miðvikudagur, 3. ágúst 2011

Draumadagur

Já þrátt fyrir að hafa legið andvaka fram undir kl. 2 í nótt þá rættist bara ótrúlega vel úr deginum hjá mér. Ég hafði stillt klukkuna á átta af því ég ætlaði að fara að færa bókhald (þarf að gera það þegar lokað er í búðinni) en ég lá nú aðeins lengur því mér leið eiginlega eins og trukkur hefði keyrt yfir mig. En svo lufsaðist ég nú á lappir, sótti mér brauð og te og settist fyrir framan tölvuna. Ég var í smá kapphlaupi við klukkuna og náði að færa nánast alla reikningana sem eftir voru, áður en klukkan varð tíu. Nú á ég bara eftir að lesa yfir og leita að villum, og þá er hægt að skila skattinum því sem honum ber.

Um hálf ellefuleytið var veðrið úti svo yndislegt að mér fannst ekki annað hægt að fara í sund. Og af því ég var nú svo rosalega fersk, þá klæddi ég mig í sumarleg föt (alveg lykilatriði sko!) og hjólaði í sund. Þar fór ég í útiklefann (annað lykilatriði í svona góðu veðri!) og svamlaði svo aðeins milli bakkanna. Ég reyndi ekki einu sinni að þykjast ætla að vera dugleg. Synti bara rólega 2-3 ferðir í einu og hvíldi mig á milli. Þá lá ég með lokuð augun, með höfuðið á bakkanum og bara naut þess að vera til og láta sólina skína á mig. Svo hitti ég reyndar konu sem ég þekki og við spjölluðum í góða stund. Hún átti heima hér í hverfinu sem krakki og var nýlega að flytja aftur á fornar slóðir, bara ekki í sömu götuna. Ég entist nú ekkert voðalega lengi ofaní - en það var allt í lagi - ég gat þá notið þess að vera í útiklefanum að klæða mig og enn skein sólin á mig. 

Svo tók við að hjóla heim og það gekk nú ekki alveg jafn vel og að hjóla niðureftir... en hafðist án teljandi vandræða. Ég fann afganga af lambalæri í brúnni sósu í ísskápnum og settist með lambið, dagblöðin og tebolla út í garð. Það var svo kyrrt. Heyrðist bara í einstöku fugli sem flaug hjá, og svo þessi venjulegu umhverfishljóð, sem voru þó öll óvenju lágstemmd framan af. Börn að leik, bíll að keyra framhjá, en inn á milli var líka algjör þögn. Og ég var eins og köttur sem komist hefur í rjóma, mér leið svo vel. Svo reyndar fór að heyrast í sláttuvél og síðan þyrlu, en þetta var dásamlegt svo lengi sem það varði. 

Sem sagt: Draumadagur :-)


Engin ummæli: