fimmtudagur, 24. apríl 2008

Eureka

Stundum veit maður eitthvað en einhverra hluta vegna nær ekki að átta sig á samhengi hlutanna eða mikilvægi ákveðinna þátta í heildarmyndinni. Í dag áttaði ég mig "allt í einu" á þeirri staðreynd að ég er bókstaflega að drepa sjálfa mig úr streitu. Það er að segja, ég kann ekki að koma í veg fyrir að ég stressist alltof mikið upp út af ýmsu og kann ekki að vinna úr ástandinu þegar líkaminn er að reyna árangurslaust að gefa mér skilaboð um að streitan sé búin að ná hættumörkum og mál sé til komið að gera eitthvað gagnverkandi. Fólk er misjafnt og það sem veldur einum manni álagi hefur ekkert að segja hjá næsta manni. Ég er þannig að ég stressast upp yfir hinu og þessu (þyrfti sennilega að grafa aðeins dýpra í sálarkimana til að átta mig á því af hverju það er), jafnvel þótt skynsemin segi mér að þetta séu ekki hlutir til að hafa áhyggjur af. Þegar ég er svo undir langvarandi álagi er ég greinilega ekki nógu dugleg að átta mig á því, hvað þá að gera eitthvað til að vinna á móti slæmu áhrifunum. Það þarf ekki annað en lesa sér til um hvað gerist í líkamanum við streitu (svokallað "fight or flight" viðbragð) til að sjá að það er ekki hollt að vera undir álagi í langan tíma. Ef við tökum sjálfa mig sem dæmi þá hef ég greinilega alls ekki verið að gera það sem í mínu valdi stendur til að vinna gegn neikvæðum afleiðingar streitu, hvað þá að vinna markvisst að því að verða ekki svona stressuð yfir öllu mögulegu og ómögulegu. Þannig að í staðinn þá þróa ég með mér vefjagigt (með öllu því sem henni fylgir), fæ brjósklos og það nýjasta; fæ útbrot á andlit, hársvörð, axlir og bringu. Það var einmitt þetta síðasta sem gerði það að verkum að ég lagði tvo og tvo saman... Í fyrradag byrjaði ég að fá smá bólur í andlitið, svipaðar hormónabólum hjá ungbörnum, sem bara hafa versnað og í dag var mig þar að auki farið að klæja all verulega í bólurnar. Þannig að ég lagðist í rannsóknir á netinu og sá að líklega var um ákveðið ástand að ræða sem er eins konar exem og leggst einkum á miðaldra stressaðar og/eða þunglyndar konur (það er í lagi að hlæja núna). Skyndilega laust þá þessari innsýn niður í mig, að ég væri bókstaflega að drepa sjálfa mig úr streitu og það væri algjörlega á mína ábyrgð að grípa til allra þeirra ráða sem á mínu valdi eru til að laga ástandið. Í kjölfarið auglýsi ég hér með eftir ráðum til að vinna á krónískri streitu...

Engin ummæli: