miðvikudagur, 30. apríl 2008

Jákvætt

- Ég fæ flugmiðann minn til Noregs endurgreiddan
- Ég er að fara í nudd á eftir
- Ég náði að raka á mér fótleggina í sturtu áðan ;-)
- Ég gat sofið alla síðustu nótt þrátt fyrir tveggja tíma lúr í gærdag
- Ég er farin að geta gengið hraðar
- .... mér dettur ekki fleira í hug í augnablikinu...

þriðjudagur, 29. apríl 2008

Mæli ekki með því

að liggja uppi í sófa með Weetos pakka sér við hlið og borða hverja lúkuna á fætur annarri uppúr pakkanum... Veit ekki alveg hvernig ég fékk þá hugdettu að taka pakkann með mér inn í stofu "in the first place". En það er nokkuð ljóst að þegar maður hefur eitthvað til að narta í svona alveg við hendina þá nartar maður! Sjálfsagt einhvers konar "tröstespising" í gangi án þess þó að það sé eitthvað sérstakt að angra mig. Líklega bara veðrið sem hefur þessi áhrif. Þó fór ég út að ganga um níuleytið í morgun, hitastigið var ca. ein gráða, það var norðanátt og smá éljagangur. Sá ég þá ekki karlmann vera að vinna í garðinum sínum niðri í Kotárgerði. Já, hann var nú aldeilis ekki að láta veðrið á sig fá heldur rakaði saman trjágreinum af miklum móð. Svona á þetta að vera!

En af því að ég er að tala um hluti sem ég mæli ekki með, þá mæli ég heldur ekki með því að lesa Flugdrekahlauparann þegar maður er í viðkvæmu skapi. Ég las bókina einn daginn sem ég var eitthvað miður mín yfir þessu bakveseni öllu saman og tárin streymdu því bókin var svo sorgleg, a.m.k. framan af. Og talandi um bækur þá er ég líka búin að lesa Ösku eftir Yrsu Sigurðardóttur og fannst það ágætis spennusaga. Gæti samt sett það helst útá hana að mér fannst aðalsöguhetjan (sem á ekki að vera nein súperhetja) vera gerð helst til "fattlaus" á köflum.

Held að ég láti þetta gott heita í bili, "see you".

mánudagur, 28. apríl 2008

Einhver leti í gangi í dag

Ég vaknaði með Ísaki í morgun en var eitthvað svo þreytt að ég lagði mig aftur. Það bíða heldur engin sérstök verkefni eftir mér þessa dagana svo það er fátt sem stoppar svona letiköst. Eiginlega var ég bara þreytt síðan í gær. Ég fór jú í sund og þar fyrir utan tvisvar út að ganga. Meira er nú þolið ekki. En talandi um verkefni... í augnablikinu stendur valið milli þess að taka úr uppþvottavélinni og laga aðeins til í eldhúsinu, vökva blómin, fara í sturtu, eða fara út að ganga.

Annars er mamma að koma norður í dag til að fara í jarðarför. Svo flýgur hún suður aftur á miðvikudaginn en á föstudaginn leggur hún aftur af stað í ferðalag, í það skiptið til Noregs. Sigurður sonur Önnu systur er að fara að fermast og ég á bókað sæti í þetta sama flug en kemst því miður ekki. Frekar fúlt eiginlega. Fyrst hélt ég nefnilega að ég kæmist ekki í ferminguna af því samkvæmt upphaflegri áætlun átti Glerártorg að opna 2. maí og fermingin er 3. maí. Svo þegar Glerártorgi var frestað varð ég voða glöð og pantaði flug til Noregs. En brjósklosið setti heldur betur strik í reikninginn og læknirinn sem skar mig upp sagði að Noregsferðin væri út úr myndinni. Enda er ég voðalega lítið farin að geta setið. Jamm og jæja, svona fór um sjóferð þá.

sunnudagur, 27. apríl 2008

8 ferðir baksund

er afrakstur dagsins fram að þessu. Ég hafði ekki farið í sund í tæpar þrjár vikur og var eiginlega komin með fráhvarfseinkenni þannig að ég ákvað að drífa mig í sund í dag. Það er reyndar ekki alveg réttnefni að segja að ég hafi drifið mig því ég fer svo hægt yfir... En Valur skutlaði mér niður eftir og ofan í laugina fór ég. Það var stórskrítin upplifun því ég fann svo mikið fyrir því ofan í vatninu hvað skynjunin í vinstri fætinum er undarleg. Eins kom svona hálfgert "tog" á bakið en ég fór bara alveg rosalega rólega og allt gekk þetta vel. Treysti mér reyndar hvorki í heita pottinn né gufuna og ekki náði ég að synda mér til hita svo ég var fjólublá af kulda þegar ég kom uppúr. En gott var þetta samt!

