Þetta voru þriðju mistök mín í dag. Mistök nr. 1 voru að leggja mig aftur eftir að Ísak var farinn í skólann og sofa til klukkan hálf ellefu. Mistök nr. 2 voru að borða súkkulaðistykki (Lion bar) sem Andri skildi eftir á eldhúsborðinu, strax á eftir Udo´s olíu og súrmjólk með múslí. Nú ligg ég í sófanum með tölvuna í fanginu, uppþemd og ropandi (skemmtileg lýsing), með höfuðverk af blogglestri og er ekki einu sinni búin að fara í sturtu í dag, hvað þá að klæða mig úr náttfötunum eða fara út að ganga. Já, þetta er hálf "pathetic" eitthvað.
Sólin skín úti og hitinn er einhverjar plúsgráður, Máni liggur til fóta hjá mér en ég veit ekki um Birtu. Annað heimilisfólk er í vinnu og skóla.
Þegar ég fór að sofa í gær var ég í jákvæðnikasti, sá sjálfa mig fyrir mér læknast fljótt af þessu brjósklosi, byggja mig upp í vetur og fara að skokka næsta sumar - en þegar ég vaknaði í morgun var ég bara leið yfir því að framundan væri enn einn dagurinn í veikinda"fríi".
En svo ég sé nú aðeins á jákvæðu nótunum líka, þá held ég að þetta sé allt að koma. Í dag er vika frá aðgerðinni og ertingin í skurðsárinu sem var að gera mig vitlausa í gær er mun minni í dag. Mér er ekkert illt í bakinu sjálfu og ég er ekki frá því að það sé örlítið meiri máttur í vinstri fætinum. Er samt ennþá dofin fyrir neðan hné og það er stórfurðulegt að strjúka yfir húðina þar.
Nú heyrði Máni í fuglum úti og stökk allt í einu uppá sófabakið til að tékka betur á þessu. En letin náði yfirhöndinni aftur og hann lagðist á sama stað. Nú er bara spurning hvað hinn letihaugurinn í sófanum gerir...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli