þriðjudagur, 16. ágúst 2011

Mikið sem er leiðinlegt að fara til tannlæknis

En það er víst ekki spurt að því. Ég fékk jú drep í rót um daginn, sem þýðir að það þarf að rótardrepa viðkomandi tönn og í dag var verið að fylla í rótina og svo á ég eftir að koma í þriðja sinn og þá verður sett fylling. Ekki er þetta nú beint gefins heldur. En það er að minnsta kosti gott að setjast aðeins niður og slaka á, það var svo mikill sprettur á mér áðan.

Ég var nefnilega að vinna í morgun og þó það væri rólegt í afgreiðslunni, þá hafði ég nóg að gera annað, og gleymdi tímanum þar til klukkan var orðin rúmlega hálf tvö. Þá áttaði ég mig á því að ég ætti að mæta til tannsa eftir tíu mínútur, og ákvað að hringja í starfsmanninn sem átti að leysa mig af, til að athuga hvort hann væri ekki með það á hreinu að hann hefði átt að koma fyrr. Hann var reyndar búinn að steingleyma því en dreif sig af stað. Ég kom samt 5 mínútum of seint til tannsa og var sveitt og með dúndrandi hjartslátt þegar ég settist í stólinn hjá honum. Hann var nú ekki stressaðri en það, að hann lét mig bíða í rúmar 5 mínútur eftir sér.

Jæja svo lá ég þarna með gapandi ginið í klukkutíma, og þegar ég ætlaði að standa á fætur aftur fékk ég þvílíkan svima, að ég þurfti að sitja á bekknum í smá stund og jafna mig. Eftir að ég var búin að borga tættist ég svo út í þorp að sækja vörur. Fór með vörurnar í búðina svo hægt væri að vinna við að taka þær upp og verðmerkja. Síðan fór ég með bókhaldsmöppurnar fyrir árið 2010 til endurskoðandans, en ég ætlaði að vera löngu búin að því. Í leiðinni þaðan kíkti ég inn í eina fatabúð, en fann að ég var ennþá hálf máttlaus og með hálfgerðan svima, svo ég dreif mig nú bara heim.

Nú er ég búin að borða afgang af morgunmatnum mínum (sem var í dag eggjakaka með púrrulauk, skinku og osti) og líður mun betur. Deyfingin er líka farin að minnka, sem betur fer. Næst á dagskrá er að fara og kaupa í matinn. Valur ætlar að elda pylsupasta og ég ætla að prófa að gera mér "pasta" úr kúrbít í staðinn fyrir venjulegt pasta.


Engin ummæli: