þriðjudagur, 22. apríl 2008

Þolinmæði er þrautin þyngri

Smá útúrsnúningur á "þolinmæðin þrautir vinnur allar". Það er eins og það sé í sífellu verið að testa þolinmæðina hjá mér - og alltaf fell ég á prófinu. Er ekkert að láta hugfallast, svo það sé nú alveg á hreinu. En eftir að hafa verið svo ógurlega hress í mínu nýuppskorna baki er ég farin að fá verki í mjóbakið, svona þungan seiðing sem leiðir niður í báðar rasskinnar og svo niður í vinstri fót. Bæklunarlæknirinn sem skar mig upp var búinn að vara mig við þessu og sagði ég ég mætti búast við að vera slæm í bakinu í einhverjar vikur meðan þetta væri allt að gróa og falla í réttar skorður aftur. Samt varð ég pínu fúl - hef sennilega haldið að ég væri eitthvað öðruvísi en annað fólk ;-)

Í morgun lá ég á netinu og las spjallsíður fólks sem hefur farið í svona aðgerð á www.spine-health.com og þar sá ég svart á hvítu að þetta getur tekið langan tíma að jafna sig allt saman. Og sumir sem fara of skarpt af stað fá nýtt brjósklos á sama stað. Þannig að ég verð bara að samþykkja þetta ástand og vera ekki að hugsa um allt sem ég get ekki gert - sem er nú hægara sagt en gert. Ég hef t.d. verið að setja í eina og eina þvottavél en í gær sá ég að ég get ekki lengur hengt upp þvottinn (þetta voru bara örfáir bolir, engin þyngd í þeim) án þess að fá í bakið. Þannig að í morgun þegar Andri leitaði árangurslaust í herberginu sínu að hreinum nærbuxum fékk hann það verkefni að setja í þvottavélina. Svo heppilega vildi til að síðan var tveggja tíma frí hjá honum í skólanum þannig að hann kom þá heim og hengdi upp úr vélinni. Einnig reimaði hann skóna á mömmu sína svo hún komst út í smá gönguferð.

Nú ligg á sófanum ég með tölvuna í fanginu og var að skoða myndir sem ég tók í gær af skýjafarinu við Súlur. Við fyrstu sýn sýndust mér þær ágætar en svo sé ég að það vantar herslumuninn uppá að nokkur þeirra sé virkilega góð. Ég er nú samt að hugsa um að birta eina á blogginu á eftir, bara svona til að gefa hugmynd um hvað himininn var skrautlegur þarna í smá stund í gær.

Svo þarf ég að þjálfa mig upp í að geta gert gáfulega hluti standandi/liggjandi. Ég er svo vön því að sitja við skrifborð þegar ég er að vinna að mér bara finnst það ógjörningur að hugsa eða vera skapandi útafliggjandi. En þetta er örugglega bara þjálfunaratriði.

Engin ummæli: