- Ég er að fara í nudd á eftir
- Ég náði að raka á mér fótleggina í sturtu áðan ;-)
- Ég gat sofið alla síðustu nótt þrátt fyrir tveggja tíma lúr í gærdag
- Ég er farin að geta gengið hraðar
- .... mér dettur ekki fleira í hug í augnablikinu...
Enn einn dýrðardagurinn hér í höfuðstað Norðurlands. Spáin var víst ekki svona góð en gott að hún skyldi ekki standast því hér er nýhafið Andrésar andar mót á skíðum og gaman fyrir krakkana að fá svona gott veður.
Við Valur röltum einn lítinn hring hérna í hverfinu í morgun og ég er nú öll að styrkjast þó mér finnist þetta ganga voðalega hægt. Í dag er kominn hálfur mánuður frá því ég fór í aðgerðina og þrátt fyrir að mér finnist hver og einn dagur óskaplega lengi að líða þá hefur þetta nú liðið býsna hratt. Vonandi verð ég orðin þokkalega spræk eftir mánuð þegar Pottar og prik opna á Glerártorgi :-)
P.S. Valur tók þessa mynd seinni partinn í júlí árið 2005 þegar við fórum einn kvöldrúnt til að taka myndir með Canon myndavélinni sem við höfðum þá nýlega keypt.
Ég held áfram að hrella fólk með endalausum myndbirtingum. Hehe, en af því mér finnst það skemmtilegt þá ætla ég ekki að hætta því, enda er þetta mín síða og þ.a.l. ræð ég hvað birtist á henni :-)
Ég var úti að ganga með myndavélina áðan þegar það kallaði í mig kona sem býr í næstu götu fyrir neðan mig og spurði hvort ég vildi ekki taka myndir af eplatrénu hennar því það væri í fullum blóma. Ég sagði að ég væri eiginlega ekki með réttu linsuna en vildi samt endilega sjá tréð. Þegar til kom þá sá ég að ég næði alveg að mynda tréð. Stóðst ekki að birta myndina því það var svo gaman að sjá þessa grósku núna þegar flestallur gróður er enn undir snjó.
Er voðalega löt í dag eitthvað og bara búin að hanga í tölvunni síðan um áttaleytið - eða jú ég borðaði líka morgunmat ;-) Annars er tölvan að stríða mér, þegar ég skrifa texta þá hoppar bendillinn tilbaka alveg ófyrirsjáanlega, oft um einhverja stafi, stundum fer hann nokkrar línur tilbaka og þá er ég allt í einu farin að skrifa ofan í það sem ég hafði skrifað áður. Reyndi að hringja áðan í tölvumanninn okkar en hann var ekki við. Konan sem svaraði í símann ætlaði að biðja hann að hringja í mig, verður spennandi að sjá hvernig það fer...
Ég er að reyna að finna leiðir til að njóta þessa að vera heima (takið sérstaklega eftir því að ég sleppti neikvæðu lýsingunni "að finna leiðir til að drepa tímann") þrátt fyrir að hreyfigetan sé afar takmörkuð. Nú er komið hádegi og þetta gengur bara nokkuð vel. Lá í sófanum og las mér til um myndavélina mína og fór svo að svipast um eftir myndefnum. Tók fyrst nokkrar myndir af blómunum sem mér voru færð á sjúkrahúsið (Valur kom með rósavönd og Surekha kom með fjólubláa túlipana) en fór svo út á tröppur og smellti af nokkrum myndum þar. Ekkert smá flott veðrið núna! Ég myndi fara út að ganga, þó ég þyrfti að skakklappast, ef ég bara kæmist í skóna mína en það geri ég víst ekki.
Góðu fréttirnar eru þær að byggingafulltrúi er búinn að samþykkja teikningarnar að versluninni okkar á Glerártorgi þannig að nú geta framkvæmdir hafist. Stefnt er að opnun þann 22. maí.
Við Valur fórum í stutta ljósmyndaferð yfir í heiði í dag. Veðrið var frábært og það var alveg meiriháttar gott að fara aðeins út í sólina. Myndirnar heppnuðust fæstar en það er í raun ekki aðalatriðið að mínu mati. Meira máli skiptir að vera úti og gleyma sér um stund við að taka myndir.