Þegar við Valur vorum að koma að vestan, stoppuðum við m.a. í Búðardal. Þar var ansi hvasst, en engu að síður afar fallegt niðri við sjóinn. Svo fundum við líka nýlegan veitingastað þarna niður frá, þar sem við gátum keypt heimagerða súpu og brauð, svo ekki skemmdi það nú fyrir.
Annars er bara allt svipað að frétta. Dagarnir líða en í þessu dásemdarveðri sem verið hefur undanfarið er nú ekki hægt að kvarta. Mér finnst bara dýrðlegt að geta farið í sund á morgnana fyrir vinnu, þó ég syndi ennþá ekki nema ca. 10-12 ferðir og stoppi oft, til að sleikja sólina. Ég hef líka verið dugleg að fara í útiklefann, en því miður er sólin ekki komin þangað "inn" fyrr en um níu- hálftíuleytið, og það er eiginlega of seint svo ég nái henni.
Ég hef að langstærstum hluta haldið mig við þetta nýja mataræði og ekki dottið í sykur-sukk-kast ennþá. Gærdagurinn var lang erfiðasti dagurinn því þá var ég svo ótrúlega þreytt allan daginn - og með þreytunni kemur sykurlöngunin. En ég náði svona nokkurn veginn að standa mig. Fékk mér grænt te og síðan kaffi í vinnunni, svona til að halda mér vakandi. Svo þegar ég kom heim lagðist ég á sólbekk fyrir aftan hús og steinsofnaði. Ég sofnaði líka í sófanum eftir kvöldmatinn, og já sofnaði fast og vel í gærkvöldi og steinsvaf meira og minna til klukkan hálf tíu í morgun. Það er nú aldeilis gott að geta hvílt sig þegar maður er þreyttur ;)
Áðan fór ég reyndar á kaffihús með Sólrúnu og Rósu vinkonum mínum, og þá reyndi aðeins á, því það var ekkert í boði annað en sykurkökur. Ég valdi ostatertu og bað um rjóma með og borðaði svo bara hálfa sneið. Bað reyndar þjóninn um að fá "flís" af ostatertu en fékk auðvitað stóra þykka sneið. Rósa hló nú að mér, fyrir að mér skyldi detta það í hug að biðja um flís af kökunni, en það mátti reyna... En sem sagt, trixið er að fá sér þá rjóma með, því fitan veldur því að blóðsykurinn hækkar ekki jafn hratt.
En já, nú er að koma matur. Valur er að grilla humar, svo það er best að láta ekki bíða eftir sér.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli