Það er alltaf þannig með mig að annað hvort blogga ég ekki það lengi að mamma hringir til að athuga hvort ekki sé allt í lagi með mig, eða að ég blogga á hverjum degi, jafnvel tvisvar á dag. Loks þegar flóðgáttirnar opnast þá gerist það með stæl.
Annars ætlar þetta að verða skrítinn dagur. Fyrir það fyrsta gat ég ekki sofnað í gærkvöldi, þar sem Fröken Upprifin lá í rúminu mínu, og tók allt plássið. Hún kemur stundum í heimsókn og er svo fyrirferðamikil að það er sama hvað ég reyni að slaka á og láta fara lítið fyrir mér, allt kemur fyrir ekki og á endanum gefst ég upp og fer aftur fram. Það var svo margt að brjótast um í kollinum á mér. Sumt hafði að gera með að vera skapandi/fá hugmyndir og þegar ég fer í þann gír er vita vonlaust fyrir mig að reyna að sofna. Og eins undarlegt og það hljómar, þá var ég á sama tíma orðin yfir mig þreytt og þá get ég stundum heldur alls ekki sofnað. Einstaka sinnum hef ég tekið svefntöflu þegar svona ber undir, en ekkert slíkt er til í húsinu um þessar mundir (já já farin að ríma og allar græjur!).
Alla vega, ég sofnaði ekki fyrr en milli tvö og þrjú, og ákvað að láta það þá bara eftir mér að sofa út í morgun. Málið er að í kvöld er nefnilega "skátafundur" og þá er ekki gott að vera að drepast úr þreytu. Gamli skátaflokkurinn ætlar að hittast kl. 18.30 heima hjá einni okkar og fara svo út að borða saman. Það er reyndar lítilsháttar vandamál að ég er að vinna til 18.30, svo ég verð að mæta aðeins seinna. Og ég get ekki ákveðið hvort ég á að taka föt og snyrtidót með mér í vinnuna og fara beint í partýið, eða fara heim og græja mig þar. Hm, mjög stórt vandamál... eða þannig.
Það kom mér reyndar verulega á óvart hvað ég náði að sofa lengi í morgun, eða til hálf ellefu. Þá hafði mig dreymt svo mikið bull að það var eiginlega léttir að því að vakna. Svo hringdi Rósa vinkona skömmu seinna og við ákváðum að labba lítinn hring hér í hverfinu. Ekki veitti af að frúin fengi smá súrefni, en það var ótrúlega napurt úti miðað við að hitastigið er í kringum frostmark og nánast logn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli