fimmtudagur, 15. mars 2012

Bjarkeyjarkvistur í vetrardvala

Þessa mynd tók ég dag einn þegar mig vantaði myndefni fyrir ljósmynd dagsins. Bjarkeyjarkvistur er heitið á runnunum fyrir framan húsið okkar. Í gær var ég að skoða gamlar myndir, til að finna gamla mynd af Ísaki til að setja á facebook, og sá þá hvað lóðin hjá okkur hefur breyst á þessum 17 árum síðan við fluttum hér inn. Til dæmis var þessi margumræddi Bjarkeyjarkvistur ekki kominn þá.

Það er alltaf pínu skrítið að skoða gamlar myndir. Einhver ljúfsár tilfinning sem fylgir því. Bæði gleði yfir góðum minningum og viss sorg yfir þeim sem ekki eru jafn góðar. Það er mín skoðun að þegar á heildina er litið sé mikilvægt að muna frekar eftir þessum góðu og leggja áherslu á þær.

Í einum þætti af dr. House (sem Anna og Kjell-Einar gáfu okkur í jólagjöf og við Valur horfum á), var kona sem hafði fullkomið minni. Hún var eins og tölva, gat kallað fram allar upplýsingar um ævi sína á augabragði. Sagt hvað hún var að gera klukkan þetta á þessum degi o.s.frv. Gallinn var hins vegar sá að hún notaði þennan "hæfileika" sinn til að halda bókhald yfir samskipti sín við fólk. Það er að segja t.d. varðandi samskipti við systur sína, þá taldi hún hreinlega fjölda þeirra skipta sem systirin hafði gert eitthvað á hennar hlut, og dró frá fjölda þeirra skipta sem systirin hafði komið vel fram við hana. Af því slæmu minningarnar voru fleiri en hinar, þá vildi hún ekki eiga samskipti við systur sína lengur. Og jafnvel þó systir hennar gæfi henni nýra þá dugði það ekki til að rétta bókhaldið af. Sorglegt!

Líklega er svona fullkomið minni ekki til í raunveruleikanum, en ég held samt að fólk hafi mismikinn hæfileika til að muna góða og slæma hluti. Það er að segja, sumir virðast hafa innbyggðan hæfileika til að muna frekar góðu hlutina, á meðan aðrir einblína meira á þá slæmu. Það hefur kannski eitthvað að gera með almenna sýn fólks á lífið og tilveruna, en til lengri tíma litið er það ábyggilega hollara fyrir líkama og sál að leggja sig frekar eftir því að muna góðu hlutina.

Engin ummæli: