorum komin inn til Reykjavíkur kl. 13.30. Þá þurfti ég að bíða aðeins eftir öðrum bíl sem ók farþegum á hótel og mér upp á flugvöll. Þangað var ég komin 13.50 og ákvað að athuga hvort laust væri með vélinni norður. Ég var svo heppin að það var laust, svo ég spanderaði á mig breytingargjaldi, og rauk svo beint út í vél. Enda var það alveg dásamlegt að vera komin heim um þrjúleytið og geta slappað af það sem eftir lifði dags.

Engin ummæli: