laugardagur, 17. mars 2012

Skemmtilegur skátafundur

Já þá er skátafundurinn á enda og ég komin heim. Klukkan er rúmlega tvö að nóttu og leitun að nóttu hin síðari ár þar sem ég hef komið jafn seint heim. Það er langt, langt síðan. Kannski var það síðast fyrir þremur árum, á síðasta skátafundi? Nei, ég er ekki að grínast, ég held að ég hafi ekki farið "á djammið" síðan, í alvöru talað. Enda grunar mig að morgundagurinn verði ekkert grín, þegar frúin verður þreytt og illa sofin, en það er þá vandamál morgundagsins. Mér tókst nú að vera svona lengi á skralli í kvöld af því ég svaf svo lengi í morgun. Svo kannski ég sofi bara lengi frameftir í fyrramálið líka ;) Núna þykist ég ekki taka eftir vöðvaverkjum og eyrnasuði, sem eru að minna á sig. Núna er ég bara glöð með kvöldið, enda skemmtilegur hópur þessar skátastúlkur. Við vorum að rifja upp fortíðina og það þegar þessi skátaflokkur okkar var stofnaður.

Það var að undirlagi Siggu Stefáns sem stofnaður var glænýr flokkur innan 2. sveitar. Sigga Stef. var ótrúlega kraftmikil og "öflug" en það orð var í uppáhaldi hjá henni. Því miður dó hún fyrir aldur fram, um fertugt, en á þessum tíma var hún okkur öllum mikil fyrirmynd og við litum allar upp til hennar. Við stofnuðum sem sagt nýjan skátaflokk sem hlaut nafnið "Sporið" og svo þurfti að semja flokkssöng, flokkshróp og margt fleira. Við fengum mæður okkar til að sauma skikkjur úr þungu ullarefni sem keypt var í Gefjun, og eins var saumað utan um varðeldasessur (innihaldið var plastpoki úr 10 lítra mjólkurkössum, sem blásinn var upp), hnífaparapoka og fleira. Við bjuggum til göngustafi með merki flokksins, sem var prik með gúmmíbolta efst (fyrir haus) og svo löfðu lappir neðan úr. Lappirnar voru snærisspottar og á enda snærisins voru leðurbútar sem út var búið að skera í "fætur" eða iljar. Já þetta voru góðir tímar og gott að eiga svona góðar minningar úr skátunum. Við entumst nú mis lengi í þessu, en flestar voru í nokkur ár og við fórum allar saman á a.m.k. tvö skátamót. Hið fyrra var í Leyningshólum 1976 og hið síðara að Úlfljótsvatni 1977.

Í kvöld minntumst við líka fallinna félaga, ef svo má að orði komast. Í desember 1980 urðu úti tveir ungir piltar og annar þeirra, Freysteinn Guðmundsson, var jafnaldri og bekkjarbróðir okkar Rósu í MA. Það var fyrst um daginn að ég áttaði mig á því að einn þriggja húsvarða á Glerártorgi væri líklega pabbi Freysteins, og í kvöld fékk ég það staðfest. Þetta var afskaplega sorglegur atburður og við fórum á jarðarförina, sem var fyrsta jarðarförðin sem ég fór á.

Jæja, nóg um þetta. Ætli sé ekki best að drífa sig í háttinn.

2 ummæli:

ella sagði...

Áttu eitthvað af þessum gömlu skátamunum?

Guðný Pálína sagði...

Nei því miður á ég ekkert af mínu gamla skátadóti, sem er synd og skömm. En Rósa vinkona mín á eitthvað af munum og í gær kom hún t.d. með gamlar mótsskrár sem við glugguðum í. Þar var m.a. kennt að steikja fiskibúðing og var það býsna skemmtileg lesning.