sunnudagur, 25. mars 2012

Fröken upprifin mætt á svæðið eina ferðina enn

Það er greinilega að byggjast upp eitthvað stress hjá frúnni, sem gerir það að verkum að annað kvöldið í röð get ég ekki sofnað því ég er svo upprifin. Líklega er það fyrirhuguð Kristnes dvöl sem er að valda mér þessu hugarangri, þó ég geti ekki alveg útskýrt af hverju það er. En ég get reynt...

Svo ég byrji samt á því sem er jákvætt, þá þekki ég núna staðinn og veit mun meira út á hvað þetta gengur allt saman, heldur en síðast. Það er líka jákvætt að það tókst bara vel til að manna vinnuna mína, svo ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því. Eins er frekar rólegt þessa dagana í vinnunni, þannig að ég er ekki að stinga af á háannatíma.

Þá eru það hlutirnir sem eru að þvælast fyrir mér... Mig langar hálfpartinn að gera þetta almennilega og gista líka fremra, í stað þess að fara alltaf heim á daginn eins og ég gerði síðast. Það sem flækir það mál hins vegar er mataræðið mitt. Læknirinn talaði um að ég gæti fengið sérfæði en varaði mig jafnframt við því að það yrði ábyggilega fremur óspennandi matur. Ég gæti nú samt látið á það reyna. Þetta eru margar máltíðir á dag, og t.d. morgunmaturinn yrði ábyggilega höfuðverkur, svona ef hann ætti að koma úr eldhúsinu á sjúkrahúsinu, því ekki borða ég hafragraut og ekki brauð. En ég gæti náttúrulega haft með mér chia fræ og græjað morgunmatinn sjálf. Hins vegar fengi ég ábyggilega ekki eins mikið grænmeti þarna eins og ég hef verið að borða undanfarið. Salatið t.d. sem fylgdi matnum var mestmegnis kínakál og það er nú ekki mikil næring í því miðað við spínat. Hér heima hef ég verið að borða mikið hvítkál, blómkál, spergilkál, lauk, púrrulauk, gulrætur, sellerí, tómata, spínat, gúrku og ég er alveg viss um að þetta er að hafa góð áhrif á mig. Ég hef t.d. verið ótrúlega góð af heilaþokunni undanfarið og finnst eins og ég sé einhvern veginn aðeins að safna mér saman, þó það sé ekki farið að skila sér nógu vel enn hvað þreytuna snertir.

Annað sem ég veit náttúrulega ekki hvernig yrði á Kristnesi er svefnfriður... Ég held að það séu tvær saman á stofu og klósettið frammi á gangi, og ég þoli nú frekar illa hávaða í öðrum á nóttunni + vakna yfirleitt og fer á klósettið 1-3 sinnum á nóttu. Það er einhvern veginn öðruvísi að skrölta þetta um nætur heima hjá sér... eða það ímynda ég mér.

Svo hef ég pínu áhyggjur af því að mér hreinlega komi til með að leiðast seinni part dags og á kvöldin. En ég get jú prjónað, ég get tekið með mér tölvu, ég gæti lesið bækur og jafnvel skrifað niður einhverjar hugleiðingar. Svo verð ég nú ekki ein þarna og get spjallað við hitt fólkið + starfsfólkið sem ég þekki nú þónokkuð af.

Þannig að þegar öllu er á botninn hvolft er engin ástæða til að hafa áhyggjur eða stressa sig yfir þessari væntanlegu dvöl minni á Kristnesi.

Það er samt alltaf þessi púki á öxlinni á mér sem byrjar að tuða. Hann talar um það hvers konar aumingi ég sé að geta ekki komið mér sjálf í form, að ég sé nú ekki svo léleg, að ég líti út fyrir að vera fullkomlega heilbrigð og fólk muni ekki geta skilið hvað ég er að gera í endurhæfingu ... og bla, bla, bla. Meira hvað manns eigin hugur getur farið að rugla í manni. Auðvitað á ég skilið að öðlast meiri líkamlegan styrk og verða heilbrigðri, alveg eins og aðrir sem fara í endurhæfingu. Ekki hafa allir lent í slysi eða verið í liðaskiptaaðgerð. Margir eru einmitt eins og ég, búnir að vera að berjast við verki og vanlíðan í mörg ár, og þurfa bara smá aðstoð við að ná sér upp á ný.

En það er þetta með minn "tvöfalda persónuleika" sem mér finnst ótrúlega erfitt að vinna úr. Það er að segja, útlitslega séð virðist ég vera frísk eins og fiskur (eins og Danirnir orða það), og ef fólk þekkir mig ekki þeim mun betur veit það jú ekki við hvað ég á að stríða. Þannig að þegar ég svo fer á Kristnes líður mér hálf partinn eins og einvers konar loddara, bara af því ég er ekki með handlegginn í fatla eða annað álíka sýnilegt mein. Samt hafa konur sem ég þekki og voru heldur ekki með nein sýnileg mein farið í endurhæfingu á Kristnes og mér fannst alls ekkert athugavert við það. Þannig að þetta virðast í rauninni vera mínir eigin fordómar gagnvart sjálfri mér og mínum "sjúkdómi" sem eru að gera mér lífið leitt. Meiri vitleysan!!

Engin ummæli: