Anna hafði stungið uppá því að við færum að skoða garð, Ramme Gård, sem er í eigu norsks auðkýfings, Petter Olsen. Þetta er í raun stærðar býli sem er staðsett úti í sveit, og inni á svæðinu er skrúðgarður sem er opinn almenningi einn eftirmiðdag í viku yfir sumartímann. Þarna hefur verið stundaður lífrænn búskapur frá 1986, sem er mjög merkilegt finnst mér.
Eftir að hafa klætt okkur eins létt og við gátum (27 stiga hiti úti) þá ókum við af stað um 12 leytið. Ég vissi svo sem ekki við hverju var að búast í þessum garði, hélt að þetta væru falleg blóm en meira hugsaði ég ekki út í það. Þannig að það er óhætt að segja að garðurinn hafi komið á óvart. Þarna inni er gönguleið, í hlykkjum og skrykkjum, og endalaust eitthvað sem kemur á óvart. Styttur, stígar, rjóður, gróður, vatn, blóm, matjurtir, já það er ekki hægt að lýsa þessu með orðum. Ég var með stóru myndavélina með mér en eiginlega ekki rétta linsu m.v. tilefnið. Það hefði verið betra að vera með víðlinsu, sem hefði náð allri dýrðinni betur. Ég segi dýrð, því megnið af þessu var svo sannarlega dýrðlegt, þó alltaf megi deila um smekkinn. En ég held að myndirnar verði bara að tala sínu máli.
Við vorum nýkomnar þegar við sáum þennan fallega blómaakur. Og þvílíkur ilmur. Þetta var sama lykt eins og af sápublómunum uppá hól í gamla daga, nema bara enn meiri angan.Það var gott að finna skuggsæla bletti inn á milli, þvílíkur var hitinn úti.
Falleg tjörn og þessar hvítklæddu konur komu alveg eins og kallaðar inn í myndarammann. Það gerði reyndar líka karlmaður sem setti hendina inná myndina (óvart), en ég er búin að klippa hann burtu ;)
Eins og sjá má kenndi ýmissa grasa þarna. Þessi bekkur leit út fyrir að vera nokkuð gamall.
Já og inn á milli trjánna rákumst við á þessar kínversku/mongólsku? styttur.
Þessi trjágöng voru býsna tilkomumikil, og fjölbreyttur blómagróður eins og sjá má.
Þetta er hús auðkýfingsins og má ekki fara upp að því (skiljanlega).
Á grasflötinni beint fyrir framan íbúðarhúsið er þessi "bygging". Þegar staðið er inni í henni miðri sést niður trjágöngin sem sáust fyrr.
Þessi varð"maður" gætir tröppunnar upp að íbúðarhúsinu. Við Anna tylltum okkur á bekkinn þarna í smá stund, enda nauðsynlegt að slaka aðeins á og njóta þegar maður er á svona stað.
Ég tók ekki eftir því fyrr en Anna benti mér á það, en hér sér maður sjóinn blasa við í fjarska. Mér fannst nú helst eins og ég væri stödd í einhverju allt öðru landi en Noregi, t.d. á frönsku rívíerunni, m.v. útsýni og hitastig.
Á landareigninni er líka kaffihús. Þar er allt lífrænt, bæði matur og drykkir. Eins og sjá má þá er ansi mörgum ólíkum stílum blandað saman í garðinum, svo úr verður hálfgert ævintýraland. Ég verð að viðurkenna fáfræði mína, get hreinlega ekki sagt hvaðan þessi byggingarstíll kemur sem hér sést. En kaffihúsið er í þessari byggingu. Við fengum okkur dásamlega kanilköku og settumst út í skuggann og nutum þess að slaka á eftir alla gönguna.
Svona í lokin þá verð ég nú eiginlega að segja frá því hvernig klósettin voru þarna í garðinum. Maður opnaði hálfgerða flekahurð og kom inn í rými þar sem vaskurinn var en síðan voru (að sjálfsögðu) klósett fyrir bæði kynin. Klósettið sýndist mér við fyrstu sýn vera kamar, enda var setan byggð ofan í trékassa, en þetta var nú reyndar vatnsklósett. Maður dró í langa keðju til að sturta niður. Vaskurinn var fyrirbæri út af fyrir sig. Hann var í laginu eins og risastór skel úr marmara. Töluvert fyrir ofan vaskinn var eins konar stytta sem hékk uppi á vegg. Þetta var einskonar andlit, með götum fyrir augu og munn. Munnurinn var opinn. Ég áttaði mig á því að þetta hlyti að vera krani og leitaði að einhverju til að skrúfa frá honum. Og jú jú, gyllt ljónshöfuð var þarna niðri til vinstri. Viti menn, þegar ég snéri ljóninu þá kom vatn út úr munninum þarna uppi. Frekar fyndið, enda fékk ég hálfgert hláturskast, mér fannst þetta svo skemmtilega absúrd. En ég klikkaði alveg á því að taka mynd af fyrirbærinu.
Annað sem fékk okkur systur til að hlægja, voru styttur á öðrum stað í garðinum. Þær voru inni í rjóðri. Við innganginn að rjóðrinu var skilti sem á stóð "Den forbudte sti. All ferdsel skjer på eget ansvar". Þetta var sem sagt "bannsvæði" og á eigin ábyrgð að ganga þarna í gegn. Þrátt fyrir þessar aðvaranir var alveg ljóst að svæðið var opið almenningi (það sem var lokað var merkt með köðlum), svo við gengum áfram. Fyrst sáum við eina pínu dónalega styttu af karlmanni, og svo aðra. Þegar við gengum nær þessari síðari, sem var í formi risatyppis, kom góð vatnsbuna uppúr typpinu. Við áttuðum okkur á því að það var skynjari festur á tré, og þegar fólk gekk fyrir skynjarann til að komast að styttunni, þá fór vatnið í gang. Þetta var nú pínu fyndið, og ekki skemmdi fyrir að standa álengdar og sjá næstu menn lenda í því að fá á sig vatnsgusu...
Um kvöldið voru Kjell-Einar og Sigurður komnir heim úr Þrændalögum, svo við borðuðum öll saman. Það var "ekta" norskur sumarmatur, krabbi og rækjur í skel (sem maður þarf að pilla sjálfur). Hvítt brauð, majones og hvítvín með. Nammi namm.
Daginn eftir ók Anna mér svo út á flugvöll og þar með var þessari Noregsferð minni lokið - og hér með ferðasögunni líka!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli