Úti er þetta fína fína veður og ekki spurning að ég verð að drífa mig út að ganga. Ísak er farinn á fótboltaæfingu og Valur er farinn á fræðsludag í vinnunni. Svo er árshátíð hjá þeim í kvöld, það verður farið á Friðrik V. og borðað þar. Hefði verið fráært að komast með en því er víst ekki að heilsa núna og þýðir ekkert að fást um það. Andri sést lítið heima við þessa dagana, er alltaf hjá kærustunni. Þannig að það verða bara ég og kettirnir sem förum saman út að spássera.
Valur er í bókaklúbbnum Neon og fékk senda nýja bók í gær. Hún heitir "Kona fer til læknis" og er eftir hollenskan mann, Ray Kluun að nafni. Ég greip hana fegins hendi því mig vantað einmitt einhverja kilju sem handhægt er að lesa liggjandi. Bókin fjallar um mann, giftan með eitt barn, sem lifir í lukkunnar velstandi þegar konan hans greinist með krabbamein. Þrátt fyrir að um mjög alvarlegt krabbamein sé að ræða og konan deyi úr því á endanum heldur maðurinn áfram að halda fram hjá henni, eins og hafði verið venja hans fram að því. Fyrst í stað með hverri þeirri dömu sem hann hittir og er til í tuskið en svo með einni ástkonu. Barnið er tveggja/þriggja ára þegar þetta er. Konan veit af framhjáhaldinu en ákveður að hún vilji fremur eyða síðustu mánuðum ævi sinnar með honum heldur en án hans. Hún skrifar falleg bréf til litlu dótturinnar sem mun ekki koma til með að muna neitt eftir móður sinni þegar hún vex úr grasi. Þar sem sagan gerist í Hollandi endar konan á því að fara fram á líknardráp og verður að þeirri ósk sinni. Maðurinn hugsar óaðfinnanlega um hana á endasprettinum og þetta verður eins hamingjusamur dauðdagi og hægt er að fara fram á.
Ástæðan fyrir því að þessi bók vekur með mér vanlíðan er ekki bara framhjáhald mannsins þó það hefði eitt og sér nægt til þess að vekja með manni vissan viðbjóð. Það sem setur mig úr jafnvægi er sú staðreynd að þessi saga er sönn, þ.e. kona rithöfundarins dó úr krabbameini og í kjölfarið skrifaði hann þessa metsölubók. Maður getur velt fyrir sér siðferðinu á bak við það að "nota" látna eiginkonu á þennan hátt en það sem situr í mér er dóttirin. Hvernig mun það verða fyrir hana þegar hún er komin til vits og ára (er víst 9 ára í dag) að lesa þessa bók? Kannski pabbi hennar verði þá fyrir löngu búinn að segja henni söguna sem slíka en einhvern veginn finnst manni það ekki sanngjarnt gagnvart henni að byrja lífið með svona bagga á bakinu. Það er að segja, ekki nóg með að mamma hennar sé dáin og hún alist upp hjá konunni sem var viðhald pabbans á meðan mamman lá á dánarbeði (kemur fram í viðtölum við höfundinn á netinu að hann er núna giftur fyrrum viðhaldinu og þau eiga barn saman) heldur veit allur heimurinn af því að pabbinn: a) hélt framhjá mömmunni og b)gerði sér mat úr þessum aðstæðum með því að skrifa um þær bók og hagnaðist þannig fjárhagslega á ölllu saman.
Jamm og jæja, þetta voru vangaveltur dagsins. Held að ég snúi mér að meira uppörvandi hlutum núna, eins og að fara út í góða veðrið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli