þriðjudagur, 29. mars 2011

Þema dagsins er togstreita

Togstreitan á milli þess að vilja og geta. Vandamálið sem skapast þegar langanir fara ekki saman við líkamlega getu. Mig langar að vera í kór, en eins og ástandið er á mér þessa mánuðina, hef ég áttað mig á því að ég get það ekki. Þó ég sé þokkalega góð í einvern tíma og geti mætt á æfingar, þá er hundleiðinlegt að þurfa að melda forföll á tónleika, eða í aðrar ferðir með kórnum af því ég dett í slæmt gigtarkast (sem getur staðið í nokkra daga þegar verst er). Nú t.d. er kórinn að æfa fyrir landsmót íslenskra kvennakóra sem haldið verður á Selfossi í lok apríl. Ég var búin að skrá mig á mótið og greiða staðfestingargjald, en komst að því um helgina þegar ég treysti mér ekki einu sinni á kóræfingu, að það væri algjört bull að ætla sér að fara í þessa ferð. Og í framhaldi af því, þá er líklega algjört bull að ætla sér að halda áfram í kórnum.

Sama vandamál er uppi á teningnum varðandi vinnuna. Ég hef yfirleitt alltaf náð að standa mína plikt í vinnu þrátt fyrir þetta ástand, en nú hafa komið dagar sem ég hreinlega treysti mér ekki til að mæta í vinnuna. Þá er ég líka eiginlega bara fárveik. Það er ofboðslega erfitt að eiga samskipti við fólk og reyna að halda haus þegar maður stendur varla undir sjálfum sér. En svo sést auðvitað ekki utan á mér hvað ég er léleg, því það er ekki eins og ég sé með hendina í gifsi eða eitthvað álíka áþreifanlegt. En mig langar að vinna, mig langar að halda áfram með Potta og prik, og helst líka að sjá fyrirtækið vaxa og dafna.

Það að gefa kost á sér í nefndir og svoleiðis er verulega heimskulegt í mínu ástandi. Síðastliðið haust gaf ég kost á mér í kaffinefnd vegna árshátíðar Lundarskóla, en kaffisalan er fjármögnun fyrir útskriftarferð tíundubekkinga. Í gær var fundur í nefndinni. Í fyrsta lagi var ég svo slöpp þegar við hittumst að mér  fannst ég alveg eins og kjáni. Í öðru lagi eru fjórar árshátíðarsýningar = fjórar kaffisölur, sem þýðir að í einni kaffisölunni ég þarf að vera "verkstjóri" yfir hinum foreldrunum sem vinna á sömu vakt og ég. Í þriðja lagi var ég svo rugluð að ég gaf kost á mér í árshátíðarvinnu þegar ég á að vera í alvöru vinnunni minni. Í fjórða lagi hef ég áhyggjur af því að ef ég verð í gigtarkasti þegar árshátíðin verður, þá muni ég ekki geta staðið mína vakt....

Já já svona er nú það. Nú þarf ég bara að reyna að finna út úr því hvernig ég get leyst þessi "vandamál" mín öll sömul, því togstreita leiðir jú bara af sér enn  meiri streitu, sem gerir mér ekki gott.

Svo er ég að velta því fyrir mér hvort ég eigi að reyna að komast í endurhæfingu á Kristnesi, eða hvort ég eigi jafnvel að fara til Noregs, en þar er einkaklíník sem sérhæfir sig í meðferð fólks eins og mín. Sem aftur myndi kosta hellings pening, bæði í ferðir, rannsóknir og meðferð, en þar er þó verið að meðhöndla fólk, en ekki bara segja að það verði að læra að lifa með þessu ástandi. Endurhæfing ein og sér myndi kannski hjálpa mér að safna mér aðeins saman aftur, en hún tæki 6 vikur held ég og þá gæti ég reyndar ekki verið í vinnu á meðan. Meðferðin sem beitt er í Noregi er einstaklingsbundin, allt eftir því hvað kemur út úr blóðprufum og öðrum prufum hjá hverjum og einum, og margir versna í upphafi... en síðan verða margir frískari en þeir hafa verið í mörg ár.

Málið er með sjúkdómsgreiningu eins og vefjagigt að það getur verið ótal margt annað í gangi s.s. veiru- og bakteríusýkingar, þungmálmaeitranir, meltingarvandamál vegna mjólkur- eða glúteinóþols, hormónaójafnvægi ofl. ofl. en íslenskir læknar eru bara ekki að horfa á þessi "hliðarvandamál" sem geta valdið svo miklu verri líðan hjá fólki sem er veikt fyrir. Ég finn það nú líka bara með sjálfa mig, ég er farin að skrifa nánast öll mín (óeðlilegu) einkenni á vefjagigtina, enda kannski ekki skrítið þar sem hún ruglar svo svakalega margt í líkamsstarfseminni.

Og svona til að enda þennan pistil á skemmtilegri nótum þá koma hér tvær myndir frá árinu 1997, sem Valur var að skanna inn.

2 ummæli:

Fríða sagði...

Æi, ertu að segja að þú ætlir að hætta í kórnum?

Guðný Pálína sagði...

Góð spurning! Ég eiginlega veit það ekki sjálf. Langar að halda áfram og sjá til... En úff, svo er kannski bara best að hætta alveg og vera ekki með þetta hálfkák.