Annars er fátt í fréttum. Ég fékk einhverja pesti sem byrjaði með miklum höfuðverk í fyrradag og við bættust síðan alveg hrikalegir beinverkir og almenn vanlíðan. Sem betur fer gat Nanna unnið fyrir mig í gær og ég svaf nánast óslitið frá átta til fjögur. Hresstist töluvert eftir kvöldmatinn en þorði ekki annað fá Nönnu til að vinna fyrir mig í dag líka og afboðaði klúbbinn sem ég ætlaði að halda í dag. Svo steinsvaf ég í alla nótt og vaknaði svona líka hress í morgun. Dauðsá eftir því að hafa sjálfkrafa gert ráð fyrir því að vera veik í dag og fannst ekki spennandi tilhugsun að þurfa að eyða deginum innan dyra þegar ég var orðin svona hress. En eftir að hafa stússast aðeins í eldhúsinu og farið tvær ferðir milli hæða var ég orðin svo þreytt að ég þurfti að setjast og hvíla mig, þannig að þetta er greinilega týpisk víruspesti þar sem maður er hressari inn á milli en dettur svo niður í svaka þreytukast. Og þá er víst ekki um neitt annað að ræða en taka því rólega og reyna að jafna sig.
Það er eiginlega hálf klént að blogga svona í sífellu um eigið heilsufar og mér koma í hug samskipti sem ég heyrði í heita pottinum um daginn. Þegar ég kom ofan í pottinn var þar fyrir staddur karlmaður sem ég spjalla stundum við og hann fór óðara að segja mér frá því að hann hefði fengið í bakið við að moka snjó um daginn. Hann hafði vart lokið frásögninni þegar einhver kunningi hans kom í pottinn og sá bakveiki tók aftur til máls: "Ja, nú er það ljótt maður. Heldurðu að ég hafi ekki verið að moka snjó og fengið svona rosalega í bakið. Ég var bara alveg að drepast." Þá svarar hinn: "Það er nú ekkert nýtt, þú ert alltaf hálfdauður, væri ekki bara betra að drepast alveg?"
Kunninginn virtist vera búinn að fá yfir sig nóg af sjúkrasögum félagans og líklega getur það verið býsna þreytandi fyrir þá sem þurfa að hlusta á/lesa um veikindi annarra. Gallinn er bara að maður fær vissa fróun við það að geta sagt öðrum frá vandamálum sínum, maður er þá ekki lengur jafn mikið "Palli var einn í heiminum" og fer að líða aðeins betur andlega. Hins vegar hefur það þótt styrkleikamerki að bera harm sinn í hljóði og mér finnst ég stundum vera voðalegur aumingi eitthvað að vera að "væla" svona. Þannig að það er ekki alltaf gott að vita hver rétta leiðin er í þessum málum, frekar en öðrum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli