sunnudagur, 20. apríl 2008

Góður dagur

Eftir að hafa skrapað botninn í gær vegna almennra leiðinda liggur leiðin bara uppá við að nýju. Í gærkvöldi meðan Valur fór á árshátíð fékk ég mér gott að borða (sjávarréttapasta, afganga frá föstudeginum), hringdi svo í Ingu vinkonu mína á Seltjarnarnesi og talaði við hana í klukkutíma og horfði svo á seinni bíómynd kvöldsins í sjónvarpinu. Lá svo uppi í rúmi og las uppbyggilega bók þar til Valur kom heim og við sofnuðum. Í morgun hringdi Rósa æskuvinkona mín í mig frá Reykjavík og við spjölluðum í nærri klukkutíma (hehe, ég sleppti henni ekkert úr símanum fyrr). Seinna í dag komu svo Soffía sem vinnur með Vali á Læknastofunum og Rögnvaldur maðurinn hennar í óvænta en ánægjulega heimsókn. Rétt eftir að þau voru farin hringdi Erna sem er bæði hárgreiðslukonan mín og með mér í kvennaklúbbnum og það var líka voða gaman að heyra í henni. Þannig að þörf minni fyrir félagslegt samneyti hefur heldur betur verið fullnægt í gær og í dag. Við Valur enduðum svo á því að skreppa í Pennann núna eftir kvöldmat. Strangt til tekið má ég ekki sitja í bíl en ég hallaði sætinu bara mjög mikið aftur og þetta var nú ekki löng ferð. En það var mjög gott að komast aðeins út af heimilinu og í annað umhverfi þótt stoppið væri stutt. Og nú er ég farin að horfa á Monk spæjara :-)

Engin ummæli: