miðvikudagur, 28. mars 2012

Halló!

Bara svona aðeins að láta vita af mér. Tíminn flýgur hér á Kristnesi og ótrúlegt að þetta sé þriðji dagurinn í dag. Maður fer einhvern veginn inn í annan heim hérna. Aftengist frá daglegu lífi og fer inn í þá rútínu sem hér er í gangi. Það er ákveðin skipulögð dagskrá á hverjum degi s.s. fræðsla, gönguferðir, vatnsleikfimi og slökun. Svo bætast við tímar hjá sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, sálfræðingi og hjúkrunarfræðingi eftir þörfum. Eins er hægt að þjálfa sjálfur í rými sjúkraþjálfunar og komast í heita bakstra.

Ég ákvað að nýta sem mest út úr tíma mínum hérna með því að vera hér alveg yfir vikuna og fara bara heim um helgar. Það gefur ábyggilega betri hvíld í heildina séð og minna stress. Ég var svo oft á síðasta snúningi heiman frá mér þegar ég var hér í 2ja vikna dvölinni, og kom hingað stressuð og upptendruð á morgnana, sem er ekkert sérlega gáfulegt. Svo er líka gott að geta bara tekið því rólega eftir daginn, í stað þess að fara að bruna heim, þó ég sé nú ekki mikið að hamast heima hjá mér.

Það gengur mun betur með matinn en ég þorði að vona. Það eina er að ég fæ ávexti og sætar kökur (af því ég kunni ekki við að vera með enn lengri lista yfir mat sem ég borða ekki) en svo var ég líka búin að nesta mig fyrir vikuna og sá matur liggur nú bara undir skemmdum ... eða þannig. Það var nú samt frekar fyndið að ég fékk fyrirspurn frá einni á facebook varðandi það hvað ég myndi helst vilja borða. Þá er hún að vinna í eldhúsinu á sjúkrahúsinu og í sérfæðinu og þegar hún sá nafnið mitt á sérfæðislistanum þá ákvað hún að spyrja mig bara beint út þetta með matinn.

Ég var nú býsna lúin eftir sundleikfimina í gær og fyrradag, en það fer skánandi. Komst líka að því við samræður við sjúkraþjálfara í dag að ég hafði verið að gera sumar æfingarnar enn erfiðari með því að beyja mig í hnjánum til að vera dýpra ofan í vatninu. Við það kom álag á hnén og verkir í fæturnar sem voru alveg að drepa mig í gærkvöldi.

Jæja ætli þetta fari ekki að verða gott í bili. Ég er að prjóna peysu og ætla að fara að prjóna.. ;)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Held að það hafi verið rétt hjá þér að vera um kyrrt yfir vikuna, þó að það geti stundum verið hálfleiðinlegt. Er samt gott að vera með handavinnu og svo er nú alltaf hægt að líta í bók. Gangi þér vel. Kveðja Þórdís.

Guðný Pálína sagði...

Takk kærlega Þórdís :)