Annað í fréttum er það helst að sólin hefur yfirgefið okkur í bili. Það þarf ekki að segja neinum hvað sólin hefur góð áhrif á okkur mannfólkið og hið sama má segja um kettina. Þau elska að sitja eða liggja úti á palli með lokuð augun og láta sólina ylja sér. Síðustu vikur hafa þar af leiðandi verið þeim jafn mikil sálubót og okkur - en núna sofa þau mest allan daginn og sýna enga tilburði til að vilja fara út. En vonandi er sólin þá bara að ylja fólki og fjórfætlingum annars staðar á landinu, það er ekki nema sanngjarnt að hún skipti sér jafnt á milli landshluta :-)

laugardagur, 26. apríl 2008

Fótsnyrting óskast

Ég er eiginlega að verða alveg ótrúlega góð í bakinu og fóturinn er allur að koma til líka. Þannig að ég er farin að geta gert ýmislegt sem ég hef ekki getað auðveldlega síðustu vikur s.s. að tína hluti upp af gólfinu. Ég passa mig bara að beygja ekki bakið, heldur beygi mig í mjöðmum og hnjám. Eftir töluverða óþolinmæði í bataferlinu sé ég sem sagt loks fram á að betri tíð með blóm í haga. Þó er eitt sem ég get ekki framkvæmt og það er að snyrta á mér fæturnar + að ég á ennþá erfitt með að komast í sokka sjálf án þess að bogna í baki. En ég klára þetta með sokkana með smá þolinmæði, hinsvegar er engin leið til að ég geti raspað á mér hælana eða klippt táneglurnar sjálf. Ætli ég muni ekki leita á náðir eiginmannsins með þessa bráðnauðsynlegu hluti. Annað eins er hann nú búinn að gera fyrir mig á þessu veikindatímabili. Í gær útvegaði hann mér t.d. ofnæmistöflur og krem á bólurnar og ég er laus við 80-90% af þeim, sem betur fer. Við erum nefnilega að fara í fermingarveislu í dag og það hefði verið frekar fúlt að mæta þangað eins og ég var.

Það er Jóns Stefán vinur Ísaks og sonur Sunnu og Kidda sem er að fermast. Maður áttar sig helst á því hvað tíminn líður hratt þegar maður sér börnin vaxa úr grasi og verða að unglingum og svo fullorðnu fólki. Ísak og Jón Stefán kynntust á leikskóla svona ca. 2ja til 3ja ára gamlir og hafa verið bestu vinir síðan. Þó koma tímabil inn á milli þar sem þeir hittast minna en vinskapurinn er ávallt sá sami.

Þetta minnir mig á vinskap okkar Rósu, æskuvinkonu minnar, sem átti heima hér beint á móti mér í Stekkjargerði. Þó við höfum ekki búið í sama bæ síðan um tvítugsaldurinn, þá er þessi kjarni alltaf til staðar og iðulega jafn gaman að hittast þó það sé kannski ekki svo oft. Hin síðari ár hef ég fengið að gista hjá henni þegar ég hef verið að erindast í höfuðborginni og það er alltaf jafn notalegt.

föstudagur, 25. apríl 2008

Gaman gaman

Við Sunna skruppum smá rúnt áðan til að velja málningu fyrir nýju búðina á Glerártorgi. Þegar því var lokið datt Sunnu í hug að fara með mig og kíkja á framkvæmdirnar því ég hef náttúrulega ekki komið þangað síðan við fengum plássið afhent. Það var auðvitað alveg upplagt að renna þar við úr því ég var hvort sem er komin út úr húsi. Málarinn var á fullu að sparsla, það er búið að reisa milliveggi og píparinn kemur um helgina, þannig að það er bara allt á fullu. Mikið sem er nú gaman að sjá þetta taka á sig mynd. Við vorum alltaf að rýna í teikningar en það er allt öðruvísi að sjá þetta svona í raun og veru. Reyndar finnst mér plássið hálf lítið eitthvað en það breytist örugglega þegar búið verður að mála veggina hvíta.

P.S. Og bara svo það sé nú alveg á hreinu þá er ég bara í góðum gír þessa dagana, þrátt fyrir brjósklos og bólur. Þessi pistill minn hér að neðan var meira svona pælingar um heildarsamhengi hlutanna en ekki merki um að ég væri alveg að tapa glórunni af streitu akkúrat hér og nú. Bara áminning til sjálfrar mín um að muna líka eftir því að gera hluti sem veita mér ánægju og hjálpa til við að hlaða batteríin.

fimmtudagur, 24. apríl 2008

Eureka

Stundum veit maður eitthvað en einhverra hluta vegna nær ekki að átta sig á samhengi hlutanna eða mikilvægi ákveðinna þátta í heildarmyndinni. Í dag áttaði ég mig "allt í einu" á þeirri staðreynd að ég er bókstaflega að drepa sjálfa mig úr streitu. Það er að segja, ég kann ekki að koma í veg fyrir að ég stressist alltof mikið upp út af ýmsu og kann ekki að vinna úr ástandinu þegar líkaminn er að reyna árangurslaust að gefa mér skilaboð um að streitan sé búin að ná hættumörkum og mál sé til komið að gera eitthvað gagnverkandi. Fólk er misjafnt og það sem veldur einum manni álagi hefur ekkert að segja hjá næsta manni. Ég er þannig að ég stressast upp yfir hinu og þessu (þyrfti sennilega að grafa aðeins dýpra í sálarkimana til að átta mig á því af hverju það er), jafnvel þótt skynsemin segi mér að þetta séu ekki hlutir til að hafa áhyggjur af. Þegar ég er svo undir langvarandi álagi er ég greinilega ekki nógu dugleg að átta mig á því, hvað þá að gera eitthvað til að vinna á móti slæmu áhrifunum. Það þarf ekki annað en lesa sér til um hvað gerist í líkamanum við streitu (svokallað "fight or flight" viðbragð) til að sjá að það er ekki hollt að vera undir álagi í langan tíma. Ef við tökum sjálfa mig sem dæmi þá hef ég greinilega alls ekki verið að gera það sem í mínu valdi stendur til að vinna gegn neikvæðum afleiðingar streitu, hvað þá að vinna markvisst að því að verða ekki svona stressuð yfir öllu mögulegu og ómögulegu. Þannig að í staðinn þá þróa ég með mér vefjagigt (með öllu því sem henni fylgir), fæ brjósklos og það nýjasta; fæ útbrot á andlit, hársvörð, axlir og bringu. Það var einmitt þetta síðasta sem gerði það að verkum að ég lagði tvo og tvo saman... Í fyrradag byrjaði ég að fá smá bólur í andlitið, svipaðar hormónabólum hjá ungbörnum, sem bara hafa versnað og í dag var mig þar að auki farið að klæja all verulega í bólurnar. Þannig að ég lagðist í rannsóknir á netinu og sá að líklega var um ákveðið ástand að ræða sem er eins konar exem og leggst einkum á miðaldra stressaðar og/eða þunglyndar konur (það er í lagi að hlæja núna). Skyndilega laust þá þessari innsýn niður í mig, að ég væri bókstaflega að drepa sjálfa mig úr streitu og það væri algjörlega á mína ábyrgð að grípa til allra þeirra ráða sem á mínu valdi eru til að laga ástandið. Í kjölfarið auglýsi ég hér með eftir ráðum til að vinna á krónískri streitu...

Gleðilegt sumar


Í kvöldblíðunni, originally uploaded by Guðný Pálína.

Enn einn dýrðardagurinn hér í höfuðstað Norðurlands. Spáin var víst ekki svona góð en gott að hún skyldi ekki standast því hér er nýhafið Andrésar andar mót á skíðum og gaman fyrir krakkana að fá svona gott veður.

Við Valur röltum einn lítinn hring hérna í hverfinu í morgun og ég er nú öll að styrkjast þó mér finnist þetta ganga voðalega hægt. Í dag er kominn hálfur mánuður frá því ég fór í aðgerðina og þrátt fyrir að mér finnist hver og einn dagur óskaplega lengi að líða þá hefur þetta nú liðið býsna hratt. Vonandi verð ég orðin þokkalega spræk eftir mánuð þegar Pottar og prik opna á Glerártorgi :-)

P.S. Valur tók þessa mynd seinni partinn í júlí árið 2005 þegar við fórum einn kvöldrúnt til að taka myndir með Canon myndavélinni sem við höfðum þá nýlega keypt.

miðvikudagur, 23. apríl 2008

Skottið eins og klósettbursti

Ég get ómögulega munað hvar ég heyrði þessa líkingu fyrst, kannski var það hjá Bryndísi sem talaði um rykrottur og fleira sem ég hafði aldrei heyrt áður. Kannski hjá einhverjum allt öðrum. En mér finnst þetta a.m.k. skemmtileg samlíking og áðan var skottið á Mána sem sagt í laginu eins og klósettbursti.

Ég lá (aldrei þessu vant) á sófanum í stofunni og hurðin út í garð var opin enda áframhaldandi gott veður hér norðan heiða. Þá kom Birta inn og ég sá að skottið á henni var býsna digurt svo ég staulaðist á fætur og leit út. Þar var Máni búinn að fela sig inni í trjábeði og fyrir framan það lá bröndóttur köttur og starði á Mána. Upp var greinilega komin einhver pattstaða en um leið og ég kom í dyrnar lagði sá bröndótti á flótta, þó hægt færi. Um leið og hann var búinn að snúa bakinu í Mána kom hinn síðarnefndi út úr trjábeðinu og vá hvað skottið á honum var úfið. Nú þegar honum hafði borist liðsauki þandi hann brjóstið og rak upp ámátlegt hljóð sem hefur kannski átt að stökkva óvininum á frekari flótta en var of væskilslegt til að ná fullkomnum árangri. Til að fylgja hljóðinu eftir með verklegum hætti lagði Máni af stað á eftir þeim bröndótta sem gekk aðeins hraðar á brott með skottið á milli lappanna (í orðsins fyllstu merkingu). Ég kallaði á Mána því ég óttaðist að hann væri að lenda í slagsmálum en hann þóttist ekki heyra í mér. Þrátt fyrir digurbarkalega hegðun elti hann óvininn ekki lengra en að endamörkum lóðarinnar en þar stóð hann svo í smá stund áður en hann snéri við og kom til mín. Með þetta líka risastóra skott! Fram til þessa hefur Máni seint getað talist með hugrökkustu köttum svo ég veit ekki alveg hvað hefur komið yfir hann.

þriðjudagur, 22. apríl 2008

Skrautlegt skýjafar


Skrautlegt skýjafar, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég held áfram að hrella fólk með endalausum myndbirtingum. Hehe, en af því mér finnst það skemmtilegt þá ætla ég ekki að hætta því, enda er þetta mín síða og þ.a.l. ræð ég hvað birtist á henni :-)

Þolinmæði er þrautin þyngri

Smá útúrsnúningur á "þolinmæðin þrautir vinnur allar". Það er eins og það sé í sífellu verið að testa þolinmæðina hjá mér - og alltaf fell ég á prófinu. Er ekkert að láta hugfallast, svo það sé nú alveg á hreinu. En eftir að hafa verið svo ógurlega hress í mínu nýuppskorna baki er ég farin að fá verki í mjóbakið, svona þungan seiðing sem leiðir niður í báðar rasskinnar og svo niður í vinstri fót. Bæklunarlæknirinn sem skar mig upp var búinn að vara mig við þessu og sagði ég ég mætti búast við að vera slæm í bakinu í einhverjar vikur meðan þetta væri allt að gróa og falla í réttar skorður aftur. Samt varð ég pínu fúl - hef sennilega haldið að ég væri eitthvað öðruvísi en annað fólk ;-)

Í morgun lá ég á netinu og las spjallsíður fólks sem hefur farið í svona aðgerð á www.spine-health.com og þar sá ég svart á hvítu að þetta getur tekið langan tíma að jafna sig allt saman. Og sumir sem fara of skarpt af stað fá nýtt brjósklos á sama stað. Þannig að ég verð bara að samþykkja þetta ástand og vera ekki að hugsa um allt sem ég get ekki gert - sem er nú hægara sagt en gert. Ég hef t.d. verið að setja í eina og eina þvottavél en í gær sá ég að ég get ekki lengur hengt upp þvottinn (þetta voru bara örfáir bolir, engin þyngd í þeim) án þess að fá í bakið. Þannig að í morgun þegar Andri leitaði árangurslaust í herberginu sínu að hreinum nærbuxum fékk hann það verkefni að setja í þvottavélina. Svo heppilega vildi til að síðan var tveggja tíma frí hjá honum í skólanum þannig að hann kom þá heim og hengdi upp úr vélinni. Einnig reimaði hann skóna á mömmu sína svo hún komst út í smá gönguferð.

Nú ligg á sófanum ég með tölvuna í fanginu og var að skoða myndir sem ég tók í gær af skýjafarinu við Súlur. Við fyrstu sýn sýndust mér þær ágætar en svo sé ég að það vantar herslumuninn uppá að nokkur þeirra sé virkilega góð. Ég er nú samt að hugsa um að birta eina á blogginu á eftir, bara svona til að gefa hugmynd um hvað himininn var skrautlegur þarna í smá stund í gær.

Svo þarf ég að þjálfa mig upp í að geta gert gáfulega hluti standandi/liggjandi. Ég er svo vön því að sitja við skrifborð þegar ég er að vinna að mér bara finnst það ógjörningur að hugsa eða vera skapandi útafliggjandi. En þetta er örugglega bara þjálfunaratriði.

sunnudagur, 20. apríl 2008

Góður dagur

Eftir að hafa skrapað botninn í gær vegna almennra leiðinda liggur leiðin bara uppá við að nýju. Í gærkvöldi meðan Valur fór á árshátíð fékk ég mér gott að borða (sjávarréttapasta, afganga frá föstudeginum), hringdi svo í Ingu vinkonu mína á Seltjarnarnesi og talaði við hana í klukkutíma og horfði svo á seinni bíómynd kvöldsins í sjónvarpinu. Lá svo uppi í rúmi og las uppbyggilega bók þar til Valur kom heim og við sofnuðum. Í morgun hringdi Rósa æskuvinkona mín í mig frá Reykjavík og við spjölluðum í nærri klukkutíma (hehe, ég sleppti henni ekkert úr símanum fyrr). Seinna í dag komu svo Soffía sem vinnur með Vali á Læknastofunum og Rögnvaldur maðurinn hennar í óvænta en ánægjulega heimsókn. Rétt eftir að þau voru farin hringdi Erna sem er bæði hárgreiðslukonan mín og með mér í kvennaklúbbnum og það var líka voða gaman að heyra í henni. Þannig að þörf minni fyrir félagslegt samneyti hefur heldur betur verið fullnægt í gær og í dag. Við Valur enduðum svo á því að skreppa í Pennann núna eftir kvöldmat. Strangt til tekið má ég ekki sitja í bíl en ég hallaði sætinu bara mjög mikið aftur og þetta var nú ekki löng ferð. En það var mjög gott að komast aðeins út af heimilinu og í annað umhverfi þótt stoppið væri stutt. Og nú er ég farin að horfa á Monk spæjara :-)

laugardagur, 19. apríl 2008

Já einmitt!

Ísak fékk leyfi til að fá tvo vini sína í næturheimsókn og ég hef að mestu látið þá afskiptalausa í kvöld. Vissi að þeir fóru út í sjoppu til að kaupa sér snakk og nammi, og var ekki að tékka neitt sérstaklega á innihaldi pokanna sem þeir komu með heim. Eftir að hafa setið í símanum í nærri klukkutíma og spjallað við góða vinkonu mína datt mér í hug að fara niður í sjónvarpsherbergi og athuga hvort allt væri ekki í lukkunnar velstandi. Þegar ég nálgaðist heyrði ég að heimabíóið var á fullu gasi og mikill hlátur mætti mér. Þá voru þeir búnir að leigja mynd og þar fyrir utan voru hvorki meira né minna en 6 tómar dósir undan orkudrykkjum á borðinu. Ekki nema von að það væri fjör hjá þeim! Ég hef aldrei keypt orkudrykk handa Ísak og var nú ekkert voða hrifin af því sem fyrir augu bar. "Jæja, ætli þið sofnið nokkuð fyrr en í fyrramálið?" var eina athugasemdin sem mér datt í hug og fékk snöggt svar: "Blessuð vertu, við finnnum ekki fyrir þessu". Og þá varð mér að orði: "Já, einmitt!" Svo fór ég bara og vildi ekki vera að skemma ánægjuna fyrir þeim. En sem sagt, það verður spennandi að vita hvenær þeir sofna í kvöld/nótt...

Og nú er ég búin að blogga enn einu sinni - treysti því að Hrefna mín verði ánægð með frammistöðuna hjá mömmu sinni :-)

Eplatré í blóma


Eplatré í blóma, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég var úti að ganga með myndavélina áðan þegar það kallaði í mig kona sem býr í næstu götu fyrir neðan mig og spurði hvort ég vildi ekki taka myndir af eplatrénu hennar því það væri í fullum blóma. Ég sagði að ég væri eiginlega ekki með réttu linsuna en vildi samt endilega sjá tréð. Þegar til kom þá sá ég að ég næði alveg að mynda tréð. Stóðst ekki að birta myndina því það var svo gaman að sjá þessa grósku núna þegar flestallur gróður er enn undir snjó.

Hehe, mér hefndist fyrir að segja að ég væri orðin verkjalaus

Þegar ég vaknaði í morgun var ég kominn með leiðsluverk niður í fót. Þannig að það er eins gott að passa sig á því hvað maður segir ;-)

Úti er þetta fína fína veður og ekki spurning að ég verð að drífa mig út að ganga. Ísak er farinn á fótboltaæfingu og Valur er farinn á fræðsludag í vinnunni. Svo er árshátíð hjá þeim í kvöld, það verður farið á Friðrik V. og borðað þar. Hefði verið fráært að komast með en því er víst ekki að heilsa núna og þýðir ekkert að fást um það. Andri sést lítið heima við þessa dagana, er alltaf hjá kærustunni. Þannig að það verða bara ég og kettirnir sem förum saman út að spássera.

Valur er í bókaklúbbnum Neon og fékk senda nýja bók í gær. Hún heitir "Kona fer til læknis" og er eftir hollenskan mann, Ray Kluun að nafni. Ég greip hana fegins hendi því mig vantað einmitt einhverja kilju sem handhægt er að lesa liggjandi. Bókin fjallar um mann, giftan með eitt barn, sem lifir í lukkunnar velstandi þegar konan hans greinist með krabbamein. Þrátt fyrir að um mjög alvarlegt krabbamein sé að ræða og konan deyi úr því á endanum heldur maðurinn áfram að halda fram hjá henni, eins og hafði verið venja hans fram að því. Fyrst í stað með hverri þeirri dömu sem hann hittir og er til í tuskið en svo með einni ástkonu. Barnið er tveggja/þriggja ára þegar þetta er. Konan veit af framhjáhaldinu en ákveður að hún vilji fremur eyða síðustu mánuðum ævi sinnar með honum heldur en án hans. Hún skrifar falleg bréf til litlu dótturinnar sem mun ekki koma til með að muna neitt eftir móður sinni þegar hún vex úr grasi. Þar sem sagan gerist í Hollandi endar konan á því að fara fram á líknardráp og verður að þeirri ósk sinni. Maðurinn hugsar óaðfinnanlega um hana á endasprettinum og þetta verður eins hamingjusamur dauðdagi og hægt er að fara fram á.

Ástæðan fyrir því að þessi bók vekur með mér vanlíðan er ekki bara framhjáhald mannsins þó það hefði eitt og sér nægt til þess að vekja með manni vissan viðbjóð. Það sem setur mig úr jafnvægi er sú staðreynd að þessi saga er sönn, þ.e. kona rithöfundarins dó úr krabbameini og í kjölfarið skrifaði hann þessa metsölubók. Maður getur velt fyrir sér siðferðinu á bak við það að "nota" látna eiginkonu á þennan hátt en það sem situr í mér er dóttirin. Hvernig mun það verða fyrir hana þegar hún er komin til vits og ára (er víst 9 ára í dag) að lesa þessa bók? Kannski pabbi hennar verði þá fyrir löngu búinn að segja henni söguna sem slíka en einhvern veginn finnst manni það ekki sanngjarnt gagnvart henni að byrja lífið með svona bagga á bakinu. Það er að segja, ekki nóg með að mamma hennar sé dáin og hún alist upp hjá konunni sem var viðhald pabbans á meðan mamman lá á dánarbeði (kemur fram í viðtölum við höfundinn á netinu að hann er núna giftur fyrrum viðhaldinu og þau eiga barn saman) heldur veit allur heimurinn af því að pabbinn: a) hélt framhjá mömmunni og b)gerði sér mat úr þessum aðstæðum með því að skrifa um þær bók og hagnaðist þannig fjárhagslega á ölllu saman.

Jamm og jæja, þetta voru vangaveltur dagsins. Held að ég snúi mér að meira uppörvandi hlutum núna, eins og að fara út í góða veðrið.

Sé ekki alveg hvernig ég á að geta tekið því rólega í 6 daga enn...

Mér finnst ég vera orðin svo frísk að ég fer á fullt að gera hitt og þetta og gleymi að ég átti að taka því rólega. Vera prinsessa næsta hálfa mánuðinn sagði læknirinn. Ég finn orðið sama sem ekkert fyrir skurðsárinu en það var helst það sem hjálpaði mér að muna að fara varlega. Reyni samt að vera alltaf bein í baki og finn að ég þarf að passa vinstri fótinn - en ég held ég missi glóruna að vera hérna heima alla næstu vinnuviku líka. Er ekki alveg að takast að finna mér eitthvað gáfulegt að gera hér heima við sem krefst þess ekki að ég geti beygt mig eða setið í stól. Heppilegt samt að það skuli vera svona gott veður, þá kemst ég út að viðra mig án þess að hafa áhyggjur af því að lenda á hálkubletti og detta. Það er samt ótrúlega leiðinlegt að þurfa að horfa á aðra geta hluti sem eru venjulega í mínum verkahring (það er nú aðallega Valur hér heima við - og svo veit ég að það mæðir mikið á Sunnu í vinnunni). En sem sagt, ég þarf bara að þrauka 6 daga í viðbót, ég hlýt að geta það :-)

föstudagur, 18. apríl 2008

Tveir kettir lögu af stað í leiðangur




Þetta eiga ekki að vera eitthvað frábærar myndir af köttunum, heldur eru einungis birtar til að sýna hvaða fylgdarlið ég hef í gönguferðum mínum þessa dagana. Eins gott að ég er ekki að fara langt...

Léttara yfir mér í dag

Ég er meira að segja búin að baka köku, norska skúffuköku sem heitir á orginalmálinu "surmelkkake". Uppskriftin er komin frá Marit sem var dagmamman hans Andra í Tromsö. Ég reyndi að gera hana aðeins "hollari" og notaði spelt og hrásykur í deigið. Einnig er í henni súrmjólk (eins og nafnið gefur til kynna), smjör, hellingur af kanil og natron. Kremið er hins vegar ekkert sérlega hollt, hálfur pakki af flórsykri, ein plata af suðusúkkulaði og 100 gr. af smjöri. Rosaleg sykurbomba.

Það vantaði súrmjólk í kökuna svo ég lét mig hafa það að rölta út í búð. Frá á fæti er ég nú ekki en ég komst báðar leiðir þrátt fyrir að vera orðin ansi lúin í vinstri fætinum þegar heim var komið. Ég finn að það er að koma meiri tilfinning í hann en samt vantar töluvert uppá kraftinn ennþá.

Nú vantar bara fólk í kaffi til að borða blessaða kökuna :-)

fimmtudagur, 17. apríl 2008

Held að ég sé að verða búin að lesa öll blogg á Íslandi

Jæja, kannski svolítið orðum aukið, en ég er búin að lesa hræðilega mörg blogg í dag. Veit orðið margt og mikið - sem ég gleymi jafnharðan aftur - um allt og ekkert.

Þetta voru þriðju mistök mín í dag. Mistök nr. 1 voru að leggja mig aftur eftir að Ísak var farinn í skólann og sofa til klukkan hálf ellefu. Mistök nr. 2 voru að borða súkkulaðistykki (Lion bar) sem Andri skildi eftir á eldhúsborðinu, strax á eftir Udo´s olíu og súrmjólk með múslí. Nú ligg ég í sófanum með tölvuna í fanginu, uppþemd og ropandi (skemmtileg lýsing), með höfuðverk af blogglestri og er ekki einu sinni búin að fara í sturtu í dag, hvað þá að klæða mig úr náttfötunum eða fara út að ganga. Já, þetta er hálf "pathetic" eitthvað.

Sólin skín úti og hitinn er einhverjar plúsgráður, Máni liggur til fóta hjá mér en ég veit ekki um Birtu. Annað heimilisfólk er í vinnu og skóla.

Þegar ég fór að sofa í gær var ég í jákvæðnikasti, sá sjálfa mig fyrir mér læknast fljótt af þessu brjósklosi, byggja mig upp í vetur og fara að skokka næsta sumar - en þegar ég vaknaði í morgun var ég bara leið yfir því að framundan væri enn einn dagurinn í veikinda"fríi".

En svo ég sé nú aðeins á jákvæðu nótunum líka, þá held ég að þetta sé allt að koma. Í dag er vika frá aðgerðinni og ertingin í skurðsárinu sem var að gera mig vitlausa í gær er mun minni í dag. Mér er ekkert illt í bakinu sjálfu og ég er ekki frá því að það sé örlítið meiri máttur í vinstri fætinum. Er samt ennþá dofin fyrir neðan hné og það er stórfurðulegt að strjúka yfir húðina þar.

Nú heyrði Máni í fuglum úti og stökk allt í einu uppá sófabakið til að tékka betur á þessu. En letin náði yfirhöndinni aftur og hann lagðist á sama stað. Nú er bara spurning hvað hinn letihaugurinn í sófanum gerir...

miðvikudagur, 16. apríl 2008

Endalaus blogg...

Jæja, tölvumaðurinn hringdi tilbaka og ég er búin að endurstilla "trackpad" skipanirnar, þannig að nú virðist vera í lagi með þetta. Það tók sem sagt 3ja mínútna símtal að laga vandamál sem var búið að ergja mig í nokkrar vikur! Já svona getur skort á framtakssemina hjá mér stundum. Annars er ég ógurlega þreytt eitthvað í dag og lagði mig og svaf í tæpa tvo tíma í kringum hádegið. Svo kom Valur heim í kaffi og reimdi á mig skóna svo ég komst út að "ganga" (öllu má nú nafn gefa) í smá stund og gat fengið mér smá súrefni. Það er alveg dásamlegt veður úti og kettirnir njóta þess að sitja úti í sólinni. Held svo bara að ég segi þetta gott í bili, ætli ég eigi ekki eftir að vera að blogga endalaust næstu dagana...

Eintóm myndablogg þessa dagana

Er voðalega löt í dag eitthvað og bara búin að hanga í tölvunni síðan um áttaleytið - eða jú ég borðaði líka morgunmat ;-) Annars er tölvan að stríða mér, þegar ég skrifa texta þá hoppar bendillinn tilbaka alveg ófyrirsjáanlega, oft um einhverja stafi, stundum fer hann nokkrar línur tilbaka og þá er ég allt í einu farin að skrifa ofan í það sem ég hafði skrifað áður. Reyndi að hringja áðan í tölvumanninn okkar en hann var ekki við. Konan sem svaraði í símann ætlaði að biðja hann að hringja í mig, verður spennandi að sjá hvernig það fer...

þriðjudagur, 15. apríl 2008

Alveg á útopnu - eða næstum því

Mér skilst á eiginmanninum að ég þurfi að taka lífinu aðeins meira með ró. Finnst svo leiðinlegt að liggja fyrir að ég stend og geng um húsið megnið af deginum, bæði í gær og í dag, og fór meira að segja út að ganga báða dagana. Gekk alveg 200 metra eða eitthvað svoleiðis... ;-) En nú eru fæturnir farnir að kvarta, þeir eru ekki vanir svona miklum stöðum (ja nema í vinnunni í nóvember og desember) og mig verkjar líka í ökklann vinstra megin þar sem mig vantar ennþá mátt í þann fót.

Þetta var stöðuskýrsla úr Stekkjargerði 7, þriðjudaginn 15. apríl 2008, kl. 19.42

mánudagur, 14. apríl 2008

Á móti sól


Á móti sól, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég er að reyna að finna leiðir til að njóta þessa að vera heima (takið sérstaklega eftir því að ég sleppti neikvæðu lýsingunni "að finna leiðir til að drepa tímann") þrátt fyrir að hreyfigetan sé afar takmörkuð. Nú er komið hádegi og þetta gengur bara nokkuð vel. Lá í sófanum og las mér til um myndavélina mína og fór svo að svipast um eftir myndefnum. Tók fyrst nokkrar myndir af blómunum sem mér voru færð á sjúkrahúsið (Valur kom með rósavönd og Surekha kom með fjólubláa túlipana) en fór svo út á tröppur og smellti af nokkrum myndum þar. Ekkert smá flott veðrið núna! Ég myndi fara út að ganga, þó ég þyrfti að skakklappast, ef ég bara kæmist í skóna mína en það geri ég víst ekki.

Góðu fréttirnar eru þær að byggingafulltrúi er búinn að samþykkja teikningarnar að versluninni okkar á Glerártorgi þannig að nú geta framkvæmdir hafist. Stefnt er að opnun þann 22. maí.

sunnudagur, 13. apríl 2008

Einhverjir græða á ástandinu...

Get ekki sagt að ég sé neitt rosalega glöð með þetta nýfengna frelsistap mitt en geri mér samt grein fyrir því að ástandið gæti verið miklu verra. Held að erfiðasta áskorunin verði að halda geðheilsunni næstu vikurnar. Ég þreytist ennþá mjög fljótt við að standa og er ansi máttlaus í vinstri fætinum. Göngulagið er eins og hjá "Inspector Morse" ef einhver man eftir þeim ágæta sjónvarpslögreglumanni. Þannig að ég ligg mestanpartinn fyrir, ýmist í sófanum í stofunni, inni í rúmi eða niðri í sjónvarpsherbergi. En af því það er svo leiðinlegt að liggja bara og stara út í loftið er ég að reyna að lesa, vera í tölvunni eða horfa á sjónvarpið og það krefst þess að ég sé með hærra undir höfðinu - og nú er ég komin með hinn versta hálsríg af þeim sökum. En eins og fyrirsögn þessa pistils gefur til kynna þá eru ekki allir óánægðir með ástandið, kettirnir beinlínis elska að liggja hjá mér í sófanum :-)

laugardagur, 12. apríl 2008

Komin heim eftir brjósklos + aðgerð

Já síðustu dagar hafa ekki beint verið tíðindalausir hjá mér en það er hins vegar hætt við því að næstu 14 dagarnir verði frekar rólegir enda má ég ekkert gera nema standa og liggja. Jú og ganga, en það er frekar erfitt því vinstri fóturinn er allur dofinn og lætur fremur illa að stjórn.

Ég held að ég nenni ekki að skrifa meira í bili, hef ekki mikið úthald í að standa kyrr, a.m.k. ekki ennnþá.

sunnudagur, 6. apríl 2008

Dýrðardagur í Hlíðarfjalli

Ég lét mig hafa það að drífa mig á skíði með bóndanum um hádegisbilið í dag, þrátt fyrir að vera hálf vansvefta og að drepast í annarri mjöðminni (afleiðing bakverkjarins um daginn). Við fórum okkur nú afskaplega rólega, ég lét Strýtuna alveg eiga sig í þetta sinn, en horfðum aðeins á keppni í samhliða svigi á Unglingameistaramóti Íslands. Það var ótrúlega fátt fólk á skíðum þrátt fyrir dásamlegt veður og færi. Við vorum ekkert óskaplega lengi en gott var það samt.

Núna sit ég fyrir framan tölvuna (hm, þú segir ekki...) og ætlunin var að fara að vinna í bókhaldi enda ekki seinna vænna, við eigum að skila virðisaukaskattinum á morgun. Letin er bara alveg að drepa mig í augnablikinu - en það þýðir nú víst ekki að láta endalaust undan henni. Nóbb, bara bretta uppá ermarnar, spýta í lófana og allt heila klabbið :-)

laugardagur, 5. apríl 2008

Valur í Vaðlaheiði


Valur í Vaðlaheiði, originally uploaded by Guðný Pálína.

Við Valur fórum í stutta ljósmyndaferð yfir í heiði í dag. Veðrið var frábært og það var alveg meiriháttar gott að fara aðeins út í sólina. Myndirnar heppnuðust fæstar en það er í raun ekki aðalatriðið að mínu mati. Meira máli skiptir að vera úti og gleyma sér um stund við að taka myndir.

Sandur og sjór


Sandur og sjór, originally uploaded by Guðný Pálína.

föstudagur, 4. apríl 2008

Tapað - fundið

Tja, eða bara tapað... Heimilisfólk í Vinaminni er afskaplega duglegt við að týna hlutum þessa dagana og enn sem komið er hefur hvorki giftingarhringur, leðurhanskar, húfa né KA stuttbuxur fundist. Vonandi fer eitthvað af þessu og helst allt saman að koma í leitirnar.

Annars er fátt í fréttum. Ég fékk einhverja pesti sem byrjaði með miklum höfuðverk í fyrradag og við bættust síðan alveg hrikalegir beinverkir og almenn vanlíðan. Sem betur fer gat Nanna unnið fyrir mig í gær og ég svaf nánast óslitið frá átta til fjögur. Hresstist töluvert eftir kvöldmatinn en þorði ekki annað fá Nönnu til að vinna fyrir mig í dag líka og afboðaði klúbbinn sem ég ætlaði að halda í dag. Svo steinsvaf ég í alla nótt og vaknaði svona líka hress í morgun. Dauðsá eftir því að hafa sjálfkrafa gert ráð fyrir því að vera veik í dag og fannst ekki spennandi tilhugsun að þurfa að eyða deginum innan dyra þegar ég var orðin svona hress. En eftir að hafa stússast aðeins í eldhúsinu og farið tvær ferðir milli hæða var ég orðin svo þreytt að ég þurfti að setjast og hvíla mig, þannig að þetta er greinilega týpisk víruspesti þar sem maður er hressari inn á milli en dettur svo niður í svaka þreytukast. Og þá er víst ekki um neitt annað að ræða en taka því rólega og reyna að jafna sig.

Það er eiginlega hálf klént að blogga svona í sífellu um eigið heilsufar og mér koma í hug samskipti sem ég heyrði í heita pottinum um daginn. Þegar ég kom ofan í pottinn var þar fyrir staddur karlmaður sem ég spjalla stundum við og hann fór óðara að segja mér frá því að hann hefði fengið í bakið við að moka snjó um daginn. Hann hafði vart lokið frásögninni þegar einhver kunningi hans kom í pottinn og sá bakveiki tók aftur til máls: "Ja, nú er það ljótt maður. Heldurðu að ég hafi ekki verið að moka snjó og fengið svona rosalega í bakið. Ég var bara alveg að drepast." Þá svarar hinn: "Það er nú ekkert nýtt, þú ert alltaf hálfdauður, væri ekki bara betra að drepast alveg?"

Kunninginn virtist vera búinn að fá yfir sig nóg af sjúkrasögum félagans og líklega getur það verið býsna þreytandi fyrir þá sem þurfa að hlusta á/lesa um veikindi annarra. Gallinn er bara að maður fær vissa fróun við það að geta sagt öðrum frá vandamálum sínum, maður er þá ekki lengur jafn mikið "Palli var einn í heiminum" og fer að líða aðeins betur andlega. Hins vegar hefur það þótt styrkleikamerki að bera harm sinn í hljóði og mér finnst ég stundum vera voðalegur aumingi eitthvað að vera að "væla" svona. Þannig að það er ekki alltaf gott að vita hver rétta leiðin er í þessum málum, frekar en öðrum.