föstudagur, 19. ágúst 2011

Föstudagsþreyta

Það er eiginlega frekar fyndið að fylgjast með þreytu-munstrinu hjá mér. Á mánudögum er ég bara nokkuð brött, enda fara laugardagar og sunnudagar yfirleitt meira og minna í hvíld hjá mér. Þriðjudagurinn er líka nokkurn veginn í lagi en á miðvikudegi fer að halla verulega undan fæti. Það sést vel á því að ef ég á frí, þá fer miðvikudagurinn mest í afslöppun, en ef ég er í vinnu þá er ég frekar lúin. Annað hvert miðvikudagskvöld (og stundum oftar) eru fundir í ljósmyndaklúbbnum og oftar en ekki er ég of þreytt til að mæta. Ef ég mæti, þá sleppa 45 mínútur fyrir horn, en eftir það er umhverfishávaðinn að æra mig og ég hef enga ánægju af því að sitja lengur. Fimmtudagar eru þreytudagar, ég vakna yfirleitt þreytt og er hálf drusluleg allan daginn. Föstudagar eru "úrvinda" dagar. Ég vakna örþreytt þó ég hafi sofið mína átta tíma um nóttina. Allt er erfitt og þó ég fari í sund, þá er ég þung á mér og jafnvel með svima í lauginni. Ég lufsast einhvern veginn í vinnuna og reyni að standa mína plikt þar, þrátt fyrir að langa mest að liggja uppi í sófa. Reyni að láta ekki sjá á mér hvað ég er þreytt. Það tekst yfirleitt svona nokkurn veginn, þó einstaka sinnum fari ég að rugla eitthvað eða gera vitleysur. Eftir kvöldmat á föstudegi langar mig óstjórnlega í eitthvað sætt. Sjálfsagt bæði til að fá orku - og eins í huggunarskyni (tröstespising eins og Norðmenn kalla það). Ég horfi út og hugsa að það væri gaman að fara út að taka myndir, en það er ekki séns að ég hafi mig í það. Eins gott að það er að koma helgi og þá næ ég vonandi að tjasla mér nóg saman til að lifa næstu viku af... Hm, enginn skemmtipistill í þetta sinn. Ég berst sem sagt enn og aftur við þreytudrauginn, og eins og alltaf ef ég hef átt aðeins betri tíma, þá eru það vonbrigði. Ég hélt t.d. í alvöru að þetta nýja mataræði væri bara strax farið að skila árangri, en m.v. gigtarverki og þreytustig í gær, þá er enn töluvert langt í land með það. En ætli sé nú samt ekki best að þrjóskast við aðeins lengur... Kannski er ég líka að borða of mikið af mjólkurvörum, það er slatti af rjóma, smjöri, kotasælu og jógúrti sem ég innbyrði þessa dagana. Já já, það þýðir ekki að vera með uppgjafartón, bara berjast áfram!!

Engin ummæli: