Við Valur fórum aðeins út á Gáseyri í gærkvöldi. Það stendur alltaf fyrir sínu sem útivistarsvæði og alveg dásamlegt að hafa aðgang að þessum flotta stað. Sólin var aðeins að stríða okkur. Var fjarverandi framan af en kom svo loks þegar við vorum farin að huga að heimferð. Þá "þurftum" við auðvitað að stoppa aðeins lengur, og þá náði ég þessari mynd. Kaldbakur sést þarna í fjarlægð, en reyndar ekki í fókus.
Það hefur verið afskaplega fallegt veður í dag, þó ég hafi nú haldið mig mest innandyra. Hitastigið svo sem ekkert til að hrópa húrra fyrir, 11 gráður og norðanátt, en sólin skín og það er fyrir mestu. Ég fór aðeins út í garð og reitti arfa í smá stund og við Valur snyrtum Seljuna, sem hefur aldrei náð fyrri sjarma eftir að hún fór á hliðina og við þurftum að færa hana.
Annars er dagurinn í dag sá þriðji í röð með höfuðverk og það fer að verða býsna þreytandi ástand. Kannski eru þetta fráhvarfseinkenni í tengslum við nýja mataræðið... en ég hef verið mjög dugleg að sleppa kolvetnum undanfarið. Kannski ekki sleppt þeim alveg 100%, enda ekki markmiðið hjá mér að megrast, svo ég má alveg borða pínu pons af kolvetnum. Snilldin er sú að við eigum þessa fínu næringarvog, svo það er minnsta málið að taka t.d. gulrót og vigta hana og fá fram upplýsingar um kolvetnamagn í gulrótinni (m.v. þyngd hennar). Ég ætla nú ekki að vera með neinar yfirlýsingar um það hversu vel mér á eftir að ganga með þetta mataræði, en ég finn strax mun á því hvað ég er miklu betri í maganum.
Ísak byrjar í ökukennslu á morgun og er spenntur fyrir því. Það er um að gera að nota tímann þar til skólinn byrjar, því eins og venjulega byrjar MA svo seint, og sumarvinnan hjá Ísaki búin, svo hann hefur ekki margt við að vera á daginn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